„Daníel fékk umburðalyndi og gleði í vöggugjöf sem hann hefur tekið með sér í þetta verkefni og hann hefur staðið sig mjög vel og það er aldrei langt í brosið,“ segir Kristín Guðný Sigurðardóttir, móðir hins 11 mánaða Daníel Bjarma en hann fæddist með verulega heyrnarskerðingu. Í kjölfar kuðungaígræðslu er hann nú farinn að heyra og átta sig á hljóðum í kringum sig. Meðfylgjandi myndband var tekið þegar Daníel litli uppgvötaði tónlist og eru viðbrögð hans hreint út sagt dásamleg.
Þetta kemur fram á vef Bæjarins bestu en Daníel Bjarmi er sonur Kristínar Guðnýjar Sigurðardóttur og Guðmundar Hjalta Sigurðssonar sem búsett eru á Bolungarvík. Gekkst hann undir kuðungaígræðslu í báðum eyrum, bæði hérlendis og í Svíþjóð og er nú farinn að mynda hljóð sem hann heyrir. Þá er hann farinn að sýna viðbrögð þegar talað er við hann og þegar kallað er á hann, en að sögn Kristínar er þó ekki vitað nákvæmlega hversu mikið hann heyrir enn sem komið er. „Þetta kemur allt smám saman og það verður spennandi að fylgjast með hvernig þetta þróast hjá honum,“ segir Kristín í samtali við blaðmann DV.
Þá segir Guðmundur að táknmálið sé engu að síður nauðsynlegt fyrir Daníel því ef að hann missir tækin eða þau týnast eða skemmast þá heyrir hann ekkert og þar af leiðandi er ekki hægt að hafa samskipti við hann. „Þó svo að kuðungsíræðslan virki svo vel að hann geti tileinkað sér talað mál þá geta komið upp aðstæður sem hann getur ekki verið með tækin, til dæmis í sundi.
Á vef Heyrnar og talmeinastöðvar Íslands kemur fram:
Kuðungsígræðslutæki (CI) er hjálpartæki sem gefur alvarlega heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki möguleika á að heyra hljóð. Tækið framkallar hljóðáhrif með því að örva heyrnartaugina með rafmagni. Kuðungsígræðslutækið er samsett úr innri hluta, sem er græddur í eyrað með aðgerð, og ytri búnaði, sem borinn er aftan við eyrað. Hlutinn sem græddur er í eyrað er samsettur úr viðtæki og rafskauti með mörgum rásum, en ytri hlutinn úr hljóðnema, sendi og talgervli sem er stilltur fyrir hvern og einn notanda. Talgervillinn er annað hvort vasatæki eða staðsettur bak við eyrað, svipað og hefðbundin heyrnartæki.
Kuðungsígræðslutækið vinnur þannig að hljóðneminn nemur hljóð og sendir það til talgervilsins sem greinir það og kóðar. Þaðan berst hið kóðaða hljóð til sendisins og flyst gegnum húðina til viðtækisins. Viðtækið breytir kóðanum í rafboð sem send eru til hinna ýmsu rafrása í rafskaut sem grætt er í kuðunginn. Rafboðin örva taugafrumur í kuðungi innra eyrans, sem og taugaenda heyrnartaugarinnar. Boðin sem berast eftir heyrnartauginni til heilans skynjar notandinn sem hljóð.
Við byrjuðum strax að læra táknmál og kemur táknmáls kennari frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra,heyrnarskertra og daufblinda einu sinni í mánuði og kennir okkur, ættingjum og leikskólanum táknmal og viljum við þakka leikskólanum fyrir það,“ segir Guðmundur jafnframt og bendir þeim sem forvitnir eru um táknmál fólki á síðu Signwiki þar sem hægt er að kynna sér flest öll tákn í íslenska stafrófinu.
Kristín deildi meðfylgjandi myndbandi á fésbókarsíðu sinni í dag en það var tekið þegar Daníel Bjarmi áttaði sig á tónlist. Hefur myndbandið heilmikla lukku enda erfitt að hrífast ekki af taumlausri gleði litla drengsins sem dillar sér og dansar í takt við músíkina.