Breski leikarinn John Hurt lést nýlega 77 ára gamall af völdum krabbameins. Á gamals aldri sagðist hann hafa mildast með árunum og frekar vilja vera heima að dunda við myndlist en vera úti á lífinu. Hann kaus ekki ætíð friðsælt líf því á erfiðu tímabili voru drykkjulæti hans á almannafæri mikið fóður fyrir fjölmiðla. Hann sagðist þá hafa drukkið sjö vínflöskur á dag en dró seinna í land og sagði þær hafa verið þrjár. Að sögn vina og kunningja var Hurt miður sín vegna dauða sambýliskonu sinnar, Marie-Lise Volpeliere Pierrot, og reyndi að deyfa sársaukann með áfengi. Marie-Lise er sögð hafa verið stóra ástin í leikarans en hún dó árið 1983.
Marie-Lise var fyrirsæta og þau Hurt bjuggu saman í fimmtán ár. Þau höfðu ákveðið brúðkaup sitt. Einn dag fóru þau í reiðtúr og hestar þeirra beggja tóku skyndilega á sprett og þau féllu af baki. Hurt sakaði ekki en Marie-Lise fékk alvarlegan höfuðáverka. Hún var með meðvitund þegar Hurt kom að henni en þjáð. Hún lést sama dag, 44 ára gömul. Seinna sagði leikarinn í viðtali að hann hefði eftir dauða hennar farið að hegða sér á villtan hátt og leitað í áfengi. Hann sagði hinn villta lífsstíl hafa verið dæmi um vansælan einstakling sem væri að leita að því sem hann gæti ekki fundið. „Versta tímabil ævi minnar var þegar hún dó. Samband okkar var sterkt,“ sagði hann.
Hurt var fráskilinn þegar hann kynntist Marie-Lise. Árið eftir dauða Marie-Lise giftist hann bandarískri leikkonu en þau skildu fjórum árum seinna. Synir hans tveir fæddust í þriðja hjónabandi hans sem entist í fimm ár. Hann fann svo hamingjuna á ný með fjórðu eiginkonu sinni sem hann kvæntist árið 2005.
Hurt lék allt fram í andlátið, fer með hlutverk í kvikmyndinni Jackie og á eftir að sjást í myndunum The Good Night, Damascus Cover og My Name is Lenny. Hann vann að myndinni Darkest Hour þar sem hann fór með hlutverk Neville Chamberlain og meðal mótleikara er Gary Oldman í hlutverki Churchill. Tökum er ekki lokið og óljóst er hvort annar leikari verður fenginn til að leika hlutverk Hurt.
Hurt átti sextíu ára farsælan feril. Hlutverkin voru mörg ógleymanleg og má þar nefna frammistöðu hans í Alien, Fílamanninum og Midnight Express og sjónvarpsþáttunum The Naked Civil Servant og Ég, Kládíus þar sem hann var afar ógnandi sem hinn sturlaði keisari Kaligúla
John Hurt var aðlaður árið 2015.