fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Með ísbjörn á bakinu

Didda skáldkona hefur gert dyraat hjá dauðanum – Lenti í alvarlegu slysi á barnsaldri – Fékk rangar greiningar og lyfjaeitrun – Pönkari, nektarmódel og verðlaunaleikkona

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 1. júlí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurlaug Didda Jónsdóttir er þúsundþjalasmiður: Eddu-verðlaunaleikkona, menntuð töskugerðarkona, fyrrverandi ruslakona, nektarmódel, starfsmaður á Grund og uppvaskari – en umfram allt skáld. Undanfarin ár hefur Didda glímt við erfið veikindi, að hluta til vegna rangra greininga og alvarlegrar lyfjaeitrunar. Hún segist þó telja rót veikindanna liggja mun dýpra, í slysi sem hún lenti í á barnsaldri en var aldrei tekist á við.

Ég hef oft gengið framhjá kjallaraíbúð Diddu á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur og velt fyrir mér hver ætti nú eiginlega heima þarna. Glugginn er eins og frumskógur, yfirfullur af plöntum og í gluggakistuna er raðað ýmiss konar leikfangapersónum. Fyrir utan húsið standa ljósgul tík og svartur köttur með brúnum og hvítum flekkjum og þegar Didda kemur út til að taka á móti mér, stökkva þau glaðlega til hennar.

Við setjumst við skrifborð við stóran stofuglugga sem snýr út að götunni og hún kemur með tvö vatnsglös – ég er búinn að drekka of mikið kaffi í dag, og hún segist eiginlega hætt því. Það eru stubbar í öskubakkanum og bækur á rúi og stúi, um anatómíu og amasónur. Við og við gengur einhver nágranni fram hjá glugganum og þá glennir Didda upp augun, vinkar, og útskýrir svo fyrir mér hvaða gull af manni það hafi verið.

Á yfirborðinu má Didda kannski muna sinn fífil fegurri, úfið rautt hárið er horfið, orðið stutt og litlausara, og rakað bak við vinstra eyrað. Þrátt fyrir hrukkur og sár í andlitinu er þó sami glampinn í augunum og áður, hún hlær líflegum rámum hlátri og brosir með öllu andlitinu. Smávaxinn líkaminn virkar kannski brothættur en hefur lifað ýmislegt af.

Ég bið Diddu um að segja mér frá ævi sinni og lífsviðhorfum, en það sem er henni efst í huga um þessar mundir eru líkamlegir erfiðleikar undanfarinna ára. Hún er ólm í að segja sína sögu til að hjálpa öðrum, hvetja fólk til að hlusta á börnin sín og taka skilaboðum líkamans alvarlega.

Upptekin af því að drepast ekki

Það rifnaði hér magi, árið 2010, bara eins og garðslanga.

„Undanfarin sex ár hef ég verið ofsalega upptekin af því að drepast ekki. Það er náttúrlega ákveðið námskeið,“ segir Didda og hlær.

„Það rifnaði hér magi, árið 2010, bara eins og garðslanga,“ segir hún blátt áfram.

„Þarna hófst í rauninni niðurlægingarferill sem hefur staðið yfir síðustu sex ár. Ég lenti á götunni og ég hefði í raun ekki lifað þetta af ef ég hefði ekki verið svo heppin að hitta hverja mannperluna á fætur annarri sem hjálpaði mér,“ segir hún.

Veikindin hafa orðið þrálát meðal annars vegna ólíkra og fjölbreyttra greininga og alvarlegrar lyfjaeitrunar sem Didda fékk vegna gigtarlyfja, sem hún var látin taka að óþörfu að eigin sögn. „Húðin harðnaði öll. Ég fór í algjöra vöðvaspennutruflun, fékk krampa og fleira. En mér leið svolítið eins og þeir hefðu ekki lesið bókina,“ segir Didda um læknana.

