Rómantíkina er líka að finna á Twitter
Samskiptaforritið Twitter er orðið miklu meira en vettvangur fyrir tjáningu skoðana í 140 slögum eða minna. Núna er fólk farið að nota Twitter sem vettvang fyrir stefnumót og rómantísk samskipti.
Þrjár ungar íslenskar konur, sem eru allar virkir notendur á Twitter, hafa tekið upp á því að skipuleggja hraðstefnumót fyrir notendur Twitter – í raunheimi. Hraðstefnumót fara þannig fram að helmingur hópsins situr við borð, og hinn helmingurinn flakkar milli borða. Hvert par fær fimm mínútur til að spjalla og í lok kvöldsins skrifar fólk á miða hvern það gæti hugsað sér að hitta aftur. Ef áhuginn er gagnkvæmur láta skipuleggjendur þá aðila vita og þeir plana sjálfir næstu skref.
@tungufoss, sem heitir réttu nafni Helga Ingimundardóttir, er í forsvari fyrir hópinn og svaraði nokkrum spurningum frá blaðakonu DV, sem er mikil áhugakona um stefnumótamenningu á Íslandi.
Hvernig datt ykkur þetta í hug?
„Þetta hefur komið upp nokkrum sinnum undanfarna mánuði í spjalli um hvað Tinder er glatað fyrirbæri. Það er eitthvað um að fólk hittist eftir að hafa kynnst á Twitter og samkvæmt okkar upplýsingum hefur það gefið góða raun. „Twittingar“ (innskot blaðamanns: hittingar fyrir Twitter-fólk) eru líka haldnir reglulega og það er oft gaman að hitta í raunheimi þá sem maður hefur kynnst á þennan hátt.“
Er fólk spennt?
„Áhuginn hjá stelpum virðist vera meiri – en strákarnir hafa verið feimnari við að tjá áhuga sinn. Einn sagði við mig í einkaskilaboðum að honum þætti þetta voðalega örvæntingarfullt plan, en við erum alls ekki sammála því. Það er hægara sagt en gert að átta sig á því hverjir eru á lausu á Twitter.“
Sjálf hefur Helga farið á nokkur Twitter-stefnumót og ber þeim góða söguna.
„Þessi stefnumót eru oft byrjun á góðum vinskap, og ekki alltaf rómantísk niðurstaða. Svona stefnumót eru mjög lík Tinder-stefnumótum, en mér finnst þetta aðeins dýpra því þú hefur oftast náð að kynnast manneskjunni í gegnum virkni á Twitter. Þetta er merkilega lítið vandræðalegt. Ef það kemur vandræðaleg þögn er alltaf hægt að spjalla um „hashtagg“ sem hefur verið ofarlega á baugi.“
Viðburðurinn verður haldinn á Kex-hostel mánudaginn 25. júlí kl. 20. Allir eru velkomnir og ekki þarf að skrá sig.
„Kannski verður þetta alveg jafnmikið tækifæri til að kynnast nýjum vængkonum – svona ef kynjahallinn verður mikill. Þeir sem mæta eiga það að minnsta kosti sameiginlegt að vera virkir á Twitter og vera einhleypir.“
Áhugasömum er bent á að fylgja Helgu á Twitter: @tungufoss