fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

„Maður á að gera grín að öllum“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 22. maí 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugleikur Dagsson situr á Kexinu og vinnur í Macbook-tölvunni sinni. Hann er mjög hipsteralegur, í gallabuxum, svörtum jakka með pönkaramerki í barminum og vitaskuld svörtu gleraugun á nefinu. Ragnheiður Eiríksdóttir gengur í salinn með sína Macbook-tölvu, og sín svörtu hipsteragleraugu, og spyr hvað hann sé að bedrífa. „Ég er bara að vinna í dóti fyrir seríu tvö af Hulla sem verður í sjónvarpinu í september.“

Við byrjum á að tala aðeins um sjónvarpið. Aðdáendur Hulla-þáttanna eru margir og mismunandi. Kannski var þetta líka í fyrsta sinn sem íslensk fullorðinsteiknimyndasería sló í gegn. „Sigurjón Kjartansson hafði einhverra hluta vegna trú á mér og kallaði mig á fund fyrir nokkrum árum til að ræða hugmyndir um teiknaða sjónvarpsþætti. Ég átti að koma með hugmynd, og mætti til hans með tvær. Önnur var alvöruhugmyndin, en hin var ömurleg aukahugmynd. Það á maður víst alltaf að gera á svona fundum til að auka líkur á að góða hugmyndin verði framkvæmd. Slæma hugmyndin er blekking, en fær framleiðandann til að finna að hann stjórni einhverju.“

Aðalhugmynd Hulla voru þættir sem fjölluðu um tölustafi í Talnalandi. Sem sagt í stíl við bækur Bergljótar Arnalds?, spyr ég. „Já eiginlega. Þetta var mjög skrítin hugmynd um tölurnar núll og einn sem eru vinir og lenda í vandræðum því þeir eru alltaf að gera einhverja slæma hluti. Aukahugmyndin var síðan um einhvern Hulla í miðbæ Reykjavíkur, og mér datt aldrei í hug að Sigurjón myndi verða hrifinn af henni. En það var hann og áður en ég vissi var ég búinn að skrifa seríu eitt með vinum mínum og hún orðin að veruleika. Sigurjón féll sem sagt ekki fyrir þessari blekkingu.“

Teiknimyndapersónan Hulli, og vinir hans, sló í gegn hjá þjóðinni, og svartur húmorinn féll í kramið. „Það var ekki fyrr en fyrsti þátturinn birtist á skjánum að ég sá að þetta virkaði sem teiknimynd.“ En skildi fólk húmorinn, hvort sem það horfði á Hulla á Lindargötu eða í Lindahverfi? „Já, ég held að Hulli hafi gengið vel í fólk, óháð bakgrunni og búsetu. Annars getur maður ekki annað en bara skrifað það sem manni finnst sjálfum fyndið. Ef maður reynir að þóknast neytandanum dettur maður strax niður í meðalmennsku. Þess vegna þýðir ekkert að spá í hvort fólk muni skilja brandarana eða vera ánægt með þá. Það er bara til einn markhópur og það er maður sjálfur. Ég geri mikið grín að miðbænum, og bolnum líka, eiginlega eins mörgum týpum og ég get gert grín að. Sumir verða ringlaðir yfir þessu.

Ég man sérstaklega eftir því þegar ég gerði leikritið Leg og Jón Viðar gagnrýndi það. Honum fannst undarlegt að ég gerði grín að kapítalískum iðnaði sem eyðileggur náttúruna og líka hinum sem verja hana með kjafti og klóm. Honum fannst þetta ekki geta farið saman, en ég gæti ekki verið meira ósammála. Maður á að gera grín að öllum, bæði þeim sem standa nærri manni og þeim sem eru fjarlægari. Reyndar er ég ekki duglegur að gera grín að öðrum menningarheimum, eins og Mið-Austurlöndum eða Kína, en það stafar meira af vanþekkingu minni. Það þýðir ekki að vera „ignorant“ í gríni.“

Umhugsunarlaus kaldhæðni

Grín Hugleiks hefur farið sigurför um heiminn. Bækurnar hans eru orðnar um 30 talsins og sumar hafa verið þýddar á 30 tungumál. Mér leikur forvitni á að vita hvort hann hafi verið búinn að hanna atburðarásina þegar hann var nemi í fjöltæknideild Listaháskólans fyrir rúmum áratug.

„Nei, það var ekkert plott í gangi. Ég teiknaði fyrstu 30 myndirnar sumarið á milli annars og þriðja árs í skólanum. Það var fyrir sýningu á Seyðisfirði og ég teiknaði þær sama dag og hún var opnuð. Myndirnar urðu svo fyrstu 30 myndirnar í fyrstu bókinni minni.“

Hugleikur segist hafa teiknað myndirnar hratt og nánast hugsunarlaust. „Þetta var umhugsunarlaus kaldhæðni, miklu frekar en kaldhæðni. En myndirnar vöktu lukku hjá samnemendum mínum og ég teiknaði nógu mikið í viðbót til að geta heftað saman bók sem ég seldi sjálfur. Þetta gerði ég þrenn jól í röð, en eftir það hefur Forlagið séð um útgáfu á mínum bókum.“