Hún hætti samstundis á lyfjunum og hægt en örugglega tók hún að braggast. Í kjölfarið fór hún að taka sjálfa sig í gegn, kynna sér virkni líkamans og vera sinn eigin læknir.

segir Didda um meiðslin sem hafa hrjáð hana allt frá barnsaldri.
„Ég upplifði þetta alltaf sem ósýnilega ísbjörninn,“ segir Didda um meiðslin sem hafa hrjáð hana allt frá barnsaldri.

Mynd: Þomrar Vignir Gunnarsson

Með ísbjörn á bakinu

Eftir ítarlega sjálfsskoðun komst hún að þeirri niðurstöðu að hún hefði alla ævi verið að takast á við afleiðingar slyss sem hún lenti í á barnsaldri – og nú finnst henni svo margt í fari sínu skýrast af meiðslunum sem hún hlaut þá.

Didda fæddist árið 1964 á Selfossi, þar sem amma hennar bjó, en ólst upp í Reykjavík. Hún segir mér að hún hafi verið forvitið og skapandi barn. En þegar hún hafi verið þriggja ára hafi hún fest höfuðið á milli rimla á handriði í stigaganginum á heimili fjölskyldunnar í Ljósheimum.

„Mér var hjálpað, en við það brotnuðu fingur og viðbein, það rifnaði vöðvi og um leið og mér var þrykkt í gegn þá tognuðu gagnaugavöðvarnir,“ segir Didda og sýnir mér skýringarmynd sem hún hefur teiknað af atvikinu.

Ég byrjaði að reykja tóbak sex ára af því að mér fannst það kæla sársaukann í andlitinu.

Hún segir að í kjölfarið hafi hún ekki fengið þá umönnun sem hún hefði þurft, og það hafi haft afdrifaríkar afleiðingar. Stöðugur sársaukinn sem hún upplifði eftir slysið og það hvernig einföldustu hlutir kröfðust mikils átaks segir hún hafa fylgt henni í gegnum lífið. „Ég upplifði þetta alltaf sem ósýnilega ísbjörninn. Mig sveið og þetta var óþægilegt. Auðvitað óx líkaminn og tognunin með. Líkaminn reynir alltaf bara að vera til, og þess vegna er maður til – þó að maður verði kannski svolítið skrýtinn.“

Hún segir slysið hafa leitt af sér ýmsa kvilla, kippi og sársauka, sem hún hafi átt erfitt með að tjá eða útskýra fyrir sínum nánustu. „Lengi vel tengdi ég líkamlegan sársauka og raddir. Þegar bróðir minn fæddist þá breyttust raddirnar í fólki. Ég vildi helst að allir sem mér þótti vænt um væru yfir litlum börnum, því þá væru þeir svo góðir í röddunum sínum,“ segir hún og rifjar svo upp sögu af því þegar hún giftist syni nágrannans í barnamessu í von um að fá að flytja inn til ljúfróma tengdamóður sinnar.

„Ég var líka alltaf með sviða, bjúg og doða og annarlegar tilfinningar í andlitinu. Ég byrjaði að reykja tóbak sex ára af því að mér fannst það kæla sársaukann í andlitinu.“ Seinna segir hún andlitsmálningu og sítt hár hafa kveikt óþægindatilfinningu í andlitinu, en þar sem hún hafi forðast slíkt punt hafi hún þótt undarleg og á skjön.

Ó, Reykjavík

Didda segist hafa fundist hún eiga ekki samleið með fjölskyldu sinni – sem vissi ekki hvernig átti að takast á við undarlega hegðun barnsins. „Ég sem krakki eignast ekki orð yfir það sem kom fyrir mig. Ég kvarta ekki rétt. Í lífsbaráttu fólks gerist bara það sem gerist, en ef þú passar ekki við borðið hjá fólkinu þínu, þá veistu að það hefur örugglega eitthvað með þig að gera.“

Hún segir að eitt af því sem hún sjái mest eftir í lífinu sé að hafa ekki getað verið samferða foreldrum og fjölskyldu sinni lengur í lífinu, en hún var snemma farin að heiman og fljótlega byrjuð að hanga með utangarðsmönnum og pönkurum á götum Reykjavíkur.

Ég hef alltaf getað talað til sjálfrar mín með sköpuninni. Og ef mér hefur tekist að tala til einhvers annars í leiðinni þá er það bara frábært.

