„Ég hef alltaf verið talskona þess að leita uppi nýjar áskoranir og hvatt fólkið mitt til að horfast í augun við óttann og sigrast á áskorunum sem fyrir þeim liggja. Það er því vel við hæfi að ég fari eftir því sjálf og takist nú á við nýja áskoranir,“ segir sjónvarpskonan ástsæla Friðrika Hjördís Geirsdóttir, betur þekkt sem Rikka. Hún hefur nú skilað af sér sínu síðasta verkefni fyrir 365 miðla, eftir 10 ár í starfi.
Rikka tilkynnir um þessar breytingar á heimasíðu sinni en hún segir þau verkefni sem hún hefur tekið að sér á undanförnum árum vera lituð af ástríðu hennar fyrir því að vekja fólk til umhugsunar um eigin heilsu og taka ábyrgð á lífinu sem því er gefið.
„Þegar ég gerði matreiðsluþættina þá var það mín ósk að endurspegla hamingju og gleði, þegar við framleiddum Létta spretti var hugmyndin að koma öllum áhorfendum út að hreyfa sig og með því breiða út líkamlega og andlega vellíðan sem svo síðar skilar sér í betri samskiptum okkar við hvert annað. Þættirnir Hjálparhönd voru til þess gerðir að opna augu okkar fyrir nærumhverfinu. Við öll sem eitt getum haft áhrif og með því að taka þátt í hjálparstarfi á einhvern hátt, hvort sem það er innan hjálparsamtaka eða okkar nánustu, styrkjum við stoðir þess góða samfélagsins sem við búum í. Við styrkjum líka okkur sjálf með því að hjálpa öðrum því það er fátt eins fullnægjandi og að geta veitt öðrum aðstoð sem á þurfa að halda.
Þegar ég tók við ritstjórn Lífsins í Fréttablaðinu var það mitt markmið að breiða út jákvæðan boðskap og allir þeir sem komu í viðtal höfðu einhverja visku að geyma sem hvatti okkur hin sem lásu. Mitt markmið var að hvert orð sem ég setti niður hefði þau áhrif á lesandann að hann finndi hjá sjálfum sér þann styrk til að bæta líf sitt til hins betra,“ segir Rikka jafnframt en hún kveðst hlakka til framtíðarverkefna og kveður 365 miðla með þakklæti.