Gríðarlega mikilvægt að styðja við bakið á nýbökuðum foreldrum
„Þann 11. desember 2014 fæddist Kári Rafn sex vikum fyrir tímann eftir mjög erfiða meðgöngu.“ Þetta segir móðir hans Dúna Lind Káradóttir í opinskárri bloggfærslu þar sem hún tjáir sig um alvarlegt fæðingarþunglyndi sem hún fékk eftir að Kári Rafn fæddist.
Strax eftir fæðinguna upplifði hún sterkar tilfinningar sem hún taldi tengjast svokölluðum sængurkvennagráti. Kári Rafn var í 12 daga á vökudeild og Dúna segir að hún hafi grátið meira og minna allan þann tíma. Þann 23. desember fékk hún að fara með drenginn heim. Strax á nýju ári kom svo ljósmóðir og heimsótti mæðginin.
„Ég ákvað að segja henni strax frá því hversu illa mér leið. Þar sem ég þekki það vel að vera með þunglyndi þá vissi ég hvað væri að gerast og vildi hjálp.“
Stuttu síðar fékk Dúna, sem var þá tvítug, tíma hjá félagsrágjafa á heilsugæslustöðinni. Fyrsti tíminn gekk vel og hún hélt að þetta myndi hjálpa. Þegar Dúna mætti svo í annað skipti mundi félagsráðgjafinn ekkert eftir henni svo hún þurfti að endurtaka allt sem hún sagði í fyrri tímanum.
„Ég hætti samt ekki við að leita sér hjálpar. Ég byrjaði á því að fá lyf hjá heimilislækninum mínum og leitaði mér sjálf hjálpar á geðdeild Landsspítalans. Í dag er ég í fullri vinnu við að vinna í sjálfri mér, því ég er ekki bara að díla við fæðingarþunglyndi. Það var aðeins dropinn sem fyllti mælinn og gerði að verkum að ég leitaði mér aðstoðar.“
Dúna segir að það fylgi því mikil skömm að líða illa á sama tíma og maður eigi að svífa um á bleiku skýi. „Málið er að það svífa ekki allir um á bleiku skýi eftir að hafa fætt barn, og það er ekkert til að skammast sín fyrir.“
Dúna sem gat ekki haft drenginn á brjósti segist hafa upplifað sig sem misheppnaða móður. Að auki þótti henni sárt að hafa ekki fengið hann á bringuna eftir að hann fæddist og var hrædd um að hann væri ekki að tengjast sér þar sem hann var í hitakassa fyrstu sólarhringana.
„Ég kenndi sjálfri mér um allt, að hann hafi fæðst fyrir tímann, að hann væri með guluna og allt sem kom upp á eða gæti mögulega gerst,“ segir Dúna og bætir við:
„Að upplifa svona vanlíðan er hræðileg tilfinning. Ég er ennþá að reyna að læra að hrósa sjálfri mér og byggja mig upp þegar það kemur að móðurhlutverkinu, þar sem ég eyddi fyrstu mánuðunum í að brjóta sjálfa mig niður. Allt sem ég gerði var hræðilegt. Ég var ömurleg móðir og átti þetta fallega litla kríli ekki skilið.“
Í dag er Dúna búin að banna sjálfri sér að setja út á sig sem móður. „Við erum allar góðar mæður. Við gerum hlutina á misjafnan hátt en það er líka bara það sem er best fyrir okkar börn.“
Dúna segist að sama skapi vera heppin með fólkið í kringum sig, þá sérstaklega foreldra sína og barnsföður. Hún segir að þau hafi verið dugleg að ýta erfiðum hugsunum frá sér með því að hrósa henni og sýna stuðning.
Hún vill beina því til fólks hversu mikilvægt það er að sýna nýbökuðum foreldrum skilning. Ólíklegasta manneskja getur fengið fæðingarþunglyndi. „Það er líka svo mikilvægt að skammast sín ekki. Ef þú finnur fyrir vanlíðan eftir fæðingu ekki skammast þín fyrir að leita þér hjálpar. Þú ert það mikilvægasta í lífi barnanna þinna.“