Helgi Skúlason er einn af okkar betri ljósmyndurum. Hann hefur getið sér gott orð fyrir náttúrumyndir ýmis konar og þá sérstaklega einstakar myndir af fuglum. Hefur Helgi haldið nokkrar sýningar og gefið út eina bók. Hefur það vakið eftirtekt hversu persónulegar fuglamyndir Helga eru, sem leggur mikið á sig til að komast í návígi við myndefni sitt.
Í samtali við DV segir Helgi að áhuginn hafi kviknað strax þegar hann var krakki og lifað með honum síða þá.
„En það var ekki fyrr en fyrir um 6 árum að ég eignaðist bærilega digital vél að ég fór að taka myndir fyrir alvöru.“
Í samtali við Morgunblaðið fyrir þremur árum sagði Helgi að hann færi ekki út án þess að vera með myndavélina á bumbunni. „Ég hef lengi verið með ljósmyndadellu og var ekki nema tíu ára þegar ég fékk lánaða myndavél hjá afa mínum með 135 millimetra aðdráttarlinsu, sem varð til þess að ég náði nærmyndum af fuglunum. Alveg síðan þá hef ég verið með mikinn áhugi á fuglaljósmyndun.“
Náttúran hefur alltaf heillað Helga sem myndefni og er fullkomin í hans huga. Í spjalli við blaðamann DV segir Helgi ennfremur:
„Fuglar hafa alltaf heillað mig enda búnir að vera hluta af okkar náttúru miklu lengur en við. Þar er líka fjölbreytni dyralífs að finna sem er annars nokkuð fábrotin í íslenskri náttúru. Flestir eru að mynda landslag og aðrar náttúrustemmingar en ég kýs meira líf í mínar myndir. Eitthvað að gerast og karakter fuglanna er ekki svo mikið ólíkur okkar. Sífellt að elta sínar grunnhvatir, að bjarga sér, fjölga sér og koma ungviðinu á legg. Þetta er endalaus uppspretta myndefnis.“
Aðspurður um sinn uppáhaldsfugl er Helgi fljótur að svara:
„Krían er bara í mínum huga flottust allra fugl og heimsmeistari flugsins. Tiltölulega lítill fugl, sem þó á meðalævi, flýgur vegalengd sem nemur 7 sinnum flugs til tunglsins. Svo er bara svo mikill karakter í henni. Fæ aldrei nóg af henni.“
Helgi vakti athygli fyrir bók sína Wise birds of Icelands. Helgi segir að ekki sé þó von á annarri bók. Bókaútgáfa á tímum internetsins sé ekki arðbær. En honum þykir vænt um viðtökurnar.
„Sérlega þykir mér vænt um “feedback “ um að börn hafi mjög gaman af því að skoða hana og ef hún getur kveikt áhuga barna og virðingu fyrir náttúrunni þá er ég mjög sáttur þó timakaupið hafi verið lítið,“ segir Helgi og glottir.
Að ná hinni fullkomnu ljósmynd er ekki endilega einfalt og ótal klukkutímar að baki.
„Eina mynd elti ég í fjölda ára og mörg þúsund myndir lágu á að baki þegar ég var sáttur við hana eins og ég vildi. Myndirnar verða oftast til í huga mínum eða einhver minning hvetur mig áfram áður en ég fer að elta þær og reyna að fanga.“
„Myndirnar af þrestinum eru teknar í sl föstudag í Fossvogskirkjugarði. Þar vex nýtt líf af dauðanum og mikið smáfuglalíf þar að finna,“ segir Helgi og bætir við að lokum:
„Ég hugsa aldrei í klukkutímum þegar ég er að mynda fugla en þeir eru mjög margir…En til að segja eitthvað þá giska ég að baki myndanna af þröstunum sé um 40 klst. vinna. Fyrir mér er að fylgjast með náttúrunni eins og að horfa á góðan þátt frá Atterborogh. Fræðsla, slökun, skemmtun, jóga, hugleiðsla og vinna, allt í senn.“