Ásett verð er 74,9 milljónir króna – Húsið er 270 fermetrar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hafa sett hús sitt í Ystaseli í Seljahverfinu á sölu. Eignin var skráð á fasteignavef Mbl.is í gær og er ásett verð 74,9 milljónir króna.
Sigmundur og Anna Sigurlaug eru flutt úr húsinu, en eins og greint var frá í desember keyptu hjónin 325 fermetra glæsihús við Skrúðás í Garðabæ.
Anna Sigurlaug er skráð fyrir eigninni í Ystaselinu samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Þau keyptu húsið á haustmánuðum 2011, um einu og hálfu ári áður en Sigmundur varð forsætisráðherra.
Húsið í Ystaselinu er á góðum stað neðst í Seljahverfinu, skammt frá íþróttasvæði ÍR og Ölduselsskóla. Húsið var byggt árið 1979 og er 270 fermetrar. Í sölulýsingu Fasteignakaupa, sem sjá um söluna, kemur fram að 4-5 svefnherbergi sú í húsinu. Stofa, borðstofa og eldhús myndi eina heild þar sem veggur skilur að eldhús og stofu að hluta.
„Gegnheilt parket er á gólfum. Eldhúsinnrétting er hvít sprautulökkuð með granít á borðum og mjög miklu skápaplássi. Vegleg eldhústæki úr stáli. Innfelld loftlýsing í eldhúsi. Lokað eldstæði í stofu. Útgengt úr stofu á svalir sem snúa í norðaustur.“
Þá fylgir tvöfaldur bílskúr með eigninni og stór, viðhaldslítill garður með skjólgóðri verönd sem snýr í suðvestur.