fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

Hef aldrei sóst eftir neinu

Ástríður Thorarensen í viðtali

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 10. júní 2016 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástríður Thorarensen stendur við hlið manns síns Davíðs Oddssonar í kosningabaráttu hans til embættis forseta Íslands. Í viðtali ræðir hún meðal annars um árin með Davíð, forsetaframboðið, pólitík, hatursumræðu og gildin í lífinu.

Ástríður segir að fram að þessu hafi hún ekki getað tekið fullan þátt í baráttunni vegna veikinda móður Davíðs, Ingibjargar Kristínar Lúðvíksdóttur, sem veiktist skyndilega og lést 2. júní síðastliðinn.

„Ég hafði verið með Davíð á fundum á Akureyri, Ólafsfirði og Sauðárkróki. Mér fannst mjög gaman að fá tækifæri til að hitta allt þetta fólk og hlusta á spurningar og svör, allt var það mjög elskulegt. Þegar við komum í bæinn úr þessari norðurferð þá var móðir Davíðs orðin mjög veik,“ segir Ástríður. „Við, nánasta fjölskylda hennar, skiptumst á að vera hjá henni í legu hennar, en hún fékk hægt andlát 2. júní. Hún hafði búið í eitt og hálft ár á Sóltúni við mjög góðan aðbúnað og okkur þótti mjög vænt um að geta verið hjá henni þessa seinustu daga.

Davíð frestaði fundum til að geta verið hjá móður sinni, þau voru svo náin að hann gat ekki hugsað sér annað en að vera við sjúkrabeð hennar. Eftir útför hennar vonast ég til að fara með honum í þær ferðir sem fyrirhugaður eru og mun taka þátt í kosningabaráttunni með honum.“

Hvernig kona var tengdamóðir þín?

„Hún var yndisleg manneskja, glaðlynd og lífsglöð. Hún hafði sérstakan hæfileika til að umgangast fólk, tók öllum opnum örmum og var afar hlý. Ég var sautján ára þegar ég kynntist henni og okkar samband var eins og milli móður og dóttur. Hún var dugmikil einstæð móðir með tvo drengi, Björn og Davíð, og lagði mikið á sig til að geta séð fyrir þeim. Þessi litla fjölskylda var mjög samstiga. Drengirnir byrjuðu báðir mjög snemma að vinna. Davíð tók til dæmis sem krakki alla þá aukavinnu sem hann gat, bar út blöð, var sendill í nýlenduvöruverslun og sætavísir á kvöldin í Austurbæjarbíói og sá þá myndir sem voru bannaðar börnum á hans aldri. Hann vann alla tíð feikilega mikið.“

Þú kemur úr allt annars konar umhverfi, er það ekki?

„Ég kem frá rólegu borgaralegu heimili á Þórsgötunni þar sem ég og bróðir minn, sem er fjórum árum yngri, ólumst upp hjá foreldrum okkar. Í sama húsi bjuggu amma mín og ömmusystir. Amma mín var mjög kirkjurækin og ég fór með henni í messur. Stundum finnst mér eins og ég hafi alist upp í gömlu Hallgrímskirkju.“

Ertu trúuð?

„Ég sæki mikinn styrk í trú mína og hef alltaf gert. Þegar eitthvað hefur verulega bjátað á, eins og fyrir tólf árum þegar Davíð greindist með krabbamein og mjög tvísýnt var hvernig færi þá fann ég feikilega vel hvað bænin og trúin hjálpa mikið. Ég bað fyrir honum og það gerðu margir aðrir. Ég er sannfærð um að það hafði áhrif.“

Gefandi starf

Þú ert lærður hjúkrunarfræðingur og varst lengi í því starfi og á tíma þegar Davíð var orðinn valdamikill stjórnmálamaður. Segðu mér aðeins frá starfsferlinum í hjúkruninni.

