Kerrie-Ann Lomas, tveggja barna móðir frá Merseyside í Bretlandi, hefur vakið heimsathygli fyrir áreynslulausan söng þar sem hún syngur Listen eftir Beyoncé
„Mér finnst það ótrúlegt að myndskeið af mér, sem móðir mín tók upp, geti ferðast svona um heiminn líkt og raun ber vitni,“ segir Kerrie-Ann Lomas, 26 ára tveggja barna móðir í Bretlandi, sem skaust svo sannarlega upp á stjörnuhimininn í dag þegar breskir fjölmiðlar birtu myndskeið af Kerrie-Ann syngja í sófanum heima hjá sér.
Í myndskeiðinu sést hvar Kerrie-Ann situr sallaróleg í sófanum heima hjá sér ásamt dóttur sinni sem er þriggja ára gömul. Eftir örfáar sekúndur hefst undirspil Listen, lag sem Beyoncé gerði frægt og flestir eiga mjög erfitt með að syngja. En ekki Kerrie-Ann. Hún syngur lagið eins og hún hafi aldrei gert neitt annað og fyrir það hefur þessi „venjulega húsmóðir“, eins og hún lýsir sér sjálf, vakið verðskuldaða heimsathygli fyrir.
Blaðamaður DV ákvað að kanna hvort hægt væri að ná sambandi við þessa nýjustu stjörnu Bretlands en The Sun, Mirror, The Daily Mail og Liverpool Echo hafa öll birt viðtal við hana í dag. Kerrie-Ann var fljót að svara blaðamanni DV í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook og þótti það ótrúlega skemmtilegt að heyra að myndskeiðið hafi borist alla leið til Íslands.
„Það fyrsta sem mig dettur í hug þegar ég hugsa um Ísland er snjór og ísbirnir,“ sagði Kerrie-Ann við blaðamann í dag.
„Mig hefur alltaf langað til að koma til Íslands og sjá stórbrotnu náttúruna og þessa fallegu staði sem ég hef heyrt af.“
Ég verð að svekkja þig samt. Hér eru engir ísbirnir.
„Haha, ég veit! Mig langar svo svakalega að sjá norðurljósin og get ekki beðið eftir því að koma í heimsókn!“
Kerrie-Ann segist hafa byrjað að syngja þegar hún var aðeins þriggja ára gömul. Hún hefur tvisvar sinnum reynt að komast í prufur fyrir X-Factor en ekki haft erindi sem erfiði.
„Ég hef aðeins sungið hérna heima hjá mér og hef ekki hlotið neina þjálfun í söng,“ segir Kerrie-Ann sem er orðlaus yfir þeirri athygli sem heimsbyggðin hefur sýnt myndskeiðinu sem nú nálgast milljón áhorf á Facebook.
„Athyglin var og er yfirþyrmandi. Við erum ekki bara að tala um Bretland heldur hefur myndskeiðið farið út um allan heim. Ég var ekki alveg undirbúin undir það. Að sjálfsögðu fylgir þessu neikvæð athygli líka en það á reyndar við um hvað sem þú gerir. Ef ég væri til dæmis myndlistarkona þá gefur það augaleið að það koma ekki allir til með að elska verkin mín. Þetta er ekkert öðruvísi. Ég get ekki þóknast öllum, alltaf. En ef ég fæ einhvern einn til þess að líða betur þá vegur það þyngra en nokkur neikvæð gagnrýni.“
En hvert mun þetta ævintýri leiða þig? Hefuru hugmynd um það?
„Nei, ég hef enga hugmynd! Ég hef aldrei reynt að leggja söng fyrir mig í atvinnuskyni þar sem börnin mín tvö eru í algjörum forgangi hjá mér. Ég mun samt halda áfram að setja inn myndskeið inn á Facebook-síðuna mína og mögulega skipuleggja tónleika hér heima,“ segir Kerrie-Ann og biður að lokum að heilsa öllum á Íslandi. Hægt er að fylgjast með nýjustu myndskeiðum Kerrie-Ann á nýrri Facebook-síðu sem hún bjó til með því að smella hér!
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=1p25S5xzwww&w=560&h=315]