Hvernig komst þú í kynni við pönkið og pönkarana?

„Ég byrjaði að hlusta á þessa músík í gegnum Jóa söngvara í Vonbrigði. Ég kynntist honum á Hlemmi. Hann og hans vinir voru allir að spila á hljóðfæri. Þá komst ég hins vegar að því að ég gat ekki heldur spilað á gítar. Ég gat ekki hreyft höndina því ég var öll snúin og klemmd, en ég gat samið texta. Það geta allir gert eitthvað!“

Hún fór því að semja texta fyrir hinar ýmsu rokkhljómsveitir, en þekktastur er líklega textinn við lagið Ó, Reykjavík sem Vonbrigði gerði ódauðlegt í Rokk í Reykjavík. „Ég hef alltaf getað talað til sjálfrar mín með sköpuninni. Og ef mér hefur tekist að tala til einhvers annars í leiðinni þá er það bara frábært.“

Didda leikur í blúshljómsveitinni Mina Rakastan Sinua, sem þýðir Ég elska þig, á finnsku.
Ég elska Didda leikur í blúshljómsveitinni Mina Rakastan Sinua, sem þýðir Ég elska þig, á finnsku.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

„Down and out in London and Reykjavík“

Didda segir að sársaukinn tengist bæði röddum og stöðum og því hafi hún reglulega flúið vinahópa og flutt sig milli staða. Árið 1987 flutti hún til Lundúna og stundaði nám í tösku- og veskjagerð.

Hún segist hafa verið alsæl í Lundúnum þar sem hún hafi vafrað um og sungið með sígaunum á írskum pöbbum. „Það er svo gott að vera þar sem enginn veit hver þú ert. Ég gekk mikið um – eins og ég hef alltaf gert – vafraði um og kom mér í vesen og ævintýri. George Orwell höfðaði mikið til mín á þessum tíma, til dæmis „Down and out in Paris and London“. Ég held að ég hafi líka alltaf vitað að ég myndi aldrei nenna að vera í miklum gullkálfsham, þannig að ég þyrfti að geta komist af með öllum tiltækum ráðum,“ segir hún, en bók Orwells fjallar einmitt um fátæktarlíf á götum evrópsku stórborganna.

Ég vann um tíma sem nakið módel í Myndlistar- og handíðaskólanum. Ég sé núna að það var eiginlega tilraun til að finna út hvað væri að bakinu á mér.

„Það er í raun stórmerkilegt að ég hafi dröslað mér í gegnum þetta nám því ég hef alltaf verið svo dofin í höndunum. Þess vegna hef ég lítið sótt í fínvinnu eftir þetta, það á miklu betur við mig að halda á skafti eða stjórna stýri eða hlaupa.“

Það var því aðeins í stuttan tíma sem hún starfaði við fagið sem hún lærði, en hún hefur komið víða við á starfsferlinum. „Ég hef alltaf hlaupið á milli vinnustaða. Ég hef unnið í fiskvinnslu, sláturhúsi, ruslinu, „you name it!“ En eins og með raddir og staði hef ég bara haft ákveðið mikinn „tolerans“ fyrir störfum, svo þarf ég að fara – sem er leiðinlegt. Það er leiðinleg framkoma við annað fólk! Þetta er kannski mín máttlausa tilraun til að biðjast afsökunar,“ segir Didda og setur sig flissandi í stellingar: „Góða fólk, ég veit þið vilduð mér vel. Það var satt hjá ykkur, ég hefði átt að gera betur,“ segir hún og hlær.

„Ég vann um tíma sem nakið módel í Myndlistar- og handíðaskólanum. Ég sé núna að það var eiginlega tilraun til að finna út hvað væri að bakinu á mér, eins og þegar maður tekur mót af skemmdri tönn. Fljótt komst ég hins vegar að því að fólk teiknar alltaf sjálft sig inn í myndirnar. Maður sér ekki módelið heldur listamanninn í því sem hann gerir. Öll sköpun er bara þú. Þess vegna skrifa ég. Þegar krakkarnir, vinir mínir, fóru að biðja mig um texta, þá fyrst fór ég að segja sjálfri mér satt,“ segir Didda og segist raunar hafa fengið upp í kok þegar hún þurfti að horfast í augu við sjálfa sig á þeim tíma.