„Ég var átján ára þegar við Davíð giftum okkur og átti eftir einn vetur í menntaskóla. Þorsteinn, sonur okkar, fæddist haustið sem ég útskrifaðist sem stúdent og ég var fyrstu tvö árin heima með hann. Davíð var þá nýbyrjaður í lögfræði og vann alltaf með námi, var leikhúsritari í Iðnó og með útvarpsþætti. Að þessum tveimur árum liðnum fór ég að vinna sem læknaritari við Landspítalann og vann þar í nokkur ár. Ég hafði verið svo lánsöm að allir í kringum mig voru frískir en þarna sá ég hvernig það er fyrir fólk að liggja veikt á sjúkrahúsi. Mér fannst að ég gæti lagt eitthvað af mörkum til góðs og fór að læra hjúkrun. Þá var Davíð kominn í borgarpólitíkina og þegar hann tók við starfi borgarstjóra var ég enn í námi en eftir nám fór ég að vinna sem hjúkrunarfræðingur. Ég vildi halda mínu striki og vinna við það sem ég hafði menntað mig í og hafði svo óskaplega mikla ánægju af.

Um það leyti sem Davíð var að söðla yfir í landsmálin sagði ég upp störfum á taugadeild Landspítalans. Hugmynd mín var að skipta um deild, prófa að vinna til dæmis á hjartadeild og handlækningadeild og bæta við þekkingu mína. Þá fór Davíð í landsmálin, það voru kosningar og hann tók við nýju og vandasömu starfi forsætisráðherra. Breytingar höfðu verið að eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu um þær mundir og miklar uppsagnir voru í heilbrigðisgeiranum. Ég hugsaði með mér að þetta væri ekki rétti tíminn til að komast inn í nýtt starf. Tíminn leið og ég velti því fyrir mér hvort svo færi að ég myndi ekki nýta mér menntun mína til fulls. Ég gat ekki hugsað mér það og fór á öll þau námskeið og viðbótarnám í hjúkrun sem ég mögulega gat í þeirri von að komast aftur til starfa. Hjúkrunarstarfið fannst mér svo gefandi, mér fannst dásamlegt að vinna þessa vinnu og gerði mér vonir um að mitt starf þar gæti skipt máli. En Davíð var í þannig starfi að ég varð að fara með honum í ferðir og taka á móti gestum. Auðvitað hefði ég getað sagt: Ég fer ekki í utanlandsferðir og ekki í móttökur, en ég gerði það ekki því ég hef alltaf litið á okkur hjónin sem eina heild.

Það að vera í vinnu og taka stöðugt frí vegna ferðalaga, eins og ég hefði þurft að gera, gerir manni ekki að vinsælum starfskrafti og er ekki mjög gaman fyrir þá sem vinna með manni og skapar líka aukið álag á vinnustað. Allt þetta varð til þess að ég fór aldrei aftur í hjúkrunarstarfið.“

Sérðu eftir því að hafa ekki gert það?

„Ég hafði algjörlega sjálfstætt val. Þetta var mitt val og ég tel að ég hafi valið rétt.“

Leiðist ekki í hjónabandinu

Þú ert búin að vera í góðu hjónabandi í rúm fjörtíu ár. Hefur einhvern tíma komið þreyta í sambandið?

„Nei, það hefur ekki gert það. Ég á svo óskaplega skemmtilegan mann að mér leiðist ekki í hjónabandinu. Við höfum verið svo gæfusöm að vera sátt og ánægð með hvort annað. Það hefur aldrei verið barátta á milli okkar, við höfum alltaf verið samstiga. Ég hef séð um ákveðna hluti sem hann hefur ekkert vit á og hann hefur séð um það sem ég hef ekki hundsvit á.“

Hefurðu alltaf verið sammála honum í pólitík og hefurðu verið sammála öllum helstu ákvörðunum hans?

„Já, ég tel mig geta sagt að svo sé. Ég fylgist með þjóðmálum og kynni mér þau vel en hef lagt mig fram við það að hafa pólitískt argaþras ekki hér inni á heimilinu. Meðan Davíð var í sínum ráðherraembættum þá var það ekki þannig þegar hann kom heim að ég yfirheyrði hann yfir kvöldmatnum um hin ýmsu mál sem hann var að sinna. Eitt af því sem á kannski þátt í því að gera hjónabandið svona gott er að heimilið er ekki pólitískur fundarstaður. Þar þarf Davíð ekki að sitja fyrir svörum.“

Hann hlífir ekki andstæðingum sínum, er óvæginn við þá og þeir hlífa honum ekki og eru óvægnir við hann. Hvernig tekurðu harðri og stundum ómálefnalegri gagnrýni á hann?

