„Ég er búinn að vera hrakfallabálkur allt mitt líf“
„Þetta eru nú eingöngu fjögur síðustu ár og þessar myndir voru bara á símanum. Ég er búinn að vera hrakfallabálkur allt mitt líf. Ég ólst upp í Neskaupstað og mamma vann á spítalanum. Ef nokkrir dagar liðu án þess að ég kæmi með áverka upp á spítala fóru læknarnir að undrast um mig,“ segir Grétar Sigurðsson í samtali við DV og hlær um leið. Tilefni samtalsins er nýársheit Grétars sem vakið hefur talsverða athygli. Grétar birti heitið á Facebook-síðu sinni en það snýr að því að Grétar stefnir á að leita ekki læknis eða fara á sjúkrahús í heilt ár. Með heitinu fylgja allsvakalegar myndir af Grétari með áverka eftir hin ýmsu óhöpp undanfarinna ára.
Fyrir utan áverkana á myndunum hefur Grétar, undanfarin fjögur ár, brotið fingur, rifið sin í löngutöng með þeim afleiðingum að fingurinn er fastur, brotið ristina á sér, lagst inn á spítala út af vírussýkingu auk þess sem viðbein fór úr liði. Þá hefur Grétar brotið rif og fengið gat á lungað en svakalegasta atvikið átti sér þó stað í Serbíu en þar dvelur hann langdvölum vegna viðskipta.
„Ég var á veitingastað þar ytra þegar ég heyrði konu öskra á hjálp. Ég rauk upp og athugaði hvað væri í gangi en sá þá nokkra menn vera að draga konuna inn í sendiferðabíl,“ segir Grétar. Hann segist ekki hafa ætlað að leika neina hetju en afskipti hans hafi fyrst og fremst skrifast á hvatvísi og hugsunarleysi. „Ég spurði þá hvað eiginlega væri í gangi en þá réðust þeir til atlögu við mig,“ segir Grétar. Til talsverðra átaka kom en Grétar náði að verja sig að mestu leyti, allt þar til einum árásarmanninum tókst að stinga hann í kviðinn með skrúfjárni. „Stúlkan komst sem betur fer undan og ég jafnaði mig nú á þessu,“ segir Grétar, eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Fleiri áverka má rekja til Serbíu, þar á meðal stóran skurð á hálsi. „Ég var skorinn á háls í Serbíu. Væri það ekki flott fyrirsögn? “ segir Grétar og hlær. Blaðamaður er eitt spurningarmerki en Grétar útskýrir að hann hafi greinst með æxli í hálsi en átt erfitt með að fá úrlausn mála hér heima. „Ég fór því í aðgerðir í Serbíu og í þeirri seinni tókst að fjarlægja meinið alveg. Það er náttúrlega ekki allt eins og það á að vera þegar íslenskur ríkisborgari þarf að leita sér læknisaðstoðar í Serbíu,“ segir Grétar.
DV fjallaði í októberlok um góðverk Grétars þegar hann keypti mat og aðrar nauðsynjar fyrir þurfandi einstaklinga í stað þess að halda afmælisveislu. „Að hitta þessi krakkagrey um helgina. Augun sýndu glögglega hversu glorhungruð, hrædd og þreytt þau voru. Það er of margt fólk í samfélaginu sem bráðvantar allt,“ sagði Grétar og lét svo sannarlega kné fylgja kviði í góðverkunum. „Þegar upp var staðið hafði ég keypt mat fyrir rúmlega hálfa milljón og rétt fyrir jólin eldaði ég mat fyrir um 170 manns. Ég er að leggja inn í karmabankann og vonandi skilar það sér í færri slysum og óhöppum á árinu,“ segir Grétar.