fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Fókus

„Þá skýt ég þig í hausinn“

Vill vera öðrum víti til varnaðar- Segir mikilvægt að þekkja persónueinkenni ofbeldismanna

Auður Ösp
Laugardaginn 11. júní 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þú ert hóra, allir vöruðu mig við þér“, „Ef þú ferð í annan strák, þá skýt ég þig í hausinn“ og „Ég get ekki horft framan í þig, þú ert svo ógeðsleg.“ Þetta eru dæmi um athugasemdir sem Embla Rún Jóhannesdóttir kveðst hafa fengið að heyra meðan á sambandi hennar og fyrrverandi kærasta hennar stóð. Segist hún á þeim tíma hafa orðið að eign mannsins; hann hafi stýrt henni á allan hátt og verið drifinn áfram af sjúklegri afbrýðisemi. Steininn hafi tekið úr þegar hann beitti hana líkamlegu ofbeldi en sökum þess að áverkavottorð er ekki til staðar getur Embla ekki lagt fram kæru í málinu. Í samtali við DV segist hún vonast til þess að frásögn hennar muni vekja fólk til umhugsunar um birtingarmyndir ofbeldis í samböndum, enda sé um sé að ræða gífurlega falið þjóðfélagsmein þar sem gerendurnir eru oftar en ekki úlfar í sauðargæru.

„Kom vel fyrir í fyrstu“

Embla er 21 árs og móðir þriggja ára gamals drengs. Eftir að sonur hennar kom í heiminn vildi hún tryggja þeim mæðginum örugga framtíð. „Þegar hann fæddist ákvað ég að gera allt sem ég gæti til að veita honum gott líf, og ég vildi líka vinna úr fortíðinni. Þannig að ég fór í endurhæfingu, ég byrjaði að fara á Hvíta bandið og fór svo í skóla sem heitir Hringsjá,“ segir hún.

Umræddum manni kynntist hún í gegnum Facebook. Hún segir hann hafa komið vel fyrir við fyrstu sýn: hann hafi verið duglegur í vinnu, og mikill „reddari“, góður við sína nánustu og ávallt til í að rétta fólki hjálparhönd. Þá hafi hann verið góður við son hennar. Hún hafi þó komist að því síðar meir að hann var á reynslulausn og að hann hefði setið inni vegna ofbeldisbrots.

„Það var allt fullkomið, eins og í ævintýri. Ég hélt barasta að ég væri búin að finna manninn sem ég ætlaði að eyða lífi mínu með.“

Mæðgin á góðri stundu.
Mæðgin á góðri stundu.

Hún segir að maðurinn hafi orðið ólmur í að skrá sig og hana í opinbert samband á Facebook og þrýst á hana þar til hún gaf eftir. Segir hún að um leið hafi hún orðið að „eign“ hans. Þannig hafi hún oft á dag fengið spurninguna: „Hver á þig?“ Hún segir að í fyrstu hafi hún eingöngu litið á hegðun mannsins sem „krúttlega“ afbrýðisemi, en hlutirnir hafi síðan farið að taka á sig sífellt ýktari mynd.

„Um leið og við skráðum okkur í samband opinberlega, þá sá ég hættumerkin. Þegar ég horfi til baka þá voru þau þarna allan tímann. Ég var bara svo heilaþvegin.“

„Líf mitt snerist um að halda honum góðum“

Hún segir hegðun mannsins hafa breyst verulega eftir að þau gerðu samband sitt opinbert á samfélagsmiðlinum, og hafi hann þá sýnt á sér aðra og dekkri hlið. Hegðun hans hafi fyrst og fremst lýst sér í gífurlegri afbrýðisemi og stjórnsemi.

„Oft á dag fékk ég spurninguna „hver á þig?“

„Ef við fórum út að borða og ég leit upp frá matardisknum þá fór allt í háaloft þegar við komum út í bíl af því að samkvæmt honum þá átti ég bara að horfa niður. Eitt skiptið fórum við í Elko og hittum vinkonu mína og kærastann hennar. Ég og vinkona mín gengum í burtu og leituðum að ljósi. Það endaði í þvílíku bulli þegar við komum út í bíl; ég átti að hafa verið að stinga hann af og sýna honum óvirðingu.“

