Hörð viðbrögð bandamanna Davíðs komu Atla Fannari á óvart
„Þessi viðbrögð komu mér fullkomlega í opna skjöldu vegna þess að pistillinn er í rauninni skrifaður af mikilli væntumþykju um Morgunblaðið og mbl.is,“ segir Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans og pistlahöfundur á Kjarnanum, sem fékk heldur betur hörð viðbrögð úr röðum bandamanna Davíðs Oddssonar forsetaframbjóðanda við pistli sem birtist eftir hann á síðarnefnda miðlinum.
Yfirskrift pistilsins var: „Er öllum drullusama um Morgunblaðið?“ þar sem hann fjallar um meinta misbeitingu Morgunblaðsins og vefmiðils hans í þágu forsetaframboðs Davíðs, meðal annars með því að setja upp og standa að beinni útsendingu frá opnun kosningaskrifstofu ritstjóra síns og frétt sem birtist um meintar áhorfstölur á beina útsendingu á Facebook-síðu Nova. Sem Atli sagði ástæðu til að taka með fyrirvara.
„Með fyrirsögninni er ég að spyrja sem áhyggjufullur neytandi. Ég fer inn á mbl.is oft á dag og var því að furða mig á hvernig verið er að fara með mjög góðan vef.“
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og bandamaður Davíðs, hjólaði í Atla á bloggsíðu sinni, Hannes Hólmsteinn Gissurarson deildi færslunni á Facebook og síðan var heill pistill hins nafnlausa Týs á vef Viðskiptablaðsins settur til höfuðs Atla.
„Ég veit ekki hversu langt maður á að ganga í að svara nafnlausum skoðanapistlum. Einhverri huldumanneskju sem skrifar bara eitthvert bull. Sá sem heldur á penna í Viðskiptablaðinu er þarna að reyna að misskilja hvert einasta orð sem ég skrifa og tekst það mjög vel. Þarna er allt á hvolfi. Það sjá allir að það er munur á því að framboð setji upp beina útsendingu og gefi öllum fjölmiðlum kost á að sýna frá og því að fjölmiðill fari á staðinn og setji upp beina útsendingu fyrir frambjóðendur. Ég hef fengið staðfest að allt sem kemur fram þarna er á rökum reist. Mbl.is sá um þessa útsendingu og gerir það væntanlega ekki fyrir aðra frambjóðendur.“
Atli segir ljóst að það sé einhver taugatitringur meðal stuðningsmanna Davíðs.
„Maður skrifar saklausan pistil og hópur manna gerir manni upp skoðanir og tilfinningar. Ég er sagður reiður og vinstri maður en ég kannast við hvorugt.“
Atli kveðst ekki ætla í felur þó hann hafi reitt hluta hinnar svokölluðu „skrímsladeildar“ til reiði og kveðst hafa gaman af þessu.
„Mér er mikill heiður sýndur að vera nefndur í sömu andrá og Davíð Oddsson og Björn Bjarnason, enda miklir þungavigtarmenn. Mér finnst þetta gefa mér ákveðna vigt í umræðunni að menn leggi sig fram við að svara einhverjum unglingi frá Sauðárkróki.“