Vill leiða saman hópa og vinna að stórum hugmyndum – Mikilvægt að líma saman sveit og borg
„Það væri áhugavert ef einhver rannsakaði hvaða leiðtoga Íslendingar erlendis myndu kjósa fyrir Íslendinga. Þeir sjá Ísland öðrum augum. Fólk losnar undan flokksálögum og byrjar að hugsa öðruvísi þegar það dvelur ytra.“
Hér um bil svona byrjar símtal Ragnheiðar Eiríksdóttur, blaðakonu DV, við Andra Snæ Magnason, rithöfund og forsetaframbjóðanda. Hann er staddur í Kaupmannahöfn og átti fund með Íslendingum á Laundromat café á miðvikudagskvöldið. Með í för eru Grímur Atlason, Elín Ey tónlistarkona og Margrét Sjöfn Torp, eiginkona frambjóðandans.
Hvernig sérðu fyrir þér að gegna embætti forseta Íslands, verður þú meira eins og Ólafur Ragnar eða Vigdís?
„Mig langar til að hafa áhrif á langtímahugsun og stærri hugmyndir. Ég tel óæskilegt að trufla störf Alþingis, við verðum að treysta Alþingi og þar starfa þjóðkjörnir fulltrúar okkar. Ég myndi vilja leiða saman hópa og vinna að stærri myndinni, rammanum sem við störfum innan. Forseti Íslands er í raun eini þjóðkjörni einstaklingur stjórnkerfisins og getur starfað þvert á flokka og mörk – eins og kjördæmi og hreppamörk.
Til að mynda er mjög mikilvægt að líma saman sveit og borg. Ég hef komið nálægt nýsköpunarverkefnum í sveitum og þekki þar marga sem eru að gera mjög spennandi hluti.
Eitt af því sem er mér hugleikið er að Ísland er sjö sinnum stærra haf en land. Landhelgin okkar er sjö sinnum stærri en fasta landið, okkur hættir til að hugsa ekki um það, sjáum bara skvampandi öldur allt í kringum okkur. Við veiðum 1% af öllum fiski í heiminum – en langstærstur hluti íslenskra barna elst upp í Grafarvogi og Breiðholti í litlum tengslum við hafið. Grunnurinn að því að við getum unnið sem mest verðmæti úr fiskinum og staðið okkur í rannsóknum er að börn og unglingar fái áhuga fyrir hafinu og lífríki sjávarins. Þess vegna þurfum við að tengja saman menntakerfi og rótgrónar atvinnugreinar. Við þurfum að tengja 105 og sveitina, Breiðholt og sjóinn. Það myndi styrkja okkur mikið að brjóta niður þessi landamæri. Systir mín er heilaskurðlæknir og var ekkert að krukka í heilann á okkur bræðrum þegar við vorum lítil. Hún hafði enga reynslu af því að vesenast í heilum þegar hún hóf nám í greininni. Við erum oft læst í hugsun varðandi menntun og atvinnugreinar, og það er áhugavert að hræra upp í henni á jákvæðan hátt. Skilgreiningar eru of þröngar og hver stétt of gjörn á að hlaupa í vörn.“