Sjónvarpsþættirnir um sálfræðinginn Frasier Crane slógu rækilega í gegn víða um heim, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum. Þættirnir voru í sýningu í ellefu ár, frá 1993 til 2004 og unnu til 37 Emmy-verðlauna. Aðalleikendur þáttanna urðu heimsfrægir. Sumir þeirra eru enn iðnir við að leika meðan aðrir koma sjaldnar fram.
David Hyde Pierce David Hyde Pierce sló í gegn sem hinn nett taugaveiklaði Niles, bróðir Frasier, sem elskaði Daphne svo heitt. Í ellefu ár samfleytt var hann tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir leik sinn í þáttunum og vann 1995, 1998, 1999 og 2004.Hann hefur bæði leikstýrt og leikið á Broadway og vann til Tony-verðlauna árið 2007 fyrir leik sinn í söngleiknum Curtain. Hann hefur einnig komið fram í kvikmyndum og má þar nefna Nixon og Sleepless in Seattle. Hann hefur unnið við talsetningu þar á meðal í The Simpsons. Þessa dagana leikur hann í Hello Dolly á Broadway en þar fer Bette Midler með aðalhlutverkið.Leikarinn kom út úr skápnum árið 2007 og sagði umheiminum að hann hefði verið í sambandi við Brian Hargrove í rúma tvo áratugi. Þeir giftu sig árið 2008.
Mynd: EPA
Peri Gilpin Peri Gilpin sló í gegn sem Roz Doyle í þáttunum en þar lék hún samstarfskonu Frasier. Hún hefur síðan leikið í fjölmörgum sjónarpsþáttum. Hún er gift listmálaranum Christian Vincent en þau giftu sig árið 1999 á heimili Kelsey Grammer. Þau eiga tvíburadætur. Gilpin og Jane Leeves (Daphne Moon) eru nágrannar og miklar vinkonur.
Jane Leeves Á þeim tíma sem Jane Leeves lék Daphne Moon, húshjálpina á heimili Frasier, var hún hæst launaða enska leikkonan í bandarísku sjónvarpi. Hún lék Sally Bowles í Cabaret á sviði og sló síðan í gegn í sjónvarpsþáttunum Hot in Cleveland.
John Mahoney John Mahoney lék heimilisföðurinn í Frasier. Eftir að þáttunum lauk hefur hann sést í nokkrum sjónvarpsþáttum. Mahoney er fámáll um einkalíf sitt. Hann hefur aldrei kvænst en verið í nokkrum samböndum.
Moose Moose lék hundinn Eddie í þessum vinsælu sjónvarpsþáttum. Umtalað var hversu lengi og fast hann gat starað hreyfingarlaus á persónur þáttanna, sérstaklega Frasier. Þegar vinsældir þáttanna voru hvað mestar fékk Moose fleiri aðdáendabréf en meðleikarar hans. Moose átti nokkur afkvæmi. Þar á meðal var Enzo sem hljóp oft í skarðið fyrir föður sinn í þáttunum á seinni árum þegar Moose var ekki jafn frískur og hann var í upphafi. Ævisaga Moose, My Life as a Dog, var skrifuð af Brian Hargrove, eiginmanni David Hyde Pierce (Niles). Moose kvaddi þennan heim árið 2006. Sonur hans og alnafni, Moose, býr hjá Peri Gilipin, sem lék Roz Doyle í þáttunum.