Hefur búið á Landspítalanum síðan hann fékk hjartastopp á páskadag
Á páskadag fór Friðrik Guðmundsson í hjartastopp og var í framhaldinu fluttur í skyndi á Landspítalann. Síðan þá hefur Friðrik, sem er búsettur á Sambýli við Lyngmóa í Njarðvík, náð góðum bata en þrátt fyrir það hefur hann enn ekki fengið að fara heim til sín. Nú lítur þó út fyrir að hann komist fljótlega aftur heim til sín. DV hefur fjallað ítarlega um sögu Friðriks.
Friðrik lenti í hjartastoppi á páskadag, eða þann 27. mars síðastliðinn. Friðrik, sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóm hefur verið fastur á spítalanum þar sem hann féll milli skips og bryggju í kerfinu. Málið snerist í raun um þau óljósu mörk sem geta verið á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Heilbrigðisþjónusta er á forræði ríkisins en félagsþjónusta á forræði sveitarfélaga.
Hvorugur aðili, hvorki sveitarfélagið né ríkið, lýsti sig reiðubúið til að greiða fyrir umönnun Friðriks en þar sem hann þarf að notast við öndunarvél og er að auki bundin hjólastól þarf hann á 100 prósent umönnun að halda það sem eftir er.
Á sambýlinu þar sem hann býr er einn starfsmaður á næturvöktum og þar til þeim verður fjölgað í tvo þá mun hann dvelja áfram á Landspítalanum.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, athygli á málinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi á dögunum og beindi fyrirspurn sinni til Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Birgitta vísaði í umfjöllun DV og sagði:
„Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að fram fari einhvers konar úttekt eða að fram komi tillögur að breytingum til þess að einhver taki ábyrgð þegar svona mál koma upp? Fellur það þá á endanum ekki á ríkið (Forseti hringir.) og þar á meðal þennan ráðherra að greiða úr flækjum á svona gráum svæðum þannig að ekki verði stunduð kerfislæg mannréttindabrot á sjúklingum?“
Kristján Þór sagðist í svari sínu ekki ætla að tjá sig um einstök mál en sagði fyrirspurnina brýna, eðli málsins samkvæmt þyrfti að taka á málum sem þessum. Kristján minnti á að verið væri að gera gangskör á sumum sviðum í að reyna að eyða út hinum gráu svæðum.
Víkurfréttir greina frá því í dag að bæjarráð Reykjanesbæjar hafi samþykkt á fundi þann 2. júní síðastliðinn að ráða í fleiri stöðugildi á sambýlinu. Bæjarráð samþykkti fjárveitingu upp á 16,5 milljónir og gerir ráð fyrir að fjármagn komi frá Jöfnunarsjóði í samræmi við frumvarp sem liggur fyrir Alþingi.
„Þetta eru mjög góðar fréttir,“ segir Friðrik Guðmundsson í samtali við Víkurfréttir og bætir við að hann hlakki til að komast aftur heim. Friðrik vonast til að það verði síðar í sumar.
Bæjarráð samþykkti fjárveitingu upp á 16,5 milljónir og gerir ráð fyrir að fjármagn komi frá Jöfnunarsjóði í samræmi við frumvarp sem liggur fyrir Alþingi.