„Þú segir að hann sé óvæginn og andstæðingar hans sömuleiðis. Ég myndi setja spurningarmerki við það að hann sé óvæginn. Hann lýsir sínum skoðunum og stendur við þær. Ég vil ekki líkja saman þeim munnsöfnuði sem hefur verið hafður um hann eða það sem hann hefur sagt um pólitíska andstæðinga.

Í sambandi við óvægna umræðu í hans garð þá er ég þeirrar skoðunar að fólk eigi að hafa fullt málfrelsi og tjáningarfrelsi. Auðvitað undrast ég stundum það hvað aðrir láta út úr sér. Það er líka mín skoðun að það sem menn segja um aðra lýsi þeim sjálfum best. Stundum hef ég verulega vorkennt þeim sem láta út úr sér mesta óþverrann.“

Óþverra hent í húsið

Hvernig var að upplifa hruntímann, það var mótmælt fyrir utan Seðlabankann og líka fyrir utan heimili ykkar.

„Árslok 2008 og byrjun 2009 voru mjög sérstakir tímar. Manninum sem reyndi að hamla gegn þeirri yfirgengilegu vitleysu sem gekk á og reyndi að vara við var kennt um það sem miður fór. Þegar fólkið í Seðlabankanum var að reyna að bjarga því sem bjargað varð fékk það ekki nokkurn vinnufrið fyrir hávaða í mótmælendum. Þetta finnst mér mjög dapurlegt.

Það var hent óþverra í húsið okkar og formælingar krotaðar á húsveggi. Dag eftir dag og viku eftir viku var hér umsátursástand. Ég hugsaði: „Þetta skaðar mig ekki, þetta skaðar Davíð ekki, en er alvarlegt mál fyrir þá sem missa svo algjöra stjórn á sér. Ég ætla ekki að láta þessa reynslu gera mig bitra, reiða og hatursfulla heldur líta svo á að þetta sé skóli og að nú reyni á mig. Ég ætla að fyrirgefa.“ Mér tókst það og er mjög fegin því. Þegar upp er staðið var þetta reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af því hún þroskaði mig en ég myndi ekki óska neinum að standa í þessum sporum.

Hatursumræða finnst mér mjög dapurleg en á sama hátt og mér finnst að fólk hafi fullan rétt á að tjá sig og segja allt sem því dettur í hug þá hef ég líka fullan rétt á því að lesa það ekki. Maður verður líka að verja sig með því að leiða slík skrif hjá sér.“

Þið eigið einn son, Þorstein, það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir hann á einhverjum tíma að vera sonur Davíðs Oddssonar, eins mest áberandi manns á Íslandi sem hefur aldrei verið óumdeildur.

„Maður þekkir sitt heimafólk og ég sá að það var ekki alltaf auðvelt fyrir Þorstein en hann er sem betur fer vel skapi farinn og hefur aldrei kvartað.“

Líður best úti í garði

Það hefur komið fram að þú hafnaðir dagpeningum sem þú áttir rétt á þegar Davíð var ráðherra. Af hverju hafnaðirðu þeim?

„Minn skilningur á þessu dagpeningafyrirkomulagi var sá að þeir væru hugsaðir fyrir opinbera embættismenn sem þyrftu að borga hótelgistingu erlendis, mat og uppihald. Í þær ferðir sem ég fór með Davíð var þetta allt borgað. Ég sá enga ástæðu til að ég fengi þessa peninga þegar ég væri ekki að greiða fyrir neitt. Mér fannst ég ekki eiga rétt á þeim.“

Davíð segir að þú sért lítið fyrir pjatt og snobb. Mig grunar að það sé alveg hárrétt hjá honum.

„Mér finnst einfaldlega allir vera jafnir. Mér finnst líka að fólk eigi að geta komið til dyranna eins og það er klætt. Mér hefur aldrei fundist það aðlaðandi að gapa upp í fólk sem einhverjir telja yfir mannfjöldann hafið. Mér finnst leiðinlegt að verða vitni að slíku og ég vona að ég hafi aldrei komið þannig fram við fólk.

