fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Baráttukonan og brautryðjandinn Anna

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. ágúst 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Kristjánsdóttir var fyrsta íslenska transkonan sem kom fram fyrir augu þjóðarinnar, bein í baki, stolt og loksins byrjuð að lifa í sínu rétta kyni. Viðtalið birtist árið 1994 í Nýju Lífi og vakti mikla athygli. Anna var önnur íslenska konan sem gekkst undir kynleiðréttingu, en sú fyrsta hefur aldrei kosið að koma fram í fjölmiðlum. Anna og Ragnheiður Eiríksdóttir blaðakona, hittust á kaffihúsi, drukku kaffi, borðuðu belgískar vöfflur og ræddu saman um lífið og tilveruna.

Anna Kristjánsdóttir fæddist 30. desember árið 1951 í Höfðaborginni í Reykjavík og var alin upp að hluta í Mosfellsdalnum. Hún fæddist í líkama lítils drengs, en vissi samt alltaf að hún væri kona. Fjölskyldan taldi átta manns, en Anna var yngst, og öll bjuggu þau saman í aðeins 39 fermetrum. „Það þótti ekkert tiltökumál á þessum tíma. Auðvitað var þröngt um okkur, en einhvern veginn virkaði það.“

##Send í sveit
Bernskan einkenndist af drykkju foreldranna. „Þess vegna var ég send í sveit með tveimur yngri systkinanna. Barnaverndarnefnd greip nokkrum sinnum inn í mál fjölskyldunnar og eldri systkinin höfðu líka verið tekin af heimilinu á tímabili. Þetta snerist um drykkjuskap og vanrækslu, ekki ofbeldi. Þrátt fyrir allt bjuggu foreldrar mínir alla tíð saman, í 55 ár. Mér fannst þetta ekkert voðalega dramatískt. Fyrst var ég á Silungapolli, svo í Reykjahlíð í fimm ár.“ Tólf ára gömul kom Anna svo aftur til fjölskyldu sinnar í Reykjavík. Ástandið hafði lítið skánað. „Það var allt við það sama, en ég var orðin eldri. Aðstæðurnar á heimilinu voru mikið feimnismál og ég bauð til dæmis aldrei vinum heim. Það var mikið um feimnismál og feluleik. Þessar aðstæður voru þó alls ekkert einsdæmi. Á sjötta áratugnum bjó mikill fjöldi barna við svipuð kjör. Þröngbýli og fátækt þóttu ekki tiltökumál og það þótti til dæmis ekkert sjálfsagt að vera með baðherbergi. Hjá okkur var einungis salerni en tvær sundlaugar voru mikið stundaðar.“

Ég spyr Önnu hvort einhver í sveitinni hafi gengið henni í móður- eða föðurstað, og hvort hún hafi upplifað ofbeldi á þessum stöðum eins og margir henni samtíða hafa lýst á seinni árum. „Nei, það var enginn sem gekk mér í foreldrisstað, en ég varð heldur aldrei vör við neitt ofbeldi fullorðinna gagnvart börnunum.“

Streittist á móti

Anna vissi alltaf að hún væri kona, en á unglingsárunum byrjaði flóttinn fyrir alvöru. „Pælingarnar um mitt rétta eðli urðu sterkari og skýrari með kynþroskanum. Ég gat ekki sagt neinum frá þessu og vissi ekki um neinn í sömu sporum. Ég streittist á móti af öllum kröftum og fór 14 ára á sjóinn, strax að loknu skyldunámi. Það var svo sem ekkert óeðlilegt á þeim tíma að krakkar færu að vinna þetta snemma.“ Seinna fór Anna í landspróf í Gaggó Vest, en eftir það kom hún sér á togara. „Sjórinn var hluti af flóttanum. Ég gat ekki komist lengra frá heiminum, frá hugsunum og stöðugum pælingum. Á svona flótta verður tilhneiging til að fara í átt að ofurkarlmennsku – og sjórinn er einmitt þannig staður. Svo festist ég bara á sjónum og þvældist milli báta og togara.“

Tvítug fór Anna í Vélskólann og lauk þaðan prófi vélstjóra. Það gekk lítið að bæla niður vangaveltur um að hún væri kona í líkama og lífi karlmanns. „Ég gat ekkert leitað og átti hvorki trúnaðarvin né vinkonu.“ Hún hélt á tímabili að hún væri kannski hommi – tilvist þeirra var jú viðurkennd á þessum árum þó að örfáir væru komnir út úr skápnum. „Ég kannaði það mál, en það reyndist ekki vera. Þegar ég var um 16 ára, að mig minnir, komst ég að því að úti í heimi hefðu verið framkvæmdar aðgerðir á fólki. Ég sá heimildamynd í Laugarásbíói, þar sem meðal annars var fjallað um April Ashley, eina fyrstu transkonuna í Bretlandi sem fór í kynleiðréttingu. Hún hafði verið á sjó, farið í sjóherinn og gengið í gengum ýmislegt fyrst. Hennar uppvöxtur virtist dálítið áþekkur mínum, þó að reyndar hafi leið hennar svo legið í fyrirsætubransann á meðan ég hélt áfram á sjónum. Þarna sá ég eitthvað sem hægt var að stefna að.“ Anna reyndi að kynna sér málin frekar, en komst fljótlega að því að kostnaður við aðgerð væri það mikill að líklega yrði hún áfram fjarlægur draumur.

