WOW Cyclothon stærsta hjólreiðakeppni á Íslandi
WOW Cyclothon er stærsta hjólreiðakeppni á íslandi hefst á miðvikudaginn kemur en hún stendur yfir dagana 15.-17 júní. Þetta verður í fimmta sinn sem keppnin er haldin en hún hefur verið haldinn árlega frá 2012. Ræst verður frá Egilshöll og hjólað er hringinn í kringum Ísland með boðsveitarformi þar sem liðsfélagar skipta á milli sín kílómetrunum 1358. Einnig er í boði að hjóla í sóló-flokk en þá hjólar einn keppandi alla kílómetrana. Cyclothon sameinar stórbrotna náttúru Íslands, keppni, samkennd, þrautseigju og liðsvinnu á ótrúlegan hátt.
WOW Cyclothon er hugarfóstur tveggja ævintýramanna, Skúla Mogensen og Magnúsar Ragnarssonar, sem dreymdi um að gera eitthvað alveg einstakt og upplifa Ísland skemmtilegan og heilbrigðan hátt. Á hverju ári er gott málefni styrkt um þá upphæð sem keppendur sjálfir safna meðan á keppninni stendur.
Keppendur söfnuðu áheitum til styrktar uppbyggingu batamiðstöðvar á Kleppi í fyrra og söfnuðust yfir 21 milljón króna fyrir þetta þarfa verkefni.
Í ár hjóla keppendur WOW Cyclothon til styrktar Hjólakrafti, en samtökin hafa sent lið til þátttöku í WOW Cyclothon undanfarin tvö ár, eitt lið árið 2014 en svo fjögur lið í fyrra. Í bæði skiptin hefur Hjólakraftur sigrað áheitakeppnina og þar með lagt sitt lóð á þær vogarskálar.
Þess má geta að tíu manna lið Skógræktarinnar tekur þátt í keppninni og hefur undirbúningur gengið vel. Sögulega stund verður þegar liðið kemur í mark í Hafnarfirði því Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ætlar að hjóla endasprettinn á 100 ára gömlu hjóli sem fyrsti skógræktarstjórinn, Agnar Kofoed-Hansen, ferðaðist á um allt land í embættiserindum á sínum tíma.
Þetta er bara ofsalega gaman og þjappar okkur saman
,,Þátttaka okkar í keppninni kemur til að því að nýlega er búið að samþykkja lög á Alþingi um að sameina allt skógræktarstarf ríkisins í eina stofnun og tekur formlega gildi 1. júlí. Það voru nokkrir starfsmenn innan þessarar sex stofnanna sem verða sameinaðar sem fannst upplagt að vera með hópeflisátak í aðdraganda sameiningar og ákváðu að hjóla hringinn í kringum landið. Við erum með starfsfólk innan okkar raða sem hefur afskaplega gaman að því að hreyfa sig og fékk okkur sófaliðið til að vera með. Við erum dreifð um allt landið þannig þátttakendur eru ekki búin að æfa mikið saman en flestir eru búnir að æfa sig frá því í janúar. Þetta er bara ofsalega gaman og þjappar okkur saman,“ segir Edda Oddsdóttir, starfsmaður rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá, í spjalli við DV.
Í WOW Cyclothon var hægt að skrá sig til leiks í þremur flokkum. A-flokkur 4ra mann liða, B-flokkur 10 manna liða og einstaklingsflokkur. Auk þess er sérflokkur fyrir lið Hjólakrafts sem heldur utan um yngstu keppendur WOW Cyclothon. Keppendur í WOW Cyclothon er ekki einungis að keppast við að verða fyrstir til að hjóla hringinn heldur fer fram áheitasöfnun þeirra á milli þar sem lið keppast við að safna sem flestum áheitum til styrktar góðu málefni. Skráningu í WOW Cyclothon 2016 er lokið en tæplega 1200 keppendur munu takast á við hringveginn að þessu sinni og hafa þeir aldrei verið fleiri.