Hún segir manninn jafnframt hafa fylgst grannt með Facebook-notkun hennar, hann hafi hangið þar inni á öllum stundum, og vitað meira en hún sjálf hvað var að gerast inni á hennar persónulegu síðu. Segir hún manninn meðal annars hafa látið aðra karlmenn heyra það ef þeir sendu henni þar skilaboð og hafi hún í kjölfarið eytt öllum karlkyns vinum sínum af vinalistanum á síðunni. „Sem mér fannst ekkert mál, enda ætlaði ég að eyða lífi mínu með honum.“

Þá segir hún manninn hafa sett henni reglur sem hún átti að framfylgja. Hún hafi til að mynda aðeins mátt vera á Facebook í símanum. Eins hafi hann sett henni þá reglu að taka skjáskot af öllum þeim skilaboðum sem hún fékk og senda honum síðan, þar á meðal skilaboð frá barnsföður hennar. Þá hafi hún ekki mátt senda barnsföður sínum broskallamerki, því það væri merki um að hún væri að reyna við hann. Þá segir hún manninn hafa bannað henni að birta sjálfsmyndir á Facebook, og að það eina sem hafi verið á Facebook-síðu hennar hafi verið kærastinn og svo myndir af drengnum hennar.

„Ég vil taka það fram að ég braut aldrei á trausti hans, ekki einu sinni, og ég bað hann aldrei um að fá skoða neitt hjá honum. Ég bara treysti því að hann væri heiðarlegur.“

Hún segir að ekki hafi komið annað til greina en að hlýða þessum boðum og bönnum. „Líf mitt snerist um það að halda honum góðum. Ég þorði ekki öðru,“ heldur hún áfram. Hún segir að hegðun mannsins á almannafæri hafi verið allt önnur en innan veggja heimilisins. Í kringum annað fólk hafi hann sýnt henni eintóma ást og blíðu.

„Ég get ekki horft framan í þig, þú ert svo ógeðsleg“

Hún segir andlegt ofbeldi af hálfu mannsins bráðlega hafa tekið á sig fleiri myndir. „Hann kastaði hlutum, hann hrinti mér í jörðina og hristi mig. Þetta var bara orðið eðlilegur hlutur í mínum augum. Ég þurfti líka samþykki frá honum til að fá að gera hluti. Ég mátti til dæmis ekki vera nema í fimmtán mínútur í útskriftarveislu hjá vinkonu minni. Þetta var komið út í það að ég mátti ekki vinna lengur því hann taldi sig þéna nægilega mikið til þess að geta séð um mig,“ segir hún og bætir við að í enda sambandsins hafi hún beðið manninn um leyfi til að elta draum sinn og keppa í módel-fitness. Hann hafi einhverra hluta vegna sagt já en séð um öll samskipti við þjálfara hennar. Hún hafi þó fljótlega hætt við að keppa. Hún vildi ekki að manninum liði óþægilega.

Hún segir manninn einnig hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi. „Hann þvingaði mig oft til kynlífs og hann naut þess. Hann reif bara nærbuxurnar mínar ef hann þurfti. Ég hef þurft að sparka honum af mér. Og þá var ég bara vanþakklát og leiðinleg í hans augum,“ bætir hún við. Þá segir hún manninn hafa ávarpað hana með niðrandi og andstyggilegum hætti. Nokkur dæmi um þær má lesa hér á opnunni.

Niðrandi athugasemdir

Dæmi um setningar sem Embla fékk að sögn að heyra frá manninum.

„Þú ert það feitasta sem ég myndi fara í.“

„Ég er það besta sem þú munt fá.“

„Þú ert ógeðsleg.“

„Þú ert hóra, allir vöruðu mig við þér.“

„Það mun enginn elska þig, ekki einu sinni foreldrar þínir gera það.“

„Þú munt bara enda með níðingi.“

„Ég get ekki horft framan í þig, þú ert svo ógeðsleg.“

„Ef þú ferð í annan strák, þá skýt ég þig í hausinn.“

Hún segir manninn margoft hafa lofað að breyta hegðun sinni en aldrei hafi neitt orðið úr þeim fögru fyrirheitum. „Ég reyndi oft að benda honum á að þetta væri alls ekki í lagi og við ættum kannski að fara og ræða við fagaðila saman. Hann lofaði alltaf öllu fögru. Hann meira að segja pantaði sér tíma hjá sálfræðingi.“

