Arnar Jón Agnarsson og Freyr Heiðar Guðmundsson eru með stór plön á Raufarhöfn
„Við vonumst til að verða innspýting í ferðamannabransann á Norðausturlandi hvort sem það er með fjölgun veiðimanna eða hótelinu,“ segir Arnar Jón Agnarsson, stangveiðimaður og fyrrverandi atvinnumaður í handbolta, sem hefur ásamt Frey Heiðari Guðmundssyni tekið við rekstri Hótels Norðurljósa og Deildarár á Raufarhöfn.
Arnar gerði nýverið tveggja ára samning um að spila með KR í 1. deild karla í handbolta en hann er einnig yfirþjálfari Gróttu. Í ofanálag tóku hann og Freyr við laxveiðiánni í sumar af Svisslendingnum Ralph Doppler sem hafði leigt hana í tæp 30 ár. Gerðu þeir tíu ára leigusamning en fá að reka hótelið fram á haust. Eigandinn, sveitarfélagið Norðurþing, ætlar þá að selja reksturinn og Arnar segir nánast öruggt að þeir félagar leggi fram tilboð.
„Við erum núna að byggja við veiðihúsið sem er líklega fyrsta húsið sem hefur verið byggt þarna í 20 ár. Við erum að horfa til lengri tíma og ætlum að koma ánni í þann klassa sem hún á skilið að vera í. Doppler leigði hana út einungis 30 daga á ári og hún því verið vannýtt. Við teljum hana eiga mikið inni og að hún sé lítil, falin perla sem geti gefið gríðarlega góða veiði,“ segir Arnar sem er einnig leigutaki Laxár á Ásum.
„Við fengum aftur á móti stuttan samning um hótelið. Það verður selt eftir sumarið en það er mikil gróska í ferðamannaiðnaðinum og Norðausturland er næsti áfangastaður ferðamanna. Hótel Norðurljós er eina alvöruhótelið þarna í grenndinni en það er nánast öruggt að við munum leggja fram tilboð. Það er gott að vera á Raufarhöfn.“