Dæmigerður karlmaður

Anna hélt áfram lífi karlmannsins og næsta skref var að giftast og stofna fjölskyldu. „Ég byrjaði í sambúð 1974 og við gengum í hjónaband ári síðar. Hjónabandið var svo sem í lagi, en ákveðin þvingun um leið. Við eignuðumst þrjú börn, og ég er mjög þakklát fyrir það. Við höfum sterka þörf fyrir endurholdgun í formi niðja og þegar yfir lýkur eru þau kannski það eina sem við skiljum eftir okkur hér á jörðinni.“ Anna sagði konu sinni fljótlega hvers kyns var. „Ég get ekki sagt að viðbrögð hennar hafi verið jákvæð, heldur ekki að það hafi verið mikið um ást eða nánd í hjónabandinu. Það var í raun blekking. Það var svo erfitt að ræða það sem amaði að – engar fyrirmyndir og ekki gátum við leitað okkur hjálpar.“

Skömmu fyrir skilnað þeirra hjóna 1984 reyndi Anna í fyrsta sinn að leita sér hjálpar. „Ég leitaði aðstoðar á Geðdeild Landspítalans, og þar ruku menn upp til handa og fóta. Einn vildi loka mig inni og annar vildi endilega finna lækningu við þessum kvilla. Það var enga hjálp að hafa svo ég hélt bara áfram á sjónum.“

Sölvína kom til hjálpar

Eftir vinnuslys á sjónum, þar sem Anna axlarbrotnaði, lauk hún öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. „Þar kynntist ég Sölvínu Konráðs sálfræðingi sem starfaði þar sem námsráðgjafi. Hún var fyrsta manneskjan sem skildi mig. Hún aðstoðaði mig við að finna réttu læknana og fagfólk sem hafði skilning á þessu. Einhver vildi loka mig inni til rannsókna en fleiri sýndu skilning og vildu hjálpa mér að finna lausn. Ég hóf svo hormónameðferð hjá Jens Guðmundssyni lækni en rak mig á vegg hjá heilbrigðisyfirvöldum varðandi það að komast í aðgerð. Einn sagði við mig „farðu bara til útlanda, og komdu ekki aftur“.“

Anna ákvað að taka málin í sínar eigin hendur og flutti búferlum til Svíþjóðar þar sem reynsla var komin á kynleiðréttingaraðgerðir. „Ég þurfti auðvitað að byrja þar á byrjunarreit – enda útlendingur. Til að byrja með fékk ég vinnu hjá Scania við að prófa dísilvélar og síðar fór ég að vinna hjá orkuveri í Stokkhólmi. Það var samt alls ekki auðvelt að komast í kynleiðréttingarferli – ég var bara útlendingur og útlendingar eiga ekki að standa í svona löguðu. Ég komst svo í samband við Gunnar Hambert, lækni í Uppsölum, og skrifaði honum bréf. Hann sagðist skyldu skoða málið, en svo liðu mánuðir. Að lokum kom bréf, sent á þriðja degi jóla 1992. Þar vísar hann mér áfram á geðdeildina við Huddinge-sjúkrahús í suðurhluta Stokkhólms.“ Við tóku stífar rannsóknir á geði Önnu, til að ganga úr skugga um að hún væri í raun kona í líkama karlmanns. „Ferlinu lauk 1995, en sjálf kynleiðréttingaraðgerðin var gerð á Karolinska-sjúkrahúsinu. Ég var í mörg ár á milli kynja, en frá vorinu 1993 lifði ég alfarið sem kona.“

Beið eftir að verða rekin

Anna vann á dæmigerðum karlavinnustað. „Ég mætti ekki bara einn daginn sem kona, en þegar ekki varð hjá því komist að hætta blekkingarleiknum ákvað ég að útbúa bréf sem ég stakk í pósthólf allra starfsmanna eina næturvaktina. Svo fór ég heim og beið eftir að verða rekin.“ Það fór þó ekki svo, því vinnufélagar og yfirmenn reyndust skilningsríkir og styðjandi. „Það kom mér mjög á óvart. Yfirmenn kölluðu meira að segja til helstu sérfræðinga Svíþjóðar sem töluðu við starfsfólk á fræðslufundi. Einhverjir minniháttar hnökrar komu upp á, en það lagaðist mjög fljótt.“

