Sundstaðir á Íslandi eru hátt í 200 talsins, af öllum stærðum og gerðum. Það er því óhætt að segja að Ísland sé sannkölluð sundlaugaparadís. DV hefur áður fjallað um bestu sundlaugar landsins. Í dag fjallar Nútíminn um uppáhaldslaugar fjölskyldufólks og ræddi við mæður í hópnum Mæðratips á Facebook.
Í umfjöllun um sundlaugarnar sem þykja bestar fyrir fjölskyldufólk segir á Nútímanum:
Lágafellslaug í Mosfellsbæ
Hrein og snyrtileg aðstaða. Hlýjar laugar og auðvelt að hafa yfirsýn og fylgjast með börnunum. Korkflísar eru kærkomnar fyrir hlaupandi fætur. Mjög góður kostur fyrir börn á aldrinum 2-5 ára. Buslpottur með rennibraut, plús þrjár rennibrautir fyrir eldri krakkana. Þægilega heit fyrir foreldrana líka.
Ásvallalaug í Hafnarfirði
Frábært svæði og fjölbreytt. Góð innilaug fyrir litlu börnin og auðvelt að hafa yfirsýn. En afar slæmar sturtur (miklar og óvæntar hitabreytingar), þröngir klefar þegar mikið er að gera og kalt þar. Fáir stólar og skiptiaðstaðan léleg og á fáránlegum stað. Botninn á vaðlauginni er líka fjandsamlegur fullorðinsbossum – ekki mælt með því að vera að renna sér mikið til á honum.
Álftaneslaug
Allt til alls nema það vantar balana fyrir þau minnstu. Öldulaugin æðisleg fyrir stóru krakkana. Frábært starfsfólk, góðir klefar – breiðir bekkir og skápar. Hrein og fín laug.
Selfosslaug
Mjög skemmtilegt svæði og hæfilega djúp laug sem hentar fyrir börn á öllum aldri. Foreldrunum verður heldur ekki kalt þar. Góð aðstaða í klefum og skemmtilegar rennibrautir fyrir þau yngstu.
Sundlaugin í Vestmannaeyjum
Æðisleg laug með frábærri aðstöðu fyrir allan aldur, nóg af rennibrautum og leiktækjum. Sturtuaðstaða til fyrirmyndar.
Á Nútímanum má svo sjá umfjallanir um fleiri sundlaugar sem hafa slegið í gegn hjá fjölskyldufólki