Heimsfrægar kvikmyndastjörnur hafa haslað sér völl á ritvellinum með fremur eftirtektarverðum hætti. Hér eru nokkur dæmi.
Dugmikill skáldsagnahöfundur Fyrsta skáldsaga James Franco nefnist Palo Alto eftir heimabæ hans og er uppvaxtarsaga. Leikarinn hefur sagt að bókin sé að hluta til byggð á eigin reynslu. Gagnrýnendur hældu leikaranum fyrir snjallan og tilgerðarlausan stíl. Kvikmynd var gerð eftir bókinni árið 2013 og þar var Franco vitanlega í hlutverki. Síðan hefur leikarinn sent frá sér þrjár aðrar skáldsögur.
Verðlaunabók Jim Carrey er höfundur barnabókarinnar How Roland Rolls, sem varð verðlaunabók. Söguhetjan er alda sem óttast að skelli hún á land muni hún deyja en áttar sig smám saman á því að hún er bara ein af mörgum öldum í hinu stóra og mikla hafi og um leið hluti af alheiminum. Bókin þykir vel skrifuð, fyndin en um leið afar hjartnæm.
Skáldsaga hans varð að kvikmynd The Hottest State er fyrsta skáldsaga Ethan Hawke og aðalpersónan er ungur leikari sem verður ástfanginn af söngkonu. Skáldsagan varð að kvikmynd þar sem Hawke fór með aðalhlutverkið. Eftir velgengni skáldsögunnar skrifaði Hawke tvær aðrar, Ash Wednesday og Rules for a Knight.
Góðir dómar Hugh Laurie hugðist gefa skáldsögu sína, The Gun Seller, út undir dulnefni en útgefandi hans var svo ánægður með verkið að leikaranum snerist hugur og setti nafn sitt við hana. Bókinni var afar vel tekið. Fyrrverandi hermaður sem orðinn er drykkfelldur og ráðþrota samþykkir að gerast leigumorðingi. Bókin mun vera full af óvæntum atburðum, spennuþrungin og afar vel skrifuð. Lengi hafa verið sögusagnir um að framhaldsbók sé væntanleg.
Misjafnir dómar John Travolta er höfundur bókarinnar Propeller One-Way Night Coach og þar er sagt frá hinum átta ára gamla Jeff sem dreymir um að fara í flugferð og fær draum sinn uppfylltan þegar móðir hans ákveður að fara til Hollywood og verða leikkona. Bókin fékk misjafna dóma, einhverjir gagnrýnendur hrósuðu henni meðan aðrir sögðu hana skorta dýpt.
Prýðilegur rithöfundur Gamanleikarinn Steve Martin þykir prýðilegur rithöfundur en hann hefur sent frá sér nokkrar skáldsögur og greinasöfn. Besta verk hans á ritvellinum er barnabókin Late for School, sem fjallar um ævintýralega ferð ungs drengs í skólann. Bókin þykir fyndin, hugljúf og frumleg.