Hún líkir viðtalinu okkar einnig við slíka sjálfsmynd sem segi í raun meira um blaðamanninn sjálfan en viðmælandann.

Vill ekki bæta sársauka í heiminn

Mér finnst ég ekkert hafa opinberað mig. Ég þarf ekki að líta á það þannig. Sólin gerir það ekki, ekki skammast hún sín!

Ljóðabók Diddu, Lastafundur og lausar skrúfur, kom út árið 1995 og vakti nokkra athygli fyrir bersöglar lýsingar á djammlíferni, kynlífsfantasíum og ofbeldi.

Hefur þú aldrei átt erfitt með að opinbera þig svona?

„Mér finnst ég ekkert hafa gert það. Ég þarf ekki að líta á það þannig. Sólin gerir það ekki, ekki skammast hún sín! Hins vegar er þetta líka spurning um hvaða rödd í manni er að tala hverju sinni, er það barnið, unglingurinn, eða einhver önnur? Það getur verið að ég sé krakkinn fastur á ganginum og verði það alltaf.“

Auk ljóðaplötu við undirleik ólíkra tónlistarmanna gaf Didda út tvær skáldsögur, Erta og Gullið í höfðinu: hetjusaga, á seinni hluta tíunda áratugarins. Síðan þá hefur Didda ekki sent neina bók frá sér, þrátt fyrir að skrifa og teikna daglega.

„Fólk er alltaf að hvetja mig til að skrifa, svo vonandi geri ég það einn daginn. En það þarf að vera þannig að mig langi að gefa það út. Heimurinn er fullur af sársauka, svo af hverju ætti ég bæta við? Mig langar ekki að koma með uppskrift að því hvernig fólk getur fundið meira til, mig langar til að finna uppskriftina að því hvernig maður reddar því. Þegar líkaminn er farinn að skrifa ljóðin sem hann þarf til að reisa sig við, þá gef ég út.“

Ekki ólöglegt að skemmta sér

Didda hefur verið áberandi í menningarlífi Reykjavíkur í gegnum tíðina, en ekki síður á öldurhúsum borgarinnar. Hún segir þó að oft hafi hún frekar verið dæmd fyrir útlit og líkamlegt ásigkomulag fremur en gjörðir – Ísland sé „útlitsgrimmt“ samfélag.

„Sérfræðingar í alls konar lífsstíl ákváðu að ég hlyti að tilheyra ákveðnum efnalífsstíl. Það er eðlilegt! Þegar þú ert kippóttur og sveimhöfuð, þegar augasteinarnir eru stórir af því að vöðvarnir eru svo snúnir, þá ert þú ekki sannfærandi. Þú ert ekki eins og hinir – og ef fólk sér sig ekki í sér þá er eðlilegt að það óttist,“ segir hún og bætir við að oft sé auðveldast að stimpla fólk sem fíkla eða sjúklinga frekar en velta fyrir sér sársaukanum sem það er að kljást við.

Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að ég gæti notað hass og marijúana. Það hjálpar mér að þrauka.

Aðspurð um vímuefnanotkun svarar hún: „Það er ekki ólöglegt að skemmta sér. Um leið og við megum ekki skemmta okkur þá skulum við vera með læti. Ég var með snúinn gagnaugavöðva og ég held að ég hefði mátt taka svolítið meira dóp við því. En ég var hins vegar alltaf mjög viðkvæm fyrir því, jafnvel þegar ég reyndi. Ég á vini sem kunna alveg að taka dóp og þeim hefur blöskrað hvað ég get lítið,“ segir Didda.

