Varanleg minning fyrir grjótharðan fótboltaaðdáanda
Karl Jón Karlsson 26 ára er gallharður fótboltaaðdáandi, en eftir sigur Íslendinga á Englandi, ákvað hann að láta flúra á sig varanlega minningu um úrslit leiksins.
Kalli flutti til Spánar fyrir tæpum mánuði til að freista gæfunnar og vinnur nú sem barþjónn á Magaluf. „Mig langaði út í hitann og sólina að vinna svo ég ákvað að láta reyna á það. Ég var kominn með vinnu eftir 6 tíma, og hef verið hér síðan,“ segir Kalli í samtali við DV.
Kalli er alinn upp á Írlandi og hefur þess vegna bæði haldið með Írlandi og Íslandi á EM. Hann segist vera mikill fótboltanörd og hefur spilað FIFA-tölvuleikinn frá 1998. „Nú þegar Ísland er komið áfram er ég auðvitað í íslenska liðinu. Ég er búinn að hafa svo mikla trú á þessu liði síðustu 10 árin, og á öllu því starfi sem KSÍ hefur unnið. Ég vissi að einn daginn yrðu Íslendingar góðir í fótbolta – og það hefur sýnt sig núna. Margir af vinum mínum erlendis hlógu að mér, en gera það ekki í dag!“
Kalli vinnur eingöngu með Englendingum og var búinn að veðja við þá um það hvernig leikurinn síðastliðinn mánudag mundi fara. „Yfirmaður minn sagði að ég yrði rekinn ef Ísland mundi vinna. Við fórum svo á Englendingabar og þar var allt vitlaust – fólk öskrandi og hellandi bjór yfir hvert annað.“
Þegar staðan var 1-0 fyrir Englandi eftir að Rooney skoraði úr vítaspyrnu í upphafi leiks, samdi Kalli við yfirmanninn um að ef Íslendingar næðu sér á strik og ynnu mundi yfirmaðurinn borga húðflúr með úrslitunum fyrir hann. „Hann stóð við það og borgaði flúrið. Ég sparaði fyrir hann með því að hafa ekki nöfnin á þeim sem skoruðu með, enda íslensku nöfnin ansi löng.“ Flúrið er á framhandlegg Kalla, svo það sést vel í hvert skipti sem hann réttir fólki drykk yfir barinn. „Ég hélt vinnunni, en í staðinn þurfti ég að gefa yfirmanni mínum köku. Ég nota svo tækifærið á hverjum einasta degi til að minna Englendingana á hversu lítil þjóð Íslendingar eru og hversu vel okkur er búið að ganga á EM.“