„Á næsta ári hefjast tökur á mynd sem er að stórum hluta byggð á sögu Kristínar. Ég og Biggi fengum að kynnast henni í gegnum dagbækur hennar,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Z og vísar til Kristínar Gerðar Guðmundsdóttur sem Kristínarsjóður er nefndur eftir.
Kristín lést langt fyrir aldur fram árið 2001. Kristínarsjóður aðstoðar konur sem eru á leið úr vændi eða mansali að fóta sig á nýjan leik.
„Þetta er saga sem verður erfitt en nauðsynlegt að gera skil á. En því miður er þessi saga ekki einstök. Hún er að gerast núna og mun halda áfram að gerast. Við fengum að kynnast mörgum stelpum sem hafa gengið í gegnum svipaða lífsreynslu,“
segir hann og hvetur áfram systur Kristínar, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, sem ætlar að hlaupa í Reykjarvíkurmaraþoninu í minningu systur sinnar.