Líður best í kollsteypu á 300 km hraða – Myndi ekki vilja búa með sjálfri sér – Smíðar listflugvél í frístundum
Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir var fastagestur á sjónvarpsskjáum landsmanna í áratug á meðan hún starfaði við dagskrárgerð á Stöð 2. Svo var hún rekin og breyttist í flugvélanörd. Ragnheiður Eiríksdóttir hitti Siggu í spjalli um háloftin, drauminn um að verða geimfari, strögglið við að haga sér eins og fullorðin manneskja og ýmislegt fleira.
Sigga var ein þeirra sem misstu vinnuna í einni af nokkrum hópuppsögnum 365 miðla síðustu misserin. Henn var sagt upp 30. október í fyrra, en til stóð að hún ynni þriggja mánaða uppsagnarfrest. „Móðir mín bjargaði mér með því að fótbrjóta mig skömmu eftir uppsögnina.“ Þarna vísar Sigga í eitt frægasta fótbrot á Íslandi, en fjölmiðlar sögðu frá því í desember að henni hefði með undraverðum hætti tekist að fótbrotna við smákökubakstur.
„Við mamma vorum að baka sýrlenskar döðlusmákökur. Ég sýndi mikinn metnað í því að mauka döðlurnar í fyllinguna og dró fram gamaldags handknúna hakkavél til verksins. Svona málmklump sem vigtar á við meðalmann. Þar sem uppvask er ekki mín sterka hlið fékk mamma að sjá um frágang, sem gekk ekki betur en svo að hún missti snigilinn úr hakkavélinni beint ofan á ristina á mér. Þetta var reyndar vel miðað hjá henni, mjói endinn fór á undan og ég leit út eins og ég hefði verið krossfest á öðrum fæti. Ég man næstum eftir þessu í hægri endursýningu. Ég stóð þarna heillengi að reyna að átta mig á þeirri fáránlegu staðreynd að ég hefði líklega verið að fótbrjóta mig í fyrsta sinn í fjandans smákökubakstri!“
Mér finnst mjög líklegt að ég sé eina manneskjan á Íslandi sem hef lent í þessu, og ég er nokkuð viss um að starfsfólkið á slysó hafi hlegið að mér, þau sjá þetta víst ekki oft. Í raun fannst mér þetta mjög gott á fólkið sem er stöðugt að gagnrýna mig fyrir að vera með hættuleg áhugamál og segja að ég sé áhættufíkill. Flestir slasast nefnilega við heimilisstörf! Eftir að ég staulaðist út í Melabúð og tókst að slasa mig enn frekar, ákvað ég að halda mig í örygginu úti á flugvelli. Í alvöru talað, ég snapaði mér þyrluflugtúr, tróð gipsinu í þurrbúning í stærð XXL og gat loksins slakað á.“
Sigga er nefnilega búin að vera að hjálpa Sigga vini sínum að smíða Pitts-listflugvél og ver þess vegna öllum frítíma sínum í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Eða næstum öllum, því dálítill tími fer jú í að fljúga um loftin blá, helst sem mest á hvolfi.
„Þarna kom nú forsjónin því þannig fyrir að allt í einu hafði ég allan tíma í heiminum til að sinna ástríðunni minni. Siggi vinur var byrjaður að smíða vængi á vélina sína og ég hafði fram að þessu verið að skjótast til hans af og til og langaði svo að vera með, en þegar þarna var komið var útbúin vinnuaðstaða fyrir fótbrotnu konuna – hreyfihamlaða og atvinnulausa. Þar festist ég eiginlega og uppsagnarfresturinn leið, svo ákvað ég að taka frí sem ég átti inni í beinu framhaldi. Reyndar er tíminn liðinn núna svo það getur verið að ég þurfi að fá mér svokallaða alvöru fullorðinsvinnu fljótlega.“