„Hvað gerði ég eiginlega?“

Embla segir manninn hafa beitt hana líkamlegu ofbeldi í eitt skipti, en það hafi markað endalok sambandsins. Þá hafi þau verið nýbúin að taka saman á ný eftir tveggja daga aðskilnað, og hafi maðurinn farið og grannskoðað síma hennar þar sem hann taldi hana hafa verið honum ótrú dagana tvo á undan. Þegar honum hafi ekki tekist að finna neitt í símanum hafi hann reiðst enn frekar. Telur hún að eitthvað sem hún gerði eða sagði þennan umrædda dag hafi farið í skapið á manninum sem hafi brugðist við með því að slá hana. Þannig lýsir hún því:

„Ég fraus bara og ætlaði að drífa mig út, en þá dregur hann mig inn. Klárar það sem hann átti eftir að klára. Hrækir framan í mig og dreifir blóðinu mínu og hrákanum sínum yfir andlitið á mér. Hendir mér svo inn á bað og skipar mér að þrífa á mér hárið og andlitið.“

„Ég lofaði sjálfri mér því að ég myndi ekki ala barnið mitt upp við svona aðstæður.“

Hún segist því næst hafa þurft að múta manninum til að komast úr úr íbúðinni. „Ég gaf honum tvo valkosti: annaðhvort myndi hann hleypa mér út eða ég myndi öskra þangað til nágranni eða einhver annar hringdi á lögregluna,“ segir hún. Telur hún að sú hótun hennar hafi alið á hræðslu hjá manninum þar sem hann var við það að losna af reynslulausn, og hafi hann því hleypt henni út að lokum. Hún segir að hann hafi þó ekki séð neitt athugavert við hegðun sína, og þegar hún hafi tjáð honum að hún myndi aldrei koma nálægt honum aftur hafi hann ansað: „Hvað gerði ég eiginlega?“

Hundrað prósent alvara

„Ég lofaði sjálfri mér því að ég myndi ekki ala barnið mitt upp við svona aðstæður. Ég fór ekki af að því ég vildi það, heldur af því að ég þurfti þess,“ segir Embla því næst og bætir við að fyrsti mánuðurinn eftir að hún sleit sambandinu við manninn hafi verið „hræðilegur“. „Þetta var eins og að læra að ganga upp á nýtt. Ég var bara ein taugahrúga, alltaf að vona að hann myndi breytast.“

Hún segir manninn áfram hafa reynt að hafa samband við hana, og að hann hafi sífellt komið upp með nýjar og nýjar ástæður. „Hann kom til dæmis heim til mín, eingöngu til þess að segja mér hvað ég væri ógeðsleg. Hann fór ekki fyrr en ég var gjörsamlega niðurbrotin.“

Hún segir manninn enn fremur hafa þrýst á hana eftir að hún tók þá ákvörðun að opna sig um samband þeirra við fólk. Hann hafi þá spurt hana hvort það væri nauðsynlegt.

„Ég sagði honum að við vissum bæði að það væru mun fleiri hlutir sem hann gerði, hlutir sem eru ekki nethæfir, og hann játaði því. Svo lét ég hann vita af því að ef hann reyndi aftur að hafa samband þá myndi ég uppljóstra öllu og fleiru til lögreglu,“ segir hún en hún kveðst vera orðin vongóð um að þurfa ekki að eiga í frekari samskiptum við manninn.

„Ég hef fengið frið og ég veit að ég mun fá frið þar sem að hann veit núna að mér er hundrað prósent alvara með því sem ég er að gera.“

Ekki hægt að leggja fram kæru

„Það var ótrúlega erfitt að ganga í gegnum allar þessar tilfinningar því maður er svo fljótur að gleyma því slæma hjá fólki sem maður elskar. Ég gekk um öll gólf skjálfandi úr hræðslu og hélt áfram að lifa eftir hans reglum og ég geri það ennþá smávegis í dag,“ segir Embla. Hún kveðst vera heppin að eiga góða að: hennar nánustu hafi náð að hindra hana í að leita til mannsins á ný. „Ég fékk líka ráðgjafa í skólanum sem er yndislegur. Hún hjálpaði mér að öðlast skilning á þessu öllu saman og hegðun ofbeldismanna og þá small þetta allt saman.“

Andlegt ofbeldi oft lúmskt

Á heimasíðu Kvennaathvarfsins kemur meðal annars fram:

Andlegt ofbeldi karla gagnvart konum verður þegar sjálfsmynd konunnar fer að brotna niður og maður nýtir sér það sem stjórntæki. Stjórnunin felst þá í því að maðurinn hefur meiri áhrif á líðan, hegðun og skoðanir konunnar en hún sjálf. Margar konur sem koma í Kvennaathvarfið búa við andlegt ofbeldi til jafns við líkamlegt og kynferðislegt en þó að sár utan á líkamanum grói fljótt gróa ósýnileg ör andlegs ofbeldis seint. Fleiri konur leita stuðnings hjá Kvennaathvarfinu vegna andlegs ofbeldis en líkamlegs og er það til marks um hversu alvarlegt það getur verið.

Andlegt ofbeldi getur verið mjög lúmskt og ferlið tekið mörg ár án þess að nokkurn tímann séu lagðar hendur á konuna. Án þess að fólk átti sig á því getur ofbeldið verið orðið mjög gróft en viðmiðin hafa færst til og það sem eru óeðlileg samskipti þykja hversdagsleg. Samskipti geta byrjað með ástúð og hlýju og til dæmis afbrýðisemi þótt vottur um ást og umhyggju. Þegar kona er farin að breyta hegðan sinni og lífi sínu þannig að maðurinn þurfi ekki að hafa ástæðu til afbrýðisemi, til dæmis að forðast að tala við aðra karlmenn, er maðurinn farinn að stjórna konunni og ástandið orðið óeðlilegt. Sömuleiðis ef konunni er sagt hvað hún eigi að segja og hugsa, í hverju hún eigi að vera og svo framvegis.Andlegt ofbeldi karla gegn konum getur birst með mörgum hætti og má þar nefna einangrun, efnahagslega stjórnun, hótanir og ógnanir og tilfinningalega kúgun.

Rúmlega 90 prósent þeirra kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfsins á seinasta ári nefndu andlegt ofbeldi meðal ástæðna dvalar.

Embla kveðst hafa tekið þá ákvörðun á dögunum að leggja fram kæru á hendur manninum fyrir heimilisofbeldi. „Ég áttaði mig á því að ég væri að „kóa“ með ofbeldismanni og það mun ég aldrei gera,“ segir hún. Ekkert varð þó úr þessum áætlunum Emblu en hún kveðst hafa fengið þau svör hjá lögreglu að ekki væri hægt að leggja fram kæru í málinu þar sem ekkert áverkavottorð er til staðar.

Meðvirknin enn til staðar

Hvernig er staðan á þér í dag?

„Ég er á góðu róli, ég er þakklát fyrir að vera komin frá þessu. Eins og vinur minn sagði þá er frelsið það mikilvægasta sem við höfum í þessu lífi. Ég er búin að koma frá mér því sem ég þurfti og ég ætla mér ekki að dvelja við þetta.

Þetta fékk mig til að hugsa um sjálfa mig og strákinn minn og mín markmið. Það er líka gott að geta hitt vinkonurnar og fengið að vera ég sjálf. En auðvitað er þetta erfitt og meðvirknin í hans garð er ennþá mikil.“

Af hverju langar þig að koma fram með þessa frásögn?

„Aðalástæðan er reiðin í minn garð, fyrir að hafa ekki farið á spítala og fengið áverkavottorð. Ég var svo reið að geta ekki kært hann, vegna þess að þá hefði ég hugsanlega getað varað aðrar stelpur við svo þær þyrftu ekki að lenda í því sama og ég.“

Aðspurð um hverju hún vilji helst koma á framfæri segist Embla hvetja einstaklinga til að vera meðvitaðir og lesa sér til um helstu persónueinkenni ofbeldismanna og -kvenna, enda geti meðvirknin verið ótrúlega blindandi afl. „Leitið aðstoðar, til dæmis í Kvennaathvarfinu og fáið ráðgjafa þar. Hlúið að sjálfum ykkur, því enginn á skilið að lifa í svona ótta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Áslaug Arna skar sig úr í 28 þúsund króna peysu

Áslaug Arna skar sig úr í 28 þúsund króna peysu
Fókus
Í gær

Magnús Hlynur miður sín þegar hann kom inn á N1 á Ártúnshöfða í morgun

Magnús Hlynur miður sín þegar hann kom inn á N1 á Ártúnshöfða í morgun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur í áfalli yfir þyngdartapi söngkonunnar

Aðdáendur í áfalli yfir þyngdartapi söngkonunnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Pabbi alræmdu hjákonunnar missti vinnuna – „Gerði hún HVAÐ á meðan hann svaf?!“

Pabbi alræmdu hjákonunnar missti vinnuna – „Gerði hún HVAÐ á meðan hann svaf?!“