Alþjóðlegur viðburður í júlí – Myndir, sambönd og frami
Fyrirsætan, hárgreiðslukonan og athafnamanneskjan Arna Bára Karlsdóttir stendur í ströngu um þessar mundir, en hún stendur fyrir alþjóðlegum fyrirsætuviðburði á Íslandi dagana 21.–25. júlí.
Arna Bára stendur fyrir viðburðinum ásamt manni sínum, Heiðari Árnasyni, sem einnig hefur reynslu af fyrirsætustörfum. Viðburðinn hafa þau kynnt undir heitinu „The Arna Karls Shootout“, en viðburðir sem þessi eru vel þekktir í heimi fyrirsæta og ljósmyndara. Heiðar og Arna Bára hafa oft tekið þátt í „shootout“ erlendis. „Við stofnuðum fyrirtækið Exquisite Events og ætlum að halda alls konar skemmtilega viðburði, bæði hér heima og erlendis. Við ákváðum að fyrsti viðburðurinn yrði eitthvað sem við kunnum vel á,“ segir Arna Bára í samtali við DV.
En hvernig skyldi „shootout“ ganga fyrir sig? „Shootout er viðburður þar sem ljósmyndarar, módel eða fólk sem dreymir um að verða módel, förðunarfræðingar og hárgreiðslufólk kemur saman til að vinna í möppunum sínum, taka myndir og mynda sambönd sín á milli. Myndirnar eru gjarnan birtar í tímaritum og á heimasíðum um allan heim.“
Arna Bára hefur ferðast um allan heim í þessum tilgangi, og segist læra heilmikið í hvert skipti sem hún tekur þátt. „Þetta er í fyrsta lagi ótrúlega gaman og hefur opnað ýmiss konar dyr fyrir mér í þessum bransa. Ég hef náð að mynda góð sambönd við tímarit úti um allan heim, og er til dæmis komin með mjög gagnlegan lista yfir tölvupóstföng þeirra sem taka ákvarðanir um myndbirtingar. Þessi listi er eitt af því sem þátttakendur í viðburðinum okkar fá.“
Nú þegar eru 11 fyrirsætur og 4 ljósmyndarar búnir að skrá sig til þátttöku hjá Örnu Báru og Heiðari seinna í mánuðinum. „Það er mikill áhugi á Íslandi í bransanum, enda endalaust til af mögnuðum tökustöðum hér á landi. Þetta er líka frábært tækifæri fyrir íslensk módel til að fá flottar myndir í möppurnar sínar og kynnast fólki sem getur leiðbeint þeim um hvernig hægt er að ná árangri. Þarna verða þekktir einstaklingar á borð við Amandy Ranger, Jeffrey Silva, Jessy Erinn og Vikki Lenora. Amandy kemur frá Kanada, en auk þess að vera módel rekur hún módelskrifstofuna BeYoUnique, svo það er alls ekki slæmt að þekkja hana.
Við munum taka myndir á mjög fallegum tökustöðum eins og Jacobsen-Loftinu, nágrenni Bláa lónsins og í Reynisfjöru. Innifalið í verðinu fyrir módelin er hár og förðun alla dagana sem myndatökur fara fram, en fólkið sem sér um hár og förðun fylgir okkur á tökustaðina til að passa upp á að allir líti sem best út á myndunum.
Til að gera þetta ennþá meira spennandi geta allir sem taka þátt fengið mynd af sér birta í ModelMania Magazine, en sérstakt tölublað verður tileinkað viðburðinum okkar.“