Michael Jace varð eiginkonu sinni að bana árið 2014
Bandaríski leikarinn Michael Jace hefur verið sakfelldur fyrir morð á eiginkonu sinni, April Jace, árið 2014. Michael er einna best þekktur fyrir leik sinn í þáttunum The Shield á árunum 2002 til 2008 þar sem hann fór með hlutverk lögregluþjóns.
Michaels játaði að hafa skotið eiginkonu sína í fótlegginn á heimili þeirra hjóna árið 2014. Rannsókn málsins leiddi þó í laus að hann hafði skotið hana í bakið áður en hann skaut hana í fótleggina. Fyrir dómi kom fram að April hafði fyrr þennan örlagaríka dag farið fram á skilnað. Til heiftarlegra rifrilda kom í kjölfarið sem endaði með fyrrgreindum afleiðingum.
Fyrir dómi sagðist hann hafa ætlað að svipta sig lífi umræddan dag. Hann hefði skort hugrekki til þess og þess í stað skotið eiginkonu sína. „Ég var reiður. Ég ætlaði bara að skjóta hana í fótlegginn. Og ég gerði það, það var allt og sumt,“ sagði Michael við yfirheyrslu hjá lögreglu. Þrjú skotsár voru hins vegar á líki April.
Synir þeirra tveir, átta og fimm ára, urðu vitni að atvikinu. Að sögn saksóknara hafði Michael grunað April um framhjáhald – en sjálf hafði hún neitað því í smáskilaboðum sem gengu á milli hennar og Michaels skömmu áður en hún var drepin.
Michael á yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsi.
Þessi 53 ára leikari lék eitt af aðalhlutverkunum í The Shield sem sýndir voru á árunum 2002 til 2008. Þættirnir hlutu mikið lof gagnrýnenda. Eftir að þættirnir runnu sitt skeið lék Michael minni hlutverk í ýmsum þáttum, til dæmis CSI, Rizzoli & Isles, Private Practice, Nikita og Southland.