„Eiturlyfjaneysla, sama hvaða nafni hún nefnist, hefur áhrif á miðtaugakerfið, sem er meðal annars í húðinni. Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að ég gæti notað hass og marijúana. Ég er ekki að segja að þetta lækni nokkurn skapaðan hlut, en það hjálpar mér svo sannarlega að þrauka – og það hjálpar mörgum. Þetta er ekki eins hart og mörg þeirra lyfja sem ég hef fengið, til dæmis lyfin sem ég fékk ofnæmi fyrir.“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Sótti son sinn til Kúbu

Didda á tvo syni, 26 og 16 ára, og segist hún finna sig frábærlega vel í móðurhlutverkinu. Ég spyr hana um sögu sem ég heyrði af því þegar hún skipti um afmælisdag við yngri son sinn.

„Já, hann átti afmæli á aðfangadag og því mjög lítið um að fólk gæfi sér tíma til að sinna honum. Það var svolítið leiðinlegt og því einfaldara að flýta afmælinu. Mig minnir að hann hafi verið fjögurra ára. Núna er hann orðinn það þroskaður að hann er búinn að sjá í gegnum þennan húmor. En þú lærir eflaust heilmikið á því að fæðast á svona degi – og vera blökkumaður í þokkabót. Það er sjálfsagt að halda upp á afmæli hvenær sem manni sýnist ef manni finnst það mikilvægt,“ segir Didda sem segist þó aldrei halda upp á eigin afmælisdag, hún spyrji frekar árlega af hverju hún sé ekki búin að afreka meira.

Ég skal moka skurðina, passa krakkana, sækja beljurnar … en að vera eiginkona? „No fucking way!“

Árið 1998 fór Didda í sjálfskipaða útlegð til Kúbu þar sem yngri sonurinn kom einmitt undir. „Ég hef ekkert annað svar en að ég hafi farið þangað til að ná í hann Hrafn, yngri son minn,“ segir hún um ástæðuna fyrir Kúbuævintýrinu.

„Maður verður bara að hlýða sínum genum. Kannski er það líka vegna þess að undir niðri leynist í mér sterk negrakerling frá Kúbu eða Jamaíku. Pabbi Hrafns er frá Jamaíku en hann kom undir á Kúbu,“ segir Didda og segist einnig hafa tengt sterkt við stemninguna á Karíbahafseyjunni.

Sambandið við barnsföðurinn var skammlíft. „Ég gæti ekki tollað í sambandi! Ég er ekki efni í eiginkonu – elskan mín! – sparkandi í fólk, og svo má varla koma við mig. Það hefur ekki verið gaman að sofa við hliðina á mér. Það þraukar enginn slíkt af. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef þol fyrir, ekki hegðun sem ég gæti tileinkað mér. Ég skal moka skurðina, passa krakkana, sækja beljurnar … en að vera eiginkona? „No fucking way!“ Ég held að lengsta sambandið hafi verið við pabba eldri sonar míns, Úlfs, tvö og hálft ár eða eitthvað.“

En hefur þú orðið ástfangin?

„Ég elska, ég elska aaalveg, elskan mín! En stundum þegar þú elskar þá verður þú að „set them free“, það er alveg satt.“

Didda hlaut Edduna fyrir leik sinn í myndinni Stormviðri árið 2003
Leikkonan Didda hlaut Edduna fyrir leik sinn í myndinni Stormviðri árið 2003

Leikkona og músa

Á undanförnum árum hefur Didda helst komið fyrir sjónir almennings sem leikkona í myndum fransk-íslensku kvikmyndagerðarkonunnar Sólveigar Anspach, sem lést úr krabbameini í fyrra, 54 ára gömul.

Didda rifjar upp hvernig hún fékk hlutverk í Stormviðri (e. Stormy Weather) árið 2003. „Á þessum tíma vann ég við uppvask á Shalimar, var nakið módel í Iðnskólanum og eflaust að skúra líka. Ég var að fá mér kaffi á Prikinu og ég sá að þessi kona horfði brosandi á mig. Ég heyri útundan mér að Gagga Jónsdóttir er að segja henni að ég heiti Didda, og þá gjamma ég bara yfir staðinn „OG ÉG ER SKÁLD!“ Þetta var svolítið Dags-legt, hann gaf mér alltaf bestu trixin, trix úr leiklistarskóla Dags Sigurðarsonar ljóðskálds: „Taktu salinn! Láttu allt skjálfa og taktu svo salinn. Bingó“,“ segir Didda og hlær.

