„Það er engin smáupphæð sem er tekin af okkur í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðirnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við peningana, þeir eiga svo mikið af þeim. En ef eldri borgarar vilja að fá eitthvað af sínum eigin peningum til baka þá blæðir þeim hjá lífeyrissjóðunum alveg óskaplega. Lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta í húsnæði sem hentar öldruðum,“ segir Helgi Vilhjálmsson, Helgi í Góu í viðtali í helgarblaði DV. „Mér finnst leiðinlegt að það skuli hafa farið framhjá öllum að í hruninu sögðust lífeyrissjóðirnir hafa tapað 500 milljörðum. Hvernig stóð á því? Það var ekki skoðað. Ég hef spurt: Af hverju töpuðu lífeyrissjóðirnir með alla sína sérfræðinga? Sjálfur tapaði ég engu í hruninu. Ég vil fá svar við þessari spurningu en það virðist enginn hafa tíma til að kafa ofan í það mál. Hvernig væri að fjölmiðlar sinntu því.“
Helgi minnist á áhugaleysi stjórnmálamanna á því að bæta haga eldri borgara. „Maður kýs þá sem maður heldur að muni koma hlutunum í rétt far en svo virðast þeir ekki hafa áhuga á því. Sjáðu ungu Sjálfstæðismennina. Þeir eru æstir í að koma brennivíni inn í allar búðir en þeim er alveg sama um okkur eldri borgarana. Ég vil sjá þá eins æsta í að gamla fólkinu líði vel í ellinni. Svo mega þeir ekki gleyma því að þeir verða sjálfir gamlir einn góðan veðurdag. Þeir ættu að huga að því frekar en að leggja alla áherslu á að koma rauðvíninu sínu inn í Hagkaup.“