Öðruvísi lýsingar á leikjum landsliðsins á EM
Bylgja Babýlons á hvorki langan né neitt sérstaklega glæsilegan íþróttaferil að baki. Hún komst þó á pall á Andrésar andar-leikunum og skoraði mark í fótboltaleik á Króksmóti þegar hún var fimm ára. Þrátt fyrir þetta ákvað hún að standa fyrir beinum útsendingum frá leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, nú þegar Evrópumótið stendur yfir.
„Mér hefur alltaf fundist heillandi að vera með vinnu í útvarpi. Eitthvað kósí og þægileg tilhugsun. Ég var að hlusta á leik nýlega, og fór að velta fyrir mér hvað það væri örugglega auðvelt að lýsa svona fótbolta. Þess vegna ákvað ég að prófa. Útgangspunkturinn var að fá með mér fólk sem vissi lítið eða ekkert um fótbolta – svipað og ég. Mér finnst hann meira að segja ekkert rosalega skemmtilegur.“
Í fyrsta þættinum fékk Bylgja Hugleik Dagsson til liðs við sig, og leiknum á laugardaginn lýsti hún ásamt Páli Ívan frá Eiðum. Á miðvikudaginn verða það svo Þórhallur „Laddason“ og Árni Vilhjálmsson sem sjá um lýsingu með Bylgju. Bylgja segist vel meðvituð um hinn vandræðalega kynjahalla sem hefur einkennt þættina fram að þessu. „Ég er alveg úti að skíta með þetta, en Sólrún og Nadía, vinkonur mínar úr uppistandinu, eru bara búnar að vera svo uppteknar. Þær verða samt með mér mjög fljótlega, ég lofa því.“
Að sögn Bylgju hafa viðbrögð við lýsingunum verið mjög góð, en hún hefur sterklega á tilfinningunni að hlustendur séu að megninu til fólk sem hefur ekki mjög gaman af fótbolta. „Þannig að ég er í raun að útvíkka hópinn sem fylgist með EM. Kannski að KSÍ gæti ráðið mig í þægilegt starf þessu tengt.“ Hlustendur geta tekið virkan þátt í útsendingum Bylgju, en upplýsingar og slóð á útsendinguna er að finna á Facebook-síðunni Boltinn með Bylgju. Upptökur af lýsingum eru í kjölfarið settar inn á Alvarpið.