„Til hvers að fara og meiða lítil, saklaus börn?“
„Á meðan stelpur á mínum aldri voru að leika sér í dóti og barbí þá var ég blaðrandi um typpi og píkur. Ég vissi allt um þetta; ég var biðja stráka að kyssa mig og þeir voru bara: „hvað er að þér?“ segir Margrét Rún Styrmisdóttir en svona lýsir hún þeirri brenglun sem varð á þroska hennar eftir en hún segist hafa orðið fyrir misnotkun, 9 og 10 ára gömul. Gerandinn hafi verið maður á fertugsaldri en að seinna hafi átt eftir að koma í ljós að fórnarlömb hans voru fleiri.
Í viðtali sem birtist á Hringbraut segir Margrét að maðurinn hafi á sínum tíma komið til Vestmannaeyja þar sem hún bjó og var hann kunningi annars manns sem hún þekkti. Maðurinn var á fertugsaldri og hún var 9 ára. Hún kveðst hafa verið auðveld bráð fyrir manninn sem hafi náð til hennar í gegnum sameiginlegan áhuga þeirra á hestum. Hann hafi til að mynda lofað henni að gefa henni folald.
Hún segir misnotkun mannsins hafa lýst sér þannig í byrjun að hann fór að snerta hana „óvart“ á alls kyns óviðeigandi hátt. Einn morgun atvikaðist það þannig að hún var gestur í íbúðinni þar sem maðurinn gisti. Húsráðendurnir fóru út í bakarí: „Síðast þegar ég vissi var höndin hans allt í einu komin hjá mínum kynfærum.“
„Þegar ég hugsa núna þá finnst mér eins og ég hafi verið fyrir ofan með myndavél að horfa á þetta. Eins og heilinn á mér hafi blokkað þetta út,“ segir hún og bætir við í minningunni sé eins og atvikið hafi átt sér stað á „milljón klukkutímum“ þó svo að í raun hafi ekki verið nema um korter, í mesta lagi 20 mínútur að ræða. Hún segir manninn í kjölfarið hafa hótað að hann dræpi hundinn hennar ef hann segði frá. „Mér datt ekki í hug að einhver myndi vilja meiða börn. Og ég skil það ekki ennþá, til hvers að fara og meiða lítil, saklaus börn?
Hún segir að misnotkun mannsins hafi haldið áfram eftir þetta en bætir við að síðar hafi átt eftir að koma í ljós að Margrét var ekki eina fórnarlamb hans. Það hafi hún frétt þegar foreldrar hennar settust niður með henni en þá höfðu þau fengið símtal frá móður vinkonu hennar. Hún hafi greint frá því að maðurinn hafði einnig misnotað vinkonu Margrétar, ásamt fleiri stúlkum. Sjálf vildi hún ekki trúa því, enda leit hún á manninn sem besta vin sinn. Hún segist engu að síður hafa neitað á þessum tíma, þegar foreldrar hennar spurðu hvort maðurinn hefði misnotað hana. „Þau spyrja og spyrja og voru mikið að ýta á: „Gerði hann ekkert?“ Ég sagði bara: „Nei, af hverju ætti hann að gera það?“
Hún bætir því við að rúmt ári hafi liðið þar til hún hafi sagt frá því sem hafði farið fram á milli hennar og mannsins. Hann hlaut ekki dóm fyrir að hafa brotið gegn henni; kæran var felld niður en meðal annars var litið til þess að Margrét nefndi ekki réttan mánuð þegar hún var spurð hvenær brot mannsins hefði átt sér stað.
Hún segir mikilvægt að foreldrar þrýsti ekki of mikið á börnin sín um að tala þegar kemur að þessum viðkvæmu málum og nefnir einnig að gæludýr geti gert mikið þegar kemur að því að fá börn til að opna sig. Sjálf á hún hundinn Tönju sem reyndist vera hennar stoð og stytta í gegnum allt saman.
„Ég hefði ekki getað þetta án hundsins míns. Ég get ennþá í dag talað við hana um það hvernig mér líður. Ég veit að hún er ekki að fara að svara, en bara það að hafa einhvern til að knúsa þegar þér líður illa, það er mikilvægt.“