Þetta var svolítið Dags-legt, hann gaf mér alltaf bestu trixin, trix úr leiklistarskóla Dags Sigurðarsonar ljóðskálds.

„Sólveig varð svona rosalega „impóneruð“ yfir þessu því hún var sjálf ekki farin að þora að kalla sig kvikmyndagerðarkonu. Þegar ég mætti í prufu sagði ég svo í einhverju gríni: „hvað, á ég að fara úr fötunum?“ Innréttingin í henni Sólveigu minni var svo frönsk, svo ég skil vel að henni hafi fundist ég svolítið gróf og lopapeysuleg,“ segir Didda sem talar um þessa vinkonu sína sem mikla valkyrju í kvikmyndabransanum.

Didda lék í þremur öðrum myndum Sólveigar: Skrapp út, Queen of Montreuil og The Together Project, sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor. Þessi þríleikur fjallar að miklu leyti um ævintýri íslensku, hassreykjandi skáldkonunnar Önnu, karakters sem Sólveig sagði að hefði verið innblásin af Diddu sjálfri.

Mynd: Þomrar Vignir Gunnarsson

Líffæra- og læknisfræði

Það eru ekki fleiri kvikmyndaverkefni á döfinni hjá Diddu. En hún segir að um þessar mundir fari dagarnir fyrst og fremst í hugsa vel um líkamann, með olíum, höfuð- og vatnsnuddi, göngutúrum og nálastungum. Hún sé að byggja upp vöðva svo hún geti snúið aftur til vinnu. Þá sé hún stöðugt að lesa sér til og kynna sér líkamann, líffæra- og læknisfræði.

„Uppáhaldsbókin mín í augnablikinu er líkaminn. Ég fæ ekki nóg af honum. Nú glápi ég á fólk sem aldrei fyrr, og mér gæti ekki komið það meira við hvað hefur komið fyrir það. En mér dettur ekki í hug að dæma það. Hefur þú hugmynd í hverju þú ert, öllum þessum arkitektúr? Ég vona að allir komist að því einhvern veginn. Kannski er þetta sameiginleg reynsla þeirra sem gera dyraat hjá dauðanum. Ég ætla aldrei aftur að vanmeta þetta,“ segir Didda uppveðruð.

Hvernig leið þér að vera þarna við dyrakarminn hjá dauðanum?

Ég hef aldrei viljað deyja – alveg sama hvað þetta hefur verið súrt.

„Ég hef aldrei viljað deyja – alveg sama hvað þetta hefur verið súrt. Það hefur alltaf verið tilefni til að taka einn slag í viðbót. Til þess erum við til, til þess að reyna. Það var oft auðvelt að upplifa að maður væri lítils virði. En svo hugsaði ég að það ætti ekki að vera neinn annar vakinn og sofinn yfir því hvernig mér líður. Það er víst ég sem á að sjá um það. Þar sem þetta er allt svona snúið og skrýtið hjá mér þá er líka þeim mun mikilvægara að ég taki stjórnina sjálf,“ segir hún.

„Áður hafði ég aldrei þennan skilning á mínum skrokki. Mér fannst hann alltaf vera utan minnar lögsögu. En ég hef aldrei verið ákveðnari en nú, eftir að ég uppgötvaði hvað það er sem hefur verið bilað. Nú veit ég að ég get gert við þetta, þó að þetta sé svona gömul sinahrörnun. Ég er ennþá einbeittari en nokkru sinni áður, ennþá hættulegri, aldrei verið ákveðnari,“ segir Didda og hlær.

Didda segist ekki vilja bæta meiri sársauka í heiminn með skrifum sínum, en þegar hún nái að skrifa læknandi verk mun hún gefa þau út.
Skrifar og teiknar daglega Didda segist ekki vilja bæta meiri sársauka í heiminn með skrifum sínum, en þegar hún nái að skrifa læknandi verk mun hún gefa þau út.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd