Jóhannes Haukur í The Last Kingdom
Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari heldur áfram að landa hlutverkum í stórum erlendum þáttaröðum.
Það nýjasta er önnur sería The Las Kingdom, sem er framleidd af BBC og Netflix. Jóhannes mun þar leika náunga sem kallaður er Sverre, en í bókunum sem þættirnir byggjast á er hann danskur kapteinn á þrælaskipi. Jóhannes segist í samtali við DV ekki mega láta neitt uppi um hvernig hlutverki hans verði háttað. „Hlutunum er nú oft breytt fyrir sjónvarp, en stundum ekki. Svona er þetta að minnsta kosti í bókunum.“
Tökur á þáttunum hefjast í lok júlí, en að ýmsu er að huga fyrst. „Ég fer til Búdapest á miðvikudaginn og verð í tvo daga í búningamátun og make-up prufum. Fjölskyldan kemur svo út með mér þegar tökur hefjast.
Jóhannes er að vonum spenntur fyrir þátttökunni í þessu stóra verkefni.
„Þetta er hrikalega spennandi. Ég horfði á alla fyrstu seríuna eftir að mér var boðið hlutverkið og finnst hún frábær. Það er svo gaman að fá að vera í svona períódu drama þar sem allir eru í geggjuðum búningum í stórkostlegri sviðsmynd. Það skemmir ekki að veðrið í Búdapest næstu daga er sól og 30 stiga huti. Það mun væntanlega fara vel um mann þarna. Það er líka mjög gott tækifæri að fá svona hlutverk í seríu sem frameidd er af risum eins og BBC og Netflix. Frábært að geta líka tekið fjölskylduna með í tökurnar í lok júlí/ágúst. Það betra að hafa þau með að upplifa ævintýrið.“
Þættirnir The Last Kingdom byggja á sögulegum skáldsögum eftir Bernard Cornwell og gerast seint á níundu öld.