Árið sem Anna fór í sína kynleiðréttingaraðgerð voru ellefu slíkar aðgerðir gerðar í Svíþjóð. Í dag eru 50–60 aðgerðir framkvæmdar árlega. „Upp úr aldamótum kom út rannsókn sem sýndi að Svíar höfðu verið of harðir á kröfunum fram að því. Aðeins 4 prósent kynleiðréttinga sem höfðu verið gerðar höfðu afleiðingar sem skilgreina mátti sem neikvæðar. Þegar ég gekk í gegnum þessa síu voru ótrúlegustu skilyrði sem þurfti að uppfylla. Transfólk mátti alls ekki vera alkar, ekki vera á sakaskrá, ekki of hávaxið eða of feitt og ýmislegt fleira. Í dag hefur mikið af þessu verið fellt úr gildi. Sem betur fer var mitt sakavottorð tandurhreint og mér tókst að uppfylla flest hin atriðin á listanum.“

Réttlætiskenndin

Anna segir að réttlætiskenndin hafi dregið hana út úr skápnum. Í Svíþjóð voru til samtök transfólks en leyndarhyggjan var svo mikil að jafnvel stjórnarmeðlimir voru þar undir dulnefni. „Fólk lét eins og það þyrfti að skammast sín fyrir eitthvað. Staða okkar var ekki samfélagslega viðurkennd þó að hún væri samþykkt í lögum landsins. Vegna dulnefnanna var til dæmis ómögulegt fyrir fjölmiðla að ná í einhvern þegar þurfti að ræða eitthvað. Þegar leit stóð yfir að lasermanninum svokallaða, sem drap einn og særði ellefu með byssuskotum úr launsátri í Stokkhólmi og Uppsölum 1992, var transmanneskja grunuð saklaus. Umræðan í fjölmiðlum varð mjög neikvæð og alls konar dellu haldið fram. Þarna var full ástæða fyrir stjórnina að koma fram og leiðrétta ýmsan misskilning – en ekkert var gert. Ég og fleiri héldum uppi harðri gagnrýni á stjórnina sem leiddi til þess að hún sagði af sér á aðalfundi 1994 og eftir það varð ég formaður.“

Var vör um sig

Það gekk á ýmsu eftir að Anna kom út í réttu kyni. Hún flutti heim til Íslands 1996 en veturna áður hafði hún vakið athygli landsmanna, bæði í viðtalinu sem birtist í Nýju Lífi og í sérstakri úttekt Kastljóssins á „kynskiptum“ þar sem viðtal við hana birtist. Kristín Þorsteinsdóttir, núverandi útgefandi 365 miðla, stýrði þættinum. „Þegar ég ákvað að koma fram á Íslandi var ég orðin þekkt andlit í Svíþjóð, þar sem ég var formaður samtaka transfólks þar. Það þýddi þess vegna ekkert annað en að koma út úr skápnum hér heima. Sumir tóku því vel, en aðrir illa. Eftir að ég flutti heim byrjuðu þó fyrst erfiðleikarnir því mér gekk illa að fá vinnu. Enginn vildi sjá mig þrátt fyrir skort á vinnuafli á þessum tíma. Ég upplifði síendurtekna höfnun. Eftir að ég hafði þvælst um atvinnulaus í dálítinn tíma hringdi Emil Thorarensen, útgerðarstjóri hjá Alla ríka á Eskifirði, í mig og bauð mér afleysingarstarf á togara og reyndist fólkið eystra mér prýðilega árin á eftir. Ég varð samt fyrir miklum fordómum, og neikvæðu umtali – en höfnunin var verst. Það voru ekki mörg tilfelli, en stundum beitti fólk höggum, þó aldrei neinu sem hægt var að kæra. Á kránni gat ég allt eins átt von á að fá glös yfir mig. Ég var ekki hrædd, það þýddi ekkert, en ég var vör um mig.“

Baráttukona

Anna var lengi vel virk í baráttu transfólks á Íslandi og með evrópsku transgender-samtökunum, en hefur nú dregið sig að mestu í hlé. „Ætli þetta verði ekki með síðustu viðtölunum sem ég fer í. Mér sýnist við orðin samþykkt almennt séð í okkar þjóðfélagi, en það kostaði mörg ár og mikla baráttu. Lengi vel var ég „the only trans in the village“ en nú er ég orðin meira eins og „grand old lady“. Það væri fínt að hafa fæðst 30 árum seinna eða svo, en einhver varð að taka að sér að ryðja brautina. Núna hef ég svo margt annað að hugsa um og langar að nota tíma í að sinna áhugamálum mínum, eins og að ferðast innanlands og utan og taka myndir.“

Eftir kynleiðréttinguna hefur Anna ekki fundið sér lífsförunaut að kisunum frátöldum. „Ég hef svo sem slegið mér upp eitthvað, en ekki beint verið í sambandi. Það væri nú gaman að finna ferðafélaga og góðan hlustara. Fyrir utan fulla vinnu hjá Orkuveitunni er ég sjálfboðaliði á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni og meðlimur í björgunarsveitinni Ársæli, svo ég sit ekki auðum höndum,“ segir Anna áður en við kveðjumst, klárum síðustu vöfflubitana og göngum út í reykvíska sumarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Bjóða aftur í Trent
Fókus
Í gær

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið