Sparkað úr skóla í sjöunda bekk – Kveðst eftirsóttur af plötufyrirtækjum – Hikar ekki við að birta myndir af byssum og grasreykingum á samfélagsmiðlum
„Þeir geta ekki gert neitt, ég er með lögfræðing. Þeir mega banka á hurðina hjá mér,“ segir rapparinn Alex Þór Jónsson, einnig þekktur sem Lexi Picasso en hann hefur vakið mikla athygli fyrir framkomu sína á samfélagsmiðlum, þar sem hann hikar ekki við að birta myndir af sér með byssur, eiturlyf og heilu ferðatöskurnar af peningum, en óttast hvergi að lögreglan muni hafa af honum afskipti. Óhætt er að segja að lífshlaup Alex hafi verið heldur óvenjulegt en eftir að hafa verið sparkað úr skóla 15 ára gamall ákvað hann að einbeita sér að viðskiptum og tónlist og einblínir hann helst á Bandaríkjamarkað. Hann bjó um tíma í einu af hættulegustu hverfum Bandaríkjanna og kveðst hafa lifað í gegnum „alvöru hluti.“
Alex er í viðtali við Séð og Heyrt en hann kveðst hafa átt erfiða æsku. „Ég er greindur með andlega fötlun og ég var eiginlega bara götustrákur sem gerði það sem ég þurfti að gera til að komast á þann stað sem ég er núna,“ segir Alex en hann tjáði sig einnig um æskuna í viðtali við Fréttatímann í febrúar síðastliðnum, þar sem hann greindi frá því að allir skólar höfðborgarsvæðisins hefðu meinað honum aðgang eftir að honum var vísað úr námi í sjöunda bekk: „Ég á erfitt með að vera í margmenni og var lagður í einelti í barnaskóla. Ég brást illa við eineltinu og olli tjóni með þeim afleiðingum að ég var rekinn. Þá vildi enginn skóli neitt með mig hafa.“
Í samtali við Séð og Heyrt kveðst Alex hafa trommað frá því hann var aðeins fjögurra ára gamall og var 17 ára þegar hann stofnaði fyrirtæki. Hann kveðst hafa tekjur af því í dag að selja lagasmíðar sínar til erlendra tónlistarmanna og sé eftirsóttur hjá hinum ýmsu plötufyrirtækjum. „Ég er búinn að segja nei við 650 þúsund dollara samningsboði sem var þrælasamningur. “
Alex kveðst hafa séð og upplifað ýmislegt, en hann bjó um tíma í einu af hættulegustu hverfum Atlanta í Georgíufylki. Þar er hvítt fólk í minnihluta en Alex segist engu að síður hafa öðlast þar virðingu. Í Atlanta var hann umkringdur byssum alla daga.
„Ég hef lifað í gegnum alvöru hluti, ég hef verið í hættulegustu hverfunum og ég hef verið stunginn, ég hef skotið af byssu, haldið á AK-47. Ég hef verið í bíl með fimm mönnum með fullhlaðin vopn. Það er ekkert grín,“ segir hann en hann rifjaði þessa reynslu einnig upp í áðurnefndu viðtali Fréttatímans: „Við bjuggum nokkrir saman og það voru átta byssur í húsinu. Ég varð að flytja eftir að íbúðin okkar var skotin upp. Stressið við það að vera í þessu umhverfi gerði mig vitlausan. Ég er óþekkjanlegur á myndum af þessum tíma, þetta fór svo illa með mig.“
Auk þess að birta umræddar myndir af sér á samfélagsmiðlum hefur Alex einnig látið viss orð falla um aðra íslenska tónlistarmenn og rappara sem hann segist sjá eftir í dag. Hann óskar eftir fyrirgefningu fyrir þau ummæli sem hann hefur látið falla. „Ég vil biðja Gísla Pálma, Emmsjé Gauta, Sturlu Atlas og Alexander Jarl afsökunar, þeir eru góðir,“ segir hann og kveðst vonast til að hægt verði að sópa málinu undir teppi.