Viðbúnaður við kjarnorkuvopnaárás á Ísland
Um 70 ár eru liðin frá því að atómsprengjum var varpað á japönsku borgirnir Hiroshima og Nagasaki. Þar með var kjarnorkuöld gengin í garð og kalda stríðið skall á skömmu síðar með kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna.
Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld gripu stjórnvöld víðs vegar á Vesturlöndum til margvíslegra aðgerða svo verja mætti almenna borgara kæmi til kjarnorkustyrjaldar. Erlendis voru gerðar umfangsmiklar áætlanir um brottflutning fólks af þéttbýlustu svæðum og að sama skapi var hvarvetna efnt til fræðslu um það hvernig fólk skyldi haga sér ef atómsprengja spryngi.
Svo virðist sem íslensk stjórnvöld hafi gengið skemur í þessum efnum en forystumenn nágrannaþjóðanna, en þegar um miðbik sjötta áratugarins höfðu hinar Norðurlandaþjóðarnar reist gríðarstór loftvarnarbyrgi í stærstu borgum og gerðar voru frekari áætlanir um hvernig draga mætti úr manntjóni kæmi til kjarnorkuárásar.
Herstöðvarandstæðingar voru mjög gagnrýnir á íslensk stjórnvöld fyrir sinnuleysi í þessum málaflokki. Ein helsta röksemd þeirra gegn veru varnarliðsins var sú árásarhætta sem það skapaði kæmi til styrjaldar. Keflavíkurflugvöllur væri aukinheldur í næsta nágrenni við mestu byggð landsins. Hér á landi væri því jafnvel enn ríkari ástæða til að efla varnir gegn kjarnorkuvá en á hinum Norðurlöndunum.
Í tímariti þjóðvarnarmanna, Frjálsri þjóð, var því haldið fram árið 1955 að ástæða sinnuleysis stjórnvalda væri sú að hún þyrði ekki „að láta þjóðina finna það áþreifanlega, í hvaða hættu henni var stefnt með herstöðvunum“. Í Frjálsri þjóð sagði svo: „Hér hafa engin loftvarnarbyrgi verið gerð. Hér hefur enginn undirbúningur verið gerður að skyndiflutningi fólks frá Faxaflóa, ef til þyrfti að taka. Hér er ekki kunnugt um, að læknum hafi verið kynnt sérstaklega, hvaða ráðum skuli beita við sjúklinga er orðið hafa fyrir skaðlegum geislaáhrifum. Engar leiðbeiningar hafa verið birtar almenningi um það, hvernig mönnum beri að haga sér, ef kjarnorkuárás yrði gerð á Keflavíkurflugvöll.“
Þrátt fyrir gagnrýni þjóðvarnarmanna og sósíalista var starfandi lofvarnarnefnd á þessum árum, en henni var komið á laggirnar 1951, sama ár og undirritaður var varnarsamningur við Bandaríkin. Nefndinni stýrði Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri og hún hafði framan af yfir allnokkrum fjárheimildum að ráða sem notaðar voru til eldvarna, hjúkrunar- og líknarmála og til að koma upp stjórnstöðvum, aðvörunarkerfi, fjarskiptakerfi, birgðageymslum, hjálparsveitum og ýmsu öðru.
Nefndin lét enn fremur rannsaka þörf á loftvarnarbyrgjum og var niðurstaða þeirra athuguna að hús hér á landi væru almennt traustbyggðari en í öðrum löndum og því rétt að skipuleggja loftvarnarbyrgi sem víðast í kjöllurum húsa. Ef til loftárása kæmi yrði vandasamast að koma fólki fyrir í skýlum í miðbænum og var því áformað að við endurbyggingu miðbæjarins yrði gert ráð fyrir loftvarnarbyrgjum í kjöllurum. Nefndin lagði að auki til að útbúið yrði stórt loftvarnarbyrgi undir Arnarhóli. Þá voru keyptar rafknúnar loftvarnarflautur frá Danmörku.
Þessum málum var komið í fastara form með almannavarnarlögum árið 1962. Það sama ár reis Kúbudeilan og líklega var aldrei jafnmikil hætta á að kjarnorkustyrjöld brytist út og einmitt þá.
Árið 1967 gáfu Almannavarnir ríkisins út fræðslurit þar sem fjallað var um varnir og viðbúnað við kjarnorkuvá. Þar sagði meðal annars: „Lítið undan og verjið augun sem allra bezt. HORFIÐ EKKI Í LJÓSIÐ … Kvikni í fötum yðar skuluð þér reyna að slökkva eldinn með því að velta yður á þann líkamshluta, sem er í hættu. Liggið kyrr, unz höggbylgjan hefur gengið yfir. Leitið síðan strax betra skýlis.“ Upplýsingar um varnir gegn kjarnorkuvá var að finna í símaskránni allt til ársins 1989.
Ef kæmi til kjarnorkuárásar skyldi fólk halda sig innan dyra og helst í múruðum kjöllurum, þar sem geislunar gætti síður.
Um miðbik sjötta áratugarins var talið óhætt að yfirgefa hús að sjö dögum liðnum „með varúð“. Við svo búið skyldi hreinsunarstarf hefjast, götur sópaðar og vatni dælt á hús og vegi til að skola á burt hið banvæna geislavirka ryk. Af hérlendum blöðum að dæma var almenn vitneskja um langtímaáhrif geislunnar þegar komið var fram á sjötta áratuginn.
Árið 2003 var fyrst sagt opinberlega frá skýrslum sem Almannavarnir ríkisins sendu dómsmálaráðherra í byrjun árs 1966 og fjalla um mögulega kjarnorkuárás á varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Skýrslunar eru merktar sem trúnaðarmál og í þeim kemur meðal annars fram að lítið sem ekkert skjól var á helstu stjórnarstofnunum fyrir geislavirku úrfalli kæmi til þess að atómsprengju yrði varpað á Keflavíkurflugvöll. Þó var á það bent að með nokkuð einföldum úrbótum mætti útbúa hentugt loftvarnarbyrgi í kjallara Arnarhvols. Þar kæmust 200 manns fyrir og hækka mætti svokallaðan verndarstuðul vegna geislunar verulega með því að byrgja glugga á kaffistofu með 20 cm þykkri steinsteypu.
Forsetasetrið á Bessastöðum var tekið út með tilliti til þess að eins megatonns atómsprengja yrði sprengd nálægt jörðu á Keflavíkursvæðinu og að geislavirkt úrfall bærist frá henni til Bessastaða. Talið var að kjallari undir þvotta- og geymsluhúsi staðarins gæti hentað sem „geislunarskýli“. Þar væri fyrir hendi vatnslögn og niðurfall, en gera þyrfti gólfplötu 10 cm til 20 cm þykkari og ráðast í frekari steypuvinnu til að hindra að geislun bærist inn.
Til að vernda stjórnvöld landsins var kannaður möguleiki á að flytja æðstu embættismenn út fyrir Reykjavík, en ekki hefur verið gefið upp hvaða staður var hafður í huga í því efni.
„Forsetasetrið á Bessastöðum var tekið út með tilliti til þess að eins megatonns atómsprengja yrði sprengd nálægt jörðu á Keflavíkursvæðinu og að geislavirkt úrfall bærist frá henni til Bessastaða."
Í skýrslunni frá 1966 eru ýmsar frekari úrbætur nefndar, en að sögn Guðjóns Petersens, sem starfaði hjá Almannavörnum frá 1971 til 1996, var ekki ráðist í neinar þeirra. Viðamikil úttekt á öllu húsnæði í landinu sem hugsanlega gæti varið fólk gegn geislavirku úrfalli hefði leitt í ljós að hægt væri að verja alla Íslendinga í því húsnæði sem þegar væri til staðar. Almannavarnir létu gera ýmsar frekari úttektir á áhrifum atómsprengju. Þar á meðal var mögulegt mannfall reiknað út með tilliti til ólíkra vindátta.
Hljóðviðvörunarkerfi Almannavarna var komið upp í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratugnum en frá 1980 var ekki unnið frekar að uppbyggingu þess vegna fjárskorts. Lúðrarnir voru þeyttir ársfjórðungslega í könnunarskyni og þá átti fólk að fletta upp í símaskránni til að kynna hvað hvert hljóðmerki táknaði. Merkin voru þrjú og táknuðu „áríðandi tilkynning í útvarpi“, „hætta yfirvofandi“ og „hætta liðin hjá“. Hljóðmerki Almannavarna voru prófuð reglulega allt fram til ársins 1997.
Árið 1988 var þess getið í Degi að Sovétmenn, Svisslendingar og Svíar verðu hlutfallslega nífallt meiri fjármunum til almannavarna en Íslendingar og Danir og Norðmenn sexfallt meira. Um líkt leyti fékk ríkissjónvarpið leyfi til að mynda neðanjarðarbyrgi undir Lögreglustöðinni við Hverfisgötu sem átti að vera stjórnstöð ef landið yrði fyrir kjarnorkuárás. Þar var útvarpssendir og hægt hefði verið að senda út upplýsingar á miðbylgju. Geislun af úrfellinu dvínar hratt og ekki var gert ráð fyrir að menn þyrftu að hafast við í byrginu lengur en 72 klukkustundir.
Hættan af kjarnorkusprengjum var enn talin vera til staðar árið 1985 þegar Almannavarnir æfðu stjórnun brottflutnings allra íbúa úr Austur-Skaftafellssýslu með tilliti til þess að atómsprengju hefði verið varpað á ratsjárstöðina á Stokksnesi. Í æfingunni var gert ráð fyrir að um 120 kílótonna sprengju væri að ræða. Í fréttum af æfingunni kom fram að fyrsta aðgerð í ófriði yrði að flytja fólk burt af svæðum nærri ratsjárstöðvum.
En þess var skammt að bíða að Sovétríkin féllu og þar með var hættan á kjarnorkustyrjöld liðin hjá. Flautur Almannavarna eru þagnaðar. Vonandi fyrir fullt og allt.
Björn Jón Bragason / Birtist áður í DV.