Meðlimir Hjálparsveitarskáta í Garðabæ senda tvö lið í WOW Cyclothon
„Þetta er fyrst og fremst hópefli og það er ekkert markmið hjá okkur að enda í verðlaunasæti en við ætlum að vera eins og fljót og við getum,“ segir Elvar Jónsson, formaður Hjálparsveita skáta í Garðabæ, um þátttöku tveggja liða sveitarinnar í WOW Cyclothon sem hefst á miðvikudag.
Hjálparsveitin hefur skráð tvö tíu manna lið í keppnina en hún sendi eitt lið í fyrra. Það hjólaði hringinn í kringum landið á rúmum 45 klukkustundum en sigurliðið kom í mark á 36 klukkustundum.
„Það var það gaman hjá okkur í fyrra, og ennþá skemmtilegra hjá þeim sem sátu heima og fylgdust með á netinu, að við ákváðum að vera með tvö lið í ár. Við ætlum að láta liðin vinna saman allan hringinn, og reyna þannig að verða fljótari, til að undirstrika hópeflispartinn í þessu. Það má segja að þetta sé hluti af því sem fylgir oft hjálparsveitinni; að ef eitthvað felur í sér hreyfingu þá þarf oft ekki mikla hvatningu til að fólk sé tilbúið.“
Elvar nefnir sem dæmi að liðsmenn sveitarinnar hafi fyrir nokkrum árum hlaupið á landsþing björgunarsveitanna á Hellu. Annað ár hafi þau hjólað á landsþingið á Akureyri og tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Formaðurinn hlær þegar hann er spurður hvort liðsmenn Hjálparsveitar skáta í Garðabæ séu í betra formi en liðsmenn annarra hjálparsveita á landinu.
„Ég veit ekki hvað skal segja, en þetta heldur okkur í formi til að vera alltaf tilbúin til að takast á við svona áskoranir.“