„Ég hef áunnið með mér kvíða og hræðslu, ég er sterk en ég er líka veik“
„Fyrir 7 árum síðan lenti ég í ofbeldi. Það var ráðist inná heimili besta vinar míns eftir að við löbbuðum heim úr partíi. Þar var mér nauðgað. Ég var í sambandi með yndislegum stráki og ég var loksins að komast yfir eineltið sem ég lenti í í grunnskóla. Mér var strítt alla mína ævi og svo lendi ég í þessu 15 ára gömul. Á þeim tíma var ekki talað um ofbeldi eða nauðganir. Það var hinsvegar talað mikið um hversu miklar druslur stelpur voru.“
Svona hefst pistill sem rapparinn Vigdís Ósk Howser Harðardóttir skrifar á Facebook-síðu sína. Vigdís er meðlimur í Reykjavíkurdætrum en í pistlinum segist hún ætla að hætta í sveitinni eftir tónleikaferðalag sem hefst í næstu viku. Vigdís segist gera það til að geta unnið í sjálfri sér og þeirri streituröskun sem hún hefur glímt við.
Að lenda í trauma sem þessu gerir mann að hálfri manneskju
„Að lenda í trauma sem þessu gerir mann að hálfri manneskju. Það vantar hlut í mann. Það vantar hlut í hjartað manns eftir svona. Í mínu tilfelli þá gróf ég þetta lengst niðri og hélt áfram lífinu. Svo eftir óteljandi köst af mér að vakna með marbletti eftir að hafa klipið mig svo fast á lærinu, mig að öskra á foreldra mína afþví þau voru að reyna að skilja afhverju mér leið svona illa, af mér að reyna að útskýra fyrir þáverandi kærasta afhverju ég vildi ekki lengur vera með honum útaf skömm, þá sagði ég nokkrum frá. En bara nokkrum. Svo eldist maður og ég sé alla í kringum mig vera að lenda í ofbeldi og í hvert sinn sem ég heyri ,,mér var nauðgað“ tekur hjartað aukakipp,“ segir Vigdís í færslunni sem hún veitti DV leyfi til að fjalla um.
Hún segist hafa byrjað í druslugönguteyminu og það hafi hjálpað. Það hafi einnig hjálpað þegar hún byrjaði í Reykjavíkurdætrum. Staðreyndin sé samt sú að í öllum samskiptum reki hún sig á „…vegna þess að það vantar eitthvað í mann.“
„Ég reyni alltaf að nálgast alla í góðmennsku og hreinskilni, ég myndi aldrei ljúga eða svíkja. Þegar maður hefur rekið sig oftar í en manni langar og maður er byrjaður að grafa gröf sem er svo djúp og engin grípur í hendina manns en þú finnur fyrir fingrunum á fólki sem er að teygja sig niður að reyna að ná þér aftur upp. Þegar þú finnur fyrir fingrunum þá veistu að það er fólk sem stendur við bakið þitt. Að semja rapp hefur gefið mér mikið og hefur það hjálpað mér mikið,“ bætir hún við.
Ég hef áunnið með mér kvíða og hræðslu, ég er sterk en ég er líka veik
„Hinsvegar að vera svona mikið í sviðsljósinu og skandalast fyrir þjóðina oftar en einu sinni hefur ekki hjálpað mér mikið. Ég hef áunnið með mér kvíða og hræðslu, ég er sterk en ég er líka veik.
Núna er plata RVKDTR að fara að koma út og hefjum við túrinn okkar í næstu viku þar sem við munum halda útí þann stóra heim og spila á 4 hátíðum á 2 vikum. Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta í RVKDTR eftir þann túr þar sem ég verð að vinna í sjálfum mér og minni streituröskun áður en ég verð búin að grafa svo djúpa gröf að það sést ekki lengur í mig. Ég elska þessar stelpur en þær hafa líka lent í mér á mínum erfiðustu stundum og þær hafa lent í mér á þeim dögum sem ég vakna og sé ekkert framhald í lífinu mínu. Ég sé bara ógeðið og graftarkýlin í heiminum sem geta ekki sprungið.
Þær eru systur mínar og þær hafa alltaf staðið með mér en nú er komin tími fyrir mig að byrja nýjan kafla,“ segir Vigdís.
Í samtali við DV bendir Vigdís á að ár sé nú liðið síðan umræða um kynferðisbrotamál og þöggun í tengslum við þau komst í hámæli. Fjöldi fólks skipti út andlitsmynd sinni á Facebook fyrir gula eða appelsínugula mynd af teiknuðu andliti. Ætlunin var að þeir sem gerðu slíkt hefðu annað hvort sjálfir orðið fyrir kynferðisofbeldi eða þekktu einhvern sem hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi. Vigdís segir að nauðsynlegt sé að halda þessari umræðu á lofti og minna reglulega á að kynferðisbrotamál eigi ekki að þagga niður.