fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

„Enginn getur barist að eilífu gegn ofurefli“

Þorleifur Kristínarson hvarf sporlaust fyrir tveimur árum – Lík hans hefur aldrei fundist

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 3. febrúar 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 16. desember 2014 birtu íslenskir fjölmiðlar fréttir af því að lýst væri eftir tvítugum Íslendingi, Þorleifi Hallgrími Kristínarsyni, sem hafði verið týndur í fjóra daga. Hann fór út að skemmta sér í bænum Fredrikshavn í Danmörku á föstudagskvöldi en skilaði sér aldrei heim til sín. Hvarf hans var ráðgáta. Tveimur dögum síðar var tilkynnt um að leit hefði verið hætt. Greint var frá því að í myndskeiði frá öryggismyndavélum sæist maður sem líktist Þorleifi klifra inn á afgirt hafnarsvæði og talið væri að hann hefði endað í höfninni. Aldrei var þó greint frá því að til væri myndband þar sem Þorleifur sést ganga að bryggjusporðinum í Fredrikshavn og stökkva óhikað í faðm Ægis. Í helgarviðtali DV er rætt við móður Þorleifs, Kristínu Hildi Þorleifsdóttur, um harmsögu sonar síns, sem hófst með hræðilegum veikindum á barnsaldri sem ollu því að Þorleifur „brann“ fyrir augum móður sinnar og missti 60 prósent af húð sinni. Það var upphafið á átta ára stríði fyrir dómstólum, einelti og barsmíðum. Að hennar sögn brást kerfið Þorleifi og hann átti sér ekki viðreisnar von. „Hvert sem hann sneri sér þá rakst hann á veggi,“ segir Kristín Hildur um átakanlegt fráfall frumburðar síns.

Hér má sjá mynd af Þorleifi skömmu fyrir erfið veikindi sem mörkuðu líf hans.
Kátur drengur Hér má sjá mynd af Þorleifi skömmu fyrir erfið veikindi sem mörkuðu líf hans.

„Ég horfði á hann brenna“

Mæðginin fluttu til Danmerkur árið 1995 en þá var Þorleifur aðeins eins árs gamall. Bróðurpart þessara tveggja áratuga bjuggu mæðginin í eða í grennd við Hanstholm, litlum útgerðarbæ í Norður-Jótlandi þar sem ferjan Smyril Line kemur að höfn frá Seyðisfirði. Þorleifur var heilbrigður og kátur drengur fyrstu árin þar til ógæfan dundi yfir þegar hann var sex ára gamall. Hann veiktist af vægri flensu og leitaði Kristín Hildur til læknis til að fá bót meina hans. Læknirinn ávísaði hálfri panódíl til að vinna á veikindunum en allt kom fyrir ekki. Ástandi Þorleifs hrakaði stöðugt. Hann var lagður inn á Thisted-spítala tveimur dögum síðar og var þá gríðarlega kvalinn. „Ég horfði á hann brenna upp fyrir framan augun á mér. En ég gat ekkert að gert. Ég get ekki einu sinni reynt að lýsa því með orðum hversu hræðileg tilfinning þetta var. Vanmátturinn var algjör en ég trúði og treysti því að læknarnir vissu hvað þeir væru að gera,“ segir Kristín Hildur.

„Hann var búinn að fá nóg. Hvert sem hann sneri sér þá rakst hann á veggi og hann gat ekki meira.“

Greindur með ofnæmi

Fjórum dögum síðar kom í ljós að Þorleifur litli var með heiftarlegt ofnæmi fyrir parasetamóli, sem er lykilhráefni í verkjalyfjum eins og panódíl. Þá höfðu læknarnir meðal annars meðhöndlað Þorleif eins og hann þjáðist af mislingum. Litli drengurinn var að lokum fluttur á sjúkrahúsið í Árósum þar sem læknar uppgötvuðu hvaða amaði að og rétt meðferð hófst. „Þorleifur var við dauðans dyr og lá sofandi í öndunarvél í tæpar sjö vikur. Hann fékk blöðrur, eins og eftir brunasár, um allan líkamann og missti 60 prósent af húð sinni,“ segir Kristín Hildur. Þegar litli drengurinn vaknaði loks upp þá voru kvalirnar óbærilegar. Alls þurfti hann að dveljast í 14 mánuði á sjúkrahúsi.

„Lögreglan ætlaði ekki að sýna mér myndbandið og réð mér í raun alfarið frá því að horfa á það. Ég varð hins vegar að fá að vita alla söguna og sjá hvernig hann bar sig að. Hvort hann hafi verið tvístígandi eða jafnvel hrasað út í höfnina. Ég varð að fá þetta uppgjör og ég er sátt við að hafa lagt þetta á mig,“ segir Kristín Hildur um myndbandið þar sem Þorleifur, frumburður hennar, sést stytta sér aldur.
Kristín Hildur Þorleifsdóttir „Lögreglan ætlaði ekki að sýna mér myndbandið og réð mér í raun alfarið frá því að horfa á það. Ég varð hins vegar að fá að vita alla söguna og sjá hvernig hann bar sig að. Hvort hann hafi verið tvístígandi eða jafnvel hrasað út í höfnina. Ég varð að fá þetta uppgjör og ég er sátt við að hafa lagt þetta á mig,“ segir Kristín Hildur um myndbandið þar sem Þorleifur, frumburður hennar, sést stytta sér aldur.

Kallaður „Scarface“

Sýkingin náði í augu hans og gerði að verkum að hann missti sjón á hægra auga. Það var svo illa farið að taka þurfti húð úr kinn Þorleifs til þess að græða yfir augað. „Augnlokin greru við augað og læknarnir gerðu gat á þau. Það gerði að verkum að hornhimnan á auganu eyddist smátt og smátt upp.“ Litli drengurinn hafði veikindin af en ljóst var að líf hans yrði aldrei samt. „Hann var alsettur örum og sárum um allt andlitið og líkamann. Hann var svo illa farinn að hann þurfti að fara í endurhæfingu og læra að ganga upp í nýtt. Hann þurfti að dveljast í 14 mánuði á sjúkrahúsi en hann stóð sig eins og hetja,“ segir Kristín Hildur. Barátta hans vakti athygli úti í Danmörku og fjallaði Ekstra Bladet um veikindi hans.

Þorleifur missti eðli málsins samkvæmt talsvert úr skóla á þessum erfiða kafla í lífi sínu og þegar hann mætti loks þá var honum ekki tekið hlýlega. Fljótlega hófu krakkar í skólanum að stríða honum og hann fékk að heyra háðsglósur um útlit sitt. Móðir hans sá að þetta gæti ekki gengið og brá á það ráð að taka Þorleif úr almennum grunnskóla og setja hann í einkaskóla þar sem hann fékk frið fyrir grimmd skólafélaganna. Hann bjó hjá ömmu sinni og afa á Mors-eyju í Limafirði virka daga þar sem hann sótti skólann og fór síðan heim til móður sinnar og systkina um helgar. Þorleifur naut sín vel í einkaskólanum og þar hætti áreitið. Hann flutti síðan aftur til Hanstholm um fermingaraldurinn og þá hófst eineltið aftur. „Hann var meðal annars kallaður „Scarface“ og var reglulega fórnarlamb barsmíða. Honum leið mjög illa en sem betur fer átti Þorleifur alltaf góða vini sem hjálpuðu honum í gegnum þetta. En þessi illgirni tók að sjálfsögðu verulega á hann,“ segir Kristín Hildur.

Augað stóð út úr tóftinni

Sjálf átti hún mjög erfitt með að sætta sig við afleiðingar veikinda Þorleifs. „Ég varð sjálf fyrir óhappi þegar ég varð sex ára. Ég var í sveit hjá ömmu og afa en þau tóku reglulega að sér erfið ungmenni. Eitt sinn var ég að rífast við eldri strák um hver ætti að sitja fram í þegar hann sló mig í andlitið með hvössu verkfæri. Ég hljóp inn til ömmu og þá kom í ljós að gat var komið á augasteininn,“ segir Kristín. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að hún hélt auganu en missti alveg sjónina á því. „Þetta hafði mikil áhrif á mig. Augasteinninn var saumaður og ég fór í nokkrar aðgerðir til að reyna að bjarga sjóninni. Meðal annars var settur leppur yfir heila augað til að laga hið meidda. „Þetta gerði að verkum að mér gekk illa að læra að lesa og skrifa. Ég kunni bara að vera blind. Þessi erfiða reynsla úr æsku minni varð eflaust til þess að ég varð gjörsamlega örvilnuð þegar ljóst var að Þorleifur væri að missa sjónina á öðru auga á sama aldri og ég,“ segir Kristín Hildur.

Vann sigur eftir átta ára baráttu

Í framhaldi af veikindum sonar síns hafi hún að öllum líkindum fengið taugáfall og þurfti að leggjast inn á geðdeild þar ytra til þess að ná áttum. „Foreldrar mínir aðstoðuðu mig mikið meðan á þessu stóð. Þau hafa verið mín stoð og stytta. Þau bjuggu hérna úti í átján ár en eru nýflutt heim til Íslands,“ segir Kristín Hildur. Hún jafnaði sig smám saman og hófst þá handa við að sækja rétt Þorleifs fyrir dómstólum. „Sú barátta tók átta ár en endaði með því að niðurstaðan var sú að um læknamistök hefði verið að ræða og hann fékk greiddar bætur vegna skaðans. Það var vissulega sætur sigur en bætti að sjálfsögðu ekki fyrir þær þjáningar sem Þorleifur hafði upplifað,“ segir Kristín Hildur. Langtímaafleiðingar slyssins voru þær að Þorleifur upplifði sífelld óþægindi í augunum og suma daga var hann kvalinn og sá illa. „Tárakirtlarnir skemmdust sem gerði að verkum að hann þurfti sífellt að nota augndropa. Á þriggja mánaða fresti þurftum við síðan að heimsækja augnlækni til að plokka inngróin augnhár sem ollu honum miklum óþægindum,“ segir Kristín Hildur.

Þessi mynd er frá síðustu heimsókn Þorleifs til Íslands árið 2013.
Síðasta heimsóknin til Íslands Þessi mynd er frá síðustu heimsókn Þorleifs til Íslands árið 2013.

Íþróttaiðkun yngri systkina var mikið áhugamál

Þorleifur var frumburður Kristínar Hildar en hún á fjögur önnur börn, hálfsystkini Þorleifs. Þrátt fyrir erfiðleika Þorleifs þá hafi hann verið góður stóri bróðir sem reyndist systkinum sínum vel. „Við vorum miklir vinir og gátum alltaf hlegið saman. Hann var alltaf í góðu skapi og brosandi. Við skildum hvort annað afskaplega vel,“ segir Kristín Hildur. Þau hafi sameinast í áhuga á íþróttaiðkun yngri systkina Þorleifs. „Hann hjálpaði mér að skutla þeim á æfingar og annað. Við vorum í þessu af lífi og sál. Yngstu systkini hans eru enn dugleg í handbolta og fótbolta en ég fæ alltaf einhverja tómleikatilfinningu þegar ég er skutla þeim á æfingar eða mót. Þorleifur stóð alltaf í þessu með mér,“ segir Kristín Hildur. Hún segir að yngri systkini Þorleifs hafi tekið fráfalli hans af fádæma yfirvegun og styrk.

Atvinnuleysið olli hugarangri

Eins og áður segir þá átti Þorleifur góða og trausta vini sem studdu hann þegar á reyndi. „Bestu vinir hans voru hér sem heimagangar og mér þykir ákaflega vænt um að þeir halda enn sambandi við mig þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá hvarfi sonar míns,“ segir Kristín Hildur. Þegar skólagöngu Þorleifs lauk reyndi hann að fóta sig á vinnumarkaði en þar, eins og svo oft og víða á hans stuttu ævi, lenti hann á vegg. „Ég er ákaflega reið út í yfirvöld hér úti vegna meðhöndlunarinnar á honum. Þorleifur gat ekki unnið 100 prósent vinnu og því freistuðum við þess að fá hann metinn með örorku að hluta. Það gekk hins vegar ekki. Það er mun erfiðara að fá slíkt metið hér í Danmörku samanborið við Ísland. Honum var því þrýst út á vinnumarkaðinn en þar fékk hann ekki starf við hæfi. Það olli honum miklu hugarangri,“ segir Kristín Hildur. Að hennar mati frömdu dönsk félagsmálayfirvöld mannréttindabrot með meðferðinni á Þorleifi og helst vildi hún leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þess. „Ég hef alvarlega íhugað að leita til lögfræðinga vegna þessa eða berjast með einhverjum hætti til þess að kerfið verði bætt. Þorleifur þurfti hjálp en fékk bara kulda og skilningsleysi,“ segir hún.

Taldi sig þurfa að komast í skjól frá umheiminum

Eins og ungu fólki er tamt þá fór Þorleifur reglulega út að skemmta sér með vinum sínum. Þar varð hann einnig fyrir áreiti og stundum sauð upp úr. „Það var alltaf ráðist gegn Þorleifi og jafnvel þegar vinir hans voru með í för þá fékk hann alltaf verstu útreiðina,“ segir Kristín Hildur. Svo langt gekk áreitið að dómstólar dæmdu fimm fullorðna menn í nálgunarbann gagnvart Þorleifi. Þá lenti hann í skelfilegum barsmíðum fyrir jólin 2013 þegar sparkað var af alefli í höfuð hans. Nokkru síðar fékk hann högg í andlitið sem næstum því kostaði hann sjónina að fullu. „Höggið hitti hann svo illa að afleiðingarnar urðu þær að hann var aðeins með 20 prósent sjón á heila auganu. Það var mikið áfall en blessunarlega þá gekk skaðinn smátt og smátt til baka og varð ekki varanlegur,“ segir Kristín Hildur. Allt þetta áreiti sem Þorleifur varð fyrir gerði að verkum að hann týndist tvisvar fyrir kvöldið afdrifaríka í Fredrikshavn. „Þegar hann smakkaði áfengi þá fylltist hann stundum þeim ranghugmyndum að allir vildu vinna honum mein. Eitt sinn fannst hann skólaus í felum inni í ókunnugum stigagangi. Þá taldi hann sig þurfa komast í skjól frá umheiminum,“ segir Kristín Hildur.

Hún hafði verulegar áhyggjur af syni sínum og fann hvað honum leið illa þrátt fyrir að hann reyndi að bera sig vel. „Hann upplifði alls staðar mótlæti og það er takmarkað hvað einn einstaklingur getur þolað af því. Ég reyndi að fá hann til að flytjast heim til Íslands, til ættingja okkar hér á landi en hann tók því fálega,“ segir hún. Þorleifur upplifði þó mjög góða kafla inni á milli og Kristínu Hildi er sérstaklega minnisstætt símtal 6. desember, innan við viku áður en Þorleifur hvarf. „Þá fór hann á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni sinni og skemmti sér frábærlega. Ég talaði aðeins við hann í síma og hann var alsæll,“ segir Kristín Hildur.

„Ég fer mínar leiðir“

Kvöldið afdrifaríka, 12. desember 2014, fór Þorleifur til Fredrikshavn til að skemmta sér. Það kvöld heyrði hann í móður sinni í síma í hinsta sinn. „Hann var frekar leiður og ég hafði áhyggjur af honum. Hann var nýhættur með kærustu sem hafði tekið saman við annan strák og ég vissi að honum hafði sárnað það mjög. Ég bað hann um að passa vel upp á sig og þá varð hann enn leiðari. Eftir á að hyggja þá vissi hann að þetta yrði í síðasta skipti sem hann talaði við mig og hann átti erfitt með að kveðja. Við spjölluðum aðeins saman og síðustu orðin sem hann sagði, áður en hann kvaddi, voru: „Ég fer mínar leiðir“, segir Kristín Hildur. Hún hafi ekki áttað sig á merkingu þeirra þá en síðan hafi setningin ásótt hana.

„Við spjölluðum aðeins saman og síðustu orðin sem hann sagði, áður en hann kvaddi, voru „Ég fer mínar leiðir“.“

„Ég varð að fá þetta uppgjör“

Sólarhringur leið þar til tilkynnt var um hvarf Þorleifs. „Ég var stödd á bingókvöldi skammt frá heimili mínu. Það var svo skrítið að allt í einu þyrmdi yfir mig og ég fann að eitthvað var í gangi. Þá hringdi síminn hjá umsjónarmanni kvöldsins sem var afar vandræðalegt enda var hann nýbúinn að biðja alla um að slökkva á símum og ganga frá þeim. Þá var verið að leita að mér. Skömmu síðar náði sambýlismaður minn í mig og sagði mér að Þorleifs væri saknað. Þá vissi ég að eitthvað hræðilegt hefði gerst,“ segir Kristín Hildur.

