„Ég er rosalega stoltur af honum, það er sko ekkert hægt að neita því neitt,“ segir Hallgrímur Heimisson, sonur Heimis Hallgrímssonar, fyrrum þjálfara ÍBV í knattspyrnu og núverandi landsliðsþjálfari íslenska A-landsliðs karla í knattspyrnu sem fagnar afmæli sínu í dag. Íslenska þjóðin fylgist nú spennt með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi, en þar Heimir nú staddur ásamt „strákunum okkar.“
Í samtali við blaðamann segir Hallgrímur að eins og gefur að skilja sé mikill fótboltaáhugi á heimilinu, og ósjaldan sem boltinn verður að umræðuefni. „Ég byrjaði sjálfur í fótbolta þegar ég var þriggja ára og er núna að spila með KFS. Bróðir minn er líka búinn að vera æfa og svo hefur mamma verið að þjálfa líka þannig að þetta er allt í kringum mann.“
Í tilefni afmælisdagsins birti Hallgrímur meðfylgjandi ljósmyndir á Facebook síðu sinni en þær voru báðar teknar á afmælisdegi Heimis, með tíu ára millibili árið 2006 og 2016.
„Þennan dag fyrir 10 árum (10.júní 2006) eyddi 6.flokks þjálfarinn Heimir Hallgrímsson afmælisdeginum sínum í að undirbúa 6.flokk IBV fyrir Shell-mótið í Vestmannaeyjum. Það ár fór einmitt IBV með A,B og C liðin í úrslitaleik Shell-mótsins.
Aðeins 10 árum seinna (10.júní 2016) eyðir hann afmælisdeginum í Frakklandi þar sem hann undirbýr Íslenska karlalandsliðið fyrir fyrsta leik þeirra á stórmóti frá upphafi og verður þar með fyrsti íslenski þjálfarinn til að þjálfa á EM,“
ritar Hallgrímur og bætir við. „Innilega til hamingju með daginn elsku pabbi minn og njóttu hans úti.
Er virkilega stoltur, neita því ekki.“