Guðmundur Hermann Gunnarsson glímdi árum saman við mikla vanlíðan og sökk djúpt ofan í svartnættið. Guðmundur, eða Mummi eins og hann er gjarnan kallaður gafst að lokum upp og reyndi að svipta sig lífi. Hann er aðeins 23 ára og deildi reynslu sinni í fréttatíma RÚV. Hann telur mikilvægt að opna umræðu um sjálfsvíg. Þá segir hann að það sé alltaf von.
„Það er hægt að ná bata.“
Eftir að hafa glímt við þunglyndi um árabil og ekki fengið aðstoð reyndi Guðmundur að fremja sjálfsmorð. Það var í apríl á síðasta ári.
Hann segir:
„Mestu erfiðleikarnir sem komu fram voru að ég var rosalega mikið að drekka og ég á í mjög miklum vandamálum með það. Það dregur að sér neikvæða hugsun og mikið verið að dæma sjálfan sig, svo blandaðist áfengi og töflur saman.“
Eftir misheppnaða sjálfsmorðtilraun var Guðmundur innritaður á Vog. Það var þá sem hann heyrði af Hugarafli og hefur hann sótt styrk þangað reglulega. Þar fékk lífið aftur tilgang. Telur hann það hjálpa öðrum að deila reynslu sinni og hægt sé að ná bata. Vonin sé alltaf til staðar.
„Ég tala við fólk með mismunandi reynslu og deili minni reynslu til að hjálpa öðrum,“ segir Mummi og bætir við brosandi þegar hann er spurður um líðan sína í dag og hvort hann hefði trúað að hann kæmist á þennan stað: „Ég gæti mér ekki ímyndað mér…Fyrir ári ef það hefði verið sagt eitthvað svona við mig þá væri ekki séns að ég myndi trúa því.“