Samkvæmt öryggismyndavélum sást Þorleifur yfirgefa krá í Fredrikshavn kl. 6.20 og ganga í átt að höfninni. Eins og áður segir fjölluðu danskir og íslenskir fjölmiðlar um málið en aðeins var greint frá því að Þorleifur hefði sést klifra yfir girðingu hjá höfninni og síðan hefði leit verið hætt nokkrum dögum síðar. Sannleikurinn var hins vegar sá að lögreglan uppgötvaði annað myndband þar sem Þorleifur sést ganga að hafnarbakkanum og síðan stökkva út í opinn dauðann. „Lögreglan ætlaði ekki að sýna mér myndbandið og réð mér í raun alfarið frá því að horfa á það. Ég varð hins vegar að fá að vita alla söguna og sjá hvernig hann bar sig að. Hvort hann hafi verið tvístígandi eða jafnvel hrasað út í höfnina. Ég varð að fá þetta uppgjör og ég er sátt við að hafa lagt þetta á mig,“ segir Kristín Hildur.

Hún segist hafa fellt nokkur tár við að horfa á myndbandið en síðan hafi hún horft á lögreglumanninn sem stóð á móti henni og sagt að hún skildi ákvörðun sonar síns. „Hann var búinn að fá nóg. Hvert sem hann sneri sér þá rakst hann á veggi og hann gat ekki meira,“ segir Kristín Hildur klökk.

„Hann var meðal annars kallaður „Scarface“ og var reglulega fórnarlamb barsmíða.“

Líkið ófundið

Hún er afar ósátt við viðbragðstíma lögreglu vegna hvarfs Þorleifs. „Lögreglan byrjaði ekki að leita af alvöru fyrr en á þriðjudeginum. Þá finna þeir þessi myndbönd og sjá nákvæmlega hvar hann stekkur,“ segir Kristín Hildur. Aðeins var leitað í höfninni í tvo daga með sónartækjum en síðan var leitin blásin af. Mikil skipaumferð og sterkir straumar eru á svæðinu og var það mat sérfræðinga að líkið hefði rekið á haf út. „Ef lögreglan hefði brugðist fyrr við þá hefðu þeir fundið son minn. Þeir vildu ekki einu sinni kalla til kafara til að leita. Það var leitað með hálfum huga og það er hræðileg tilhugsun að drengurinn minn sé ekki fundinn,“ segir Kristín Hildur. Hún telur að ekki hafi verið leitað nægilega vel í höfninni og brá því á það ráð að fá liðsinni hóps í Danmörku sem leitar að týndu fólki. „Þeir ætluðu að fá bát til þess að leita almennilega í höfninni en fengu ekki leyfi til þess. Það var karpað um það í fjóra mánuði en síðan þurfti hópurinn frá að hverfa. Það var afar sárt að upplifa þetta fullkomna áhugaleysi á því að finna son minn,“ segir Kristín Hildur.

Hér kaus Þorleifur H. Kristínarson að binda enda á líf sitt í desember 2014.
Hafnarsvæðið í Fredrikshavn Hér kaus Þorleifur H. Kristínarson að binda enda á líf sitt í desember 2014.

Mikill söknuður

Tíminn frá fráfalli Þorleifs hefur reynst Kristínu Hildi og fjölskyldu hennar erfiður. „Við reynum að takast á við þessi hversdagslegu verkefni og tíminn læknar sárin að hluta. Ég þarf að sinna fjórum börnum og ég veit eiginlega ekki hvar ég væri án þeirra. En ég sakna Þorleifs gríðarlega og hugsa mikið til hans. Allt sem minnir mig á þennan tíma þegar hann hvarf veldur mér verulegu hugarangri,“ segir Kristín Hildur. Haldnar voru minningarathafnir um Þorleif í Danmörku og á Íslandi þar sem ættingjar og vinir komu saman. Þar voru mörg hlý orð látin falla sem fjölskyldunni þótti afar vænt. Meðal annars hélt fyrrverandi kennari Þorleifs stutta tölu þar sem fram kom að af öllum nemendunum í bekknum þá hefði hann talið Þorleif þann síðasta til að hljóta þessi örlög. „Það var af því að hann barðist eins og ljón í gegnum erfiðleikana. En enginn getur barist að eilífu gegn ofurefli,“ segir Kristín Hildur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum