Páll Magnússon um ákveðinn hóp álitsgjafa
„Til er orðinn ákveðinn hópur af fólki sem telur sig til þess bæran að hafa skoðanir á öllum mögulegum og ómögulegum hlutum, ekkert sérstaklega undirbyggðar, og hefur svo sem ekkert til málanna að leggja umfram manninn á götunni. Í þessum hópi verður til einhvers konar hugarástand sem fær þetta fólk til að trúa því að það hafi eitthvað meira og merkilegra að segja en annað fólk,“ segir Páll Magnússon í viðtali við DV aðspurður um skoðanir sínar á þeim hópi fólks sem kallast álitsgjafar.
Páll bætir við: „Ég er auðvitað ekki að segja að allir íslenskir álitsgjafar séu upp til hópa vitleysingar en stór hluti af þessum hópi er þannig saman settur að það ætti ekki að flagga þeim umfram aðra.“