Foreldrarnir og stjúpforeldrarnir hittast öll og styðja Maelyn á fótboltaleikjum
Ricky og Clara, foreldrar hinnar 4 ára gömlu Maelyn skildu skömmu eftir að hún fæddist. En þó að leiðir hjónanna hafi skilist voru þau staðráðin í einu: Maelyn yrði að alast upp með báðum foreldrum sínum. Frá þessu er greint í frétt á Boredpanda.
Ricky og Clara eru hvort fyrir sig komin með nýjan maka og komin á sitthvorn staðinn í lífinu en þau láta það hins vegar ekki koma í veg fyrir að dóttir þeirra geti varið tíma sínum með báðum foreldrum.
Í staðinn fyrir að alast upp eins og mörg skilnaðarbörn og vera hjá mömmu og pabba til skiptis er Maely litla einfaldlega með bæði foreldrum og stjúpforeldrum sínum í einu.
Ricky og Clara koma saman með mökunum og styðja stelpuna öll fjögur á fótboltaleikjum, fara með henni í ferðalög og veislur og gera allt saman sem venjuleg fjölskylda myndi gera.
Mynd sem Emilee, stjúpmamma Maelyn, setti á Facebook fyrir skömmu hefur hlotið gríðarlega góð viðbrögð. Þar sést Maelyn umkringd foreldrum sínum og stjúpforeldrum þar sem þau studdu hana á fótboltaleik, en þá voru þau klædd í vægast sagt skemmtilegar fótboltatreyjur. Myndinni hefur verið deilt tæplega 85.000 sinnum á aðeins örfáum dögum.
Emilee vill vekja athygli á því með myndinni að foreldrar geti alið upp börn í sameiningu, þó svo að þeir séu ekki í sambúð.
„Ég veit það af reynslu minni að það er þarf ekki að hafa áhrif á uppeldið! Gerðið það sem er best fyrir barnið ykkar og allt á eftir að smella saman,“ skrifar Emilee á Facebook.