Karl Bretaprins er einn þriggja höfunda bókar um loftslagsbreytingar. Meðhöfundar hans eru þekktir og virtir umhverfissinnar, Tony Juniper, sem er ráðgjafi prinsins, og Emily Shuckburgh, sem er loftslagsvísindamaður. Prinsinn skrifar formála að verkinu. Bókin kemur út í Bretlandi í vikunni og er stutt, einungis um 50 síður, en snörp. Hún kemur út hjá Ladybird í Bretlandi sem hefur aðallega sérhæft sig í útgáfu barnabóka en bók prinsins er ætluð fullorðnum. Kápumyndin er teiknuð mynd af flóðum sem urðu í Uckfield í Sussex árið 2000. Í formála prinsins kemur fram að hugmyndin að bókinni vaknaði eftir loftslagsráðstefnuna í París árið 2015 en þá komu vinir að máli við hann og stungu upp á því að hann skrifaði um loftslagsmál.
Í formálanum líkir prinsinn loftslagsbreytingunum sem nú eiga sér stað við „úlf sem bíður við dyrnar“. Hann hvetur leiðtoga heims til að horfast í augu við vandann og taka samstundis á honum. Þau orð eru meðal annars túlkuð sem skilaboð til nýs Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, og forsætisráðherra Breta, Theresu May.
Prinsinn hefur í áratugi haft áhuga á umhverfismálum og margoft tjáð sig um þau opinberlega og hefur fyrir vikið orðið að þola nokkra gagnrýni þeirra sem telja hann vera of pólitískan.