fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Fókus

Embla upplifir líkama sinn sem almenningseign: „Hvað kom fyrir þig? Af hverju ertu svona?“

Lærði snemma að hún átti líkama sinn ekki sjálf – „Sem fötluð kona á Íslandi lifi ég í stöðugum ótta við ofbeldi“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 13. júlí 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Er ég geng um götur borgarinnar horfir fólk á eftir mér, það glápir og margir spyrja persónulegra spurninga. Hvað kom fyrir þig? Af hverju ertu svona? Fólk er líka oft dónlegt, talar barnalega til mín eða gerir hreinlega ráð fyrir að ég geti ekki talað fyrir mig sjálf. Ég var mjög ung þegar ég fór að finna verulega fyrir slíkum fordómum í samfélaginu og eðli málsins samkvæmt fóru þeir fyrir brjóstið á mér,“ segir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir sem flutti nýlega erindi á málþinginu Fatlaðir þolendur kynferðisbrota sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík. Þar lýsti hún því meðal annars hvernig hún hefur upplifað líkama sinn sem almenningseign í gegnum tíðina, en Embla varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu og var síðar greind með hreyfihömlunina CP sem hefur áhrif á hreyfigetu í öllum útlimum.

Embla þurfti reglulega að sækja sjúkraþjálfun sem barn þar sem hún lærði að sitja, borða og ganga „rétt.“ Segist hún snemma hafa upplifað það þannig að hún ætti líkama sinn ekki sjálf. Rifjar hún upp atvik sem átti sér stað þegar hún var um 9 eða 10 ára aldur:

„Þá fór ég til læknis og með mér voru að sjálfsögðu foreldrar mínir og svo einhverjir fleiri sérfræðingar hjá lækninum, ég man ekki hverjir. Að venju átti ég að fara úr öllu nema nærbuxunum. Fyrst var ég skoðuð og mæld út á bekknum og svo var ég beðin um að ganga frá glugganum að hurðinni. Það var þessi ganga sem vafðist alltaf svolítið fyrir mér. Það var eitthvað svo skrýtið að standa þarna nánast nakin, algjörlega varnalaus og ganga fyrir framan alla þessa áhorfendur. Þau voru ekki að horfa á mig vegna áhuga eða aðdáunar, þau voru að skoða mig, greina mig, taka mig út og í raun, velta mínum afbrigðilega og ófullkomna líkama fyrir sér. Ég vissi aldrei alveg hvert var markmiðið með þessu, en ég lærði það fljótt að göngulag mitt þótt hvorki rétt né aðlaðandi.“

Embla nefnir einnig hvernig hún upplifði skömm í gegnum skólagönguna, einfaldlega sökum þess að hún setti öðrum mörk hvað varðaði persónulega aðstoð, til að mynda við klósettferðir. „Ég var með stæla og óraunhæfar kröfur. Ég gat ekki fengið að stjórna þessu sjálf. Ég talaði ekki mikið um þetta því mér fannst ég svo mikill aumingi að geta ekki þegið þá aðstoð sem í boði var.“

Ráðlagt að sýna skilning og brosa

Hún segist hafa vanist því í gegnum tíðina að setja fólki ekki mörk, jafnvel þegar kom að ónærgætnum og særandi athugasemdum í hennar garð.

„Alltaf var mér ráðlagt það sama: „ekki taka þetta nærri þér, fólk meinar þetta ekkert illa, þú ert kannski bara að misskilja…“ „Það er best að vera bara jákvæð og útskýra fyrir fólki. Það veit ekki betur og getur ekkert að því gert.“ Þarna lærði ég enn og aftur að setja engin mörk – sýna öllu skilning og bara brosa.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hún segir dæmin úr sinni barnæsku lýsandi fyrir raunveruleika fjölda fatlaðs fólks á Íslandi í dag, en hún tilheyri þíó ákveðnum forréttindahópi innan hópsins, og margt fólk með þroskahömlun búi til að mynda við mun meiri jaðarsetningu og valdaleysi en hún sjálf hefur nokkurn tímann upplifað. „Sjaldnast tengjum við þó þennan veruleika við háa tíðni ofbeldis gegn fötluðu fólki. En við verðum að skoða þennan veruleika – þessa menningu – til að geta sett hlutina í samhengi og skilið orsakir þeirra og afleiðingar.“

„Mikilvægt er að átta sig á því að gerendur nýta sér ekki fötlunina sem slíka heldur nýta þeir sér jaðarsetta stöðu okkar. Dómskerfið kýs til að mynda að líta á okkur, fatlaðar konur, sem ótrúverðug vitni. Þetta vita gerendurnir manna best og notfæra sér óspart. Það væri eflaust lítið varið í að misnota okkur kynferðislega ef á okkur væri hlustað. Þannig eru gerendurnir ekki að nýta sér fötlun okkar heldur það valdaleysi og kúgun sem við búum við á öllum sviðum. Hvort sem um ræðir innan dómskerfisins eða þjónustukerfisins svo dæmi séu nefnd. Það er ekki tilviljun að fatlaðar konur verða fyrir ofbeldi. Þetta er ekki einhver ótrúleg óheppni og ofbeldið stafar ekki af því að fatlaðar konur geta ekki varið sig,“ segir Embla jafnframt og bætir við:

„Í sameiningu höfum við búið okkur til samfélag þar sem ofbeldi, kúgun og misrétti er talið hversdagslegt og jafnvel eðlilegt fyrir tiltekna hópa, – einhverskonar náttúrulögmál. Fólk keppist við að afsaka ofbeldið og afgreiða það sem fáfræði. Svo hvetjum við fatlað fólk til að mæta ofbeldinu með umburðarlyndi og bros á vör. Slík menning er gróðrarstía ofbeldis.“

Erindi Emblu má lesa í heild sinni á vefsíðu Tabú

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman