Skuldar rúmar 20 milljónir króna – Á leið í gjaldþrot eftir sukkárin
Fyrrverandi blaðamanninum Kolbeini Óttarssyni Proppé var ráðlagt að gefast upp, eftir að hafa stefnt fjármálum sínum á bólakaf. Vandræðin segir hann að hægt sé að rekja allt til ársins 2000, þegar Kolbeinn starfaði sjálfstætt við fræðimennsku, þýðingar og sitthvað fleira.
Kolbeinn greindi fyrst frá málinu á Facebook, en í samtali við DV segist hann hafa ákveðið að birta færsluna og segja frá öllu saman, þar sem að hans sögn upplifi hann mikinn ósigur og segir skömmina sem fylgi þessu vera mikla. Hann segir í færslunni sem hann birti í gær:
„Í upphafi þessa mánaðar lagði ég fram beiðni um gjaldþrotaskipti og í gær var hún tekin fyrir í héraðsdómi og skiptastjóri skipaður yfir búinu. Ég er á leið í gjaldþrot.“
Aðspurður hver heildarskuld sín sé, segir Kolbeinn upphæðina vera rúmar 20 milljónir króna. Þessa fjárhæð telur Kolbeinn sig ekki geta greitt upp. Honum, „eignalausum launamanninum“, eins og hann segir sjálfur muni ekki endast ævin til þess.
„Ég hef hins vegar ákveðið að vera ekki að pukrast með þetta, heldur segja frá þessu. Ég vil líf án leyndarmála, jafnvel þegar óþægilegir hlutir eiga í hlut,“ segir Kolbeinn.
Í mars árið 2014 fór Kolbeinn í meðferð, eftir að hafa glímt við áfengisvandamál, en í kjölfar meðferðarinnar segist hann hafa fengið hjálp góðs fólks við tiltekt í lífi sínu. Þá segir hann að eitt af stóru verkefnunum sem hann hafi þá glímt við, hafi verið þessi uppsafnaða skuld sukkáranna. Um árabil skilaði hann ekki skattskýrslum, fékk á sig áætlanir og skuldirnar jukust jafnt og þétt.
„Og eins og sönnum alkóhólista sæmir lokaði ég alltaf augunum fyrir þessu, sérstaklega þegar upphæðirnar voru orðnar svo háar að ég missti raunveruleikasamband við þær – raunar var mitt raunveruleikasamband aldrei gott,“ segir hann og bætir við að honum hafi verið bent á það væri óvinnandi vegur fyrir hann að standa skil á sínum skuldum.
„Mér var ráðlagt strax að gefast upp, þetta væri óvinnandi vegur. Ég vildi ekki hlaupast undan mínum skuldum, vildi taka ábyrgð gjörða minna, vildi standa mína plikt,“ segir Kolbeinn og bætir því við að hann hafi eytt mörg hundruð þúsundum króna í að fá fagfólk til að vinna í málinu og til að fá stöðuna alveg á hreint.
„Ég fór sjálfur fram á gjaldþrot og stend sjálfur undir kostnaðinum við það,“ segir Kolbeinn. Þá segist Kolbeinn ætla að nýta sér reynsluna til að þroskast áfram og verða nýtur þjóðfélagsþegn.
Orðrómur hefur verið á kreiki um að Kolbeinn hyggi á framboð til Alþingis í næstu Alþingiskosninum. Aðspurður hvort hann geti staðfest það segir hann uppstillingarnefnd vinna að uppstillingu lista í Reykjavík, en flokksráð verði síðan að samþykkja hann. Að sögn Kolbeins á listinn að líta dagsins ljós í kringum 20. ágúst næstkomandi, en hann vildi ekki gefa neitt frekar upp.