Þú nefnir pjatt. Ég er bara þannig að mér líður best úti í garði og sæki mikla orku í garðvinnu, sem er mitt líf og yndi. Á unglingsárum var ég í unglingavinnunni á sumrin og vann þá alltaf úti. Ég hef alltaf verið mikill náttúruunnandi.“

Þú hefur örsjaldan farið í viðtöl, ertu mikil prívatmanneskja?

„Ætli megi ekki segja það. Ég vil helst ekki vera þekkt persóna, innst inni vil ég bara fá að vera Ástríður í Skerjafirðinum. Ég vil helst ekki vera að tjá mig mikið opinberlega en ég hef stundum þurft að gera það því að sjálfsögðu vil ég ekki bregðast þeim skyldum sem lífið leggur á herðar mínar. Ég vil uppfylla það sem mér er trúað fyrir.“

Gaman að vera amma

Sonur þinn og kona hans eiga tvær dætur, hvernig er að vera amma?

„Það er ótrúlega gaman. Ég átti ákaflega góða ömmu og að eiga hana var það besta í heiminum. Mig langaði til að verða góð amma og svo komu þessar elskulegu stúlkur, Ástríður, sem er fjögurra ára og Dagný, sem er tveggja ára. Þær búa á Akureyri með foreldrum sínum og það er erfitt að hafa þær svo langt í burtu en ég geri mitt besta til að vera góð amma.“

Hvaða heillaráð myndir þú vilja gefa þeim sem veganesti út í lífið?

„Mínar ráðleggingar til þeirra eru: Verið heiðarlegar manneskjur, trúar sjálfum ykkur, umburðarlyndar við aðra og látið ykkur þykja vænt um fólk.“

Bessastaðir ekkert kappsmál

Þú ert í kosningabaráttu með manni þínum en samkvæmt skoðanakönnunum bendir svo sem ekkert sérstaklega til að þið hjónin farið í Bessastaði. Eru það ekki vonbrigði?

„Ég yrði ekki vonsvikin þótt við færum ekki á Bessastaði. Það sem Davíð er að gera með framboði sínu er að bjóða fólki upp á valkost. Hann er að bjóða fólki upp á reynslu sína og leggur valið í hendur kjósenda. Hann spyr: Viljið þið fá þessa reynslu og þessa persónu sem þið eigið að geta treyst? Viljið þið hafa konuna hans með? Ef þið viljið það þá er hann tilbúinn, ef þið viljið það ekki þá er það bara í góðu lagi.

Umræðan hefur ekki farið framhjá mér. Það er talað um menn sem hafa verið í valdastólum og geta ekki hugsað sér að missa völdin. Þetta er ekki þannig, langt í frá. Þetta snýst ekki um völd, þetta snýst um þjónustu. Davíð er alinn upp við þær kringumstæður sem ég lýsti fyrir þér. Hann varð að standa á eigin fótum og þurfti snemma að taka verulega mikla ábyrgð á sínu fólki. Hann tók á sig mikla ábyrgð sem borgarstjóri og síðan sem forsætisráðherra. Hann hefur mikla ábyrgðartilfinningu og þegar málin fóru að skýrast varðandi forsetaframboð þá hugsaði hann: „Ég bý yfir ákveðnum eiginleikum og reynslu og hef fulla starfsorku.“ Hann ákvað að bjóða sig fram. Ástæðan er ekki eftirsókn eftir völdum eða vegtyllum, þær eru komnar. Hann er ekki að sækjast eftir að verða forseti til að komast í hallir eða í Hvíta húsið. Hann er búinn að því. Bessastaðir eru sem slíkir ekkert kappsmál. Við erum sæl og glöð með okkar hlut.

Ég hef aldrei sóst eftir neinu og geri það heldur ekki núna. En ég myndi að sjálfsögðu vera reiðubúin að axla alla þá ábyrgð og vinna öll þau verk sem mér yrðu falin, alveg eins og ég hef alltaf reynt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þessir staðir og fyrirbrigði á Íslandi segja ferðamenn að séu ofmetin

Þessir staðir og fyrirbrigði á Íslandi segja ferðamenn að séu ofmetin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum