Greindist nokkrum dögum síðar með mislinga
Móðir 10 mánaða drengs sem veiktist heiftarlega fyrr í mánuðinum segir að barnið hafi smitast á meðan hann sat í ungbarnasæti í innkaupakörfu sem henni láðist að þrífa.
Vivienne Wardrop sem er fimm barna móðir fór með drenginn, sem heitir Logan, í verslunarleiðangur þann 13 september síðastliðinn. 24 klukkustundum síðar var Logan kominn með mikinn niðurgang, kastaði upp og var með háan hita.
Sólarhring síðar þegar einkennin voru ekkert byrjuð að ganga til baka fór hún með drenginn til læknis sem tjáði henni að hann væri með vírus.
Daginn eftir var Logan orðin svo máttfarinn og búinn að tapa svo miklum vökva að hún fór með hann á bráðamóttökuna en hann var í framhaldinu lagður inn á barnaspítalann í Helensvale í Ástralíu.
Þá var hann sömuleiðis kominn með mjög háan púls. Hann var á milli 200 og 220 slög á mínútu en eðlilegt er að púls barna séu á bilinu 80-140.
Á spítalanum greindu læknar barnið með salmonellu sýkingu og mislinga. Hann dvaldi á sjúkrahúsinu í 10 daga en er nú kominn aftur heim.
„Ég hef aldrei séð svona veikt barn. Meira að segja núna langar mig að gráta þegar ég hugsa til þess hversu illa honum leið,“ segir móðirin í samtali við Daily Mail og bætir við að hann hafi misst 10 prósent af líkamsþyngd sinni á 10 dögum.
Logan litli er á batavegi en á enn langt í land. Líkt og áður segir kveðst móðir hans viss um að drengurinn hafi smitast á meðan hann var í innkaupakerrunni. Sérstaklega í ljósi þess að hann hafði ekki farið út úr húsi í viku áður en þau fóru í búðina.
Vivienne biðlar til foreldra að þrífa alltaf sætið og þá staði á kerrunni sem barnið kemst í snertingu við áður en það er sett í kerruna.