Skyldi þessi kolsvarti húmor eiga upp á pallborðið hjá öllum heiminum eða hvað? 30 lönd eru nú ekkert smáræði. „Oftast gefa löndin út eina bók og gefast svo upp. Sumir hafa samt gefið út allt eftir mig sem hægt er að þýða. Frakkar hafa náð að gefa út tvær eða þrjár bækur, en Finnar og Bretar ná húmornum best, fyrir utan Íslendinga.“ Eru lesendur þínir meira bankamenn eða veganar, eða ákveðnir hópar? skýt ég inn í. „Það er ekki til ákveðinn höfundur sem höfðar meira til vegana, en ætli Ayn Rand sé ekki sá höfundur sem höfðar til bankamanna. Mínir lesendur eru alls konar fólk, ekki bara ein týpa. Ég sá einu sinni heimildamynd um South Park þar sem talað var um að bæði repúblikanar og demókratar vilji eigna sér þættina. Það er nefnilega hægt að lesa heilmikil frjálshyggjuskilaboð úr þáttunum, en á sama tíma má túlka margt lengst til vinstri. Ég held að það sé svipað hjá mér. Ef ég er pólitískur skýt ég miskunnarlaust í báðar áttir. Þó svo að ég hugsi meira til vinstri, finnst mér hið pólitíska kerfi meingallað, og þar af leiðandi eru báðir pólar fastir í þeim galla.“ Þannig að líklega er hlegið að bröndurum Hugleiks jafnt í Valhöll sem Tortuga. Við dveljum áfram við pólitíkina.

„Winter is coming“

„Mér líður stundum eins og við séum stödd í Game of Thrones. Það virðist alltaf eitthvað vera alveg að fara að gerast, en svo gerist ekkert. Byltingin er að minnsta kosti ekki í þessari þáttaröð. Ég er eiginlega dálítið búinn að missa trúna á mannfólkinu. Sjáðu til dæmis síðustu mótmælahrinu, í kjölfar Panama-skjalanna. Þar var slegið met í fjölda, fleiri mótmæltu en í kjölfar hrunsins, en svo þreytist fólk á þessu. Ég er alveg jafnsekur því ég mætti alls ekki á öll mótmælin.

Ég held að það pólitískasta sem ég hef teiknað sé gullfiskurinn sem er í laginu eins og Ísland. Ég teiknaði hann daginn eftir að Framsóknarflokkurinn var kosinn aftur til valda og sagði þá í gríni að þetta væri góður dagur fyrir grínista. En gullfiskurinn er alltaf í gildi. Samt verð ég að hafa fyrirvara á því að tala svona, því eins og Framsóknarflokkurinn og Donald Trump eru frábær uppspretta gríns, þá eru þetta opin skotmörk. Grínið verður frekar eins og sjálfsvörn – leið til að lifa af með þessi öfl í valdastöðu. Þannig að frekar vil ég vera laus við Trump og Framsókn en að gera grín að þeim. Þegar stjórnvöld eru með svona stóran „fokkjú“-putta í áttina til manns, verður maður að segja „fokkjú“ á móti. Eiginlega er þetta meira „fokkjú“ en einhver skemmtun.“

Það er ljóst að Hugleikur hallast til vinstri í pólitík, ég spyr hann nánar út í það hvar hann stendur. „Ég er fyrst og fremst útópisti. Ég horfi á Star Trek og hugsa „af hverju er lífið ekki orðið svona?“ Mér finnst alls konar tækni spennandi og held að við ættum að einbeita okkur að þannig hlutum í staðinn fyrir skammtíma-rassgataskoðanir. Þá mundi allt skána. Fólk virðist stjórnast af ótta og óöryggi – til dæmis við óstöðugleika. Hrædda fólkið kýs þann sem lofar lausnum sem fyrst. En þær eru í eðli sínu skammtímalausnir. Lúalegast þykir mér þó þegar flokkar ala á ótta og fordómum til að laða að sér fylgi. Við sjáum Trump gera þetta núna, og Framsókn á síðustu metrunum fyrir borgarstjórnarkosningar. Að nota útlendingahatur til að öðlast styrk er afskaplega lúalegt.“

Járnhásætið

Hvað með forsetaembættið? Hvernig tilfinningar berðu til þess? „Forsetaembættið var fyndinn brandari fyrir stuttu síðan. En núna er eins og það sé verið að endurtaka „pönslænið“ aftur og aftur. Ég var með nokkrar pælingar í sambandi við brandara um forsetaembættið, en svo var þetta búið að fara svo marga hringi að mér fannst álíka spennandi að tala um það eins og veðrið. Ólafur er búinn að vera svo lengi þarna að ég er hættur að nenna að fylgjast með honum. Eins og Simpsons-þættirnir í sjónvarpinu, ég hata þá alls ekki, en er löngu hættur að nenna að horfa því þeir hættu að vera fyndnir fyrir löngu. Ég vorkenni Ólafs Ragnars-eftirhermum hræðilega. Þau verða að fá annan forseta til að leika. Það er svo leiðinlegt að búa í landi þar sem boðið er upp á það sama aftur og aftur og aftur – þannig ástand sýnir mikinn ófrumleika. Pólítískt séð er Davíð Oddsson þó mun verri padda. Samt mundi ég frekar vilja sjá hann sem forseta, bara því ég nenni ekki Ólafi lengur. Ég á svo auðvelt með að fá ógeð á hlutum og leiðast.“

Jahá! Verður mér að orði. Hugleikur útskýrir afstöðu sína aðeins betur. „Ef Davíð yrði kosinn yrði það eins og þegar Lannister-ættin tók við járnhásætinu í Game of Thrones. Maður hugsaði bara „ókei, vondi ræður núna“. Það yrði alla vega áhugavert og eitthvað nýtt fyrir grínista. Ólafur er frekar einhver af Baratheon-ættinni. Stannis eða Renley eða einhver sem maður gleymir jafn óðum, svona miðjumoðspólitíkus sem maður veit ekki alveg hvað stendur fyrir. Davíð Lannister er svo miklu skýrari. Ef hann verður forseti mun hann gera eitthvað galið og segja eitthvað sturlað opinberlega. Það eru allar líkur á að hann missi vitið í miðju embætti og því mundi ég ekki endilega vilja missa af. Hann yrði sannkallaður „mad king“.“

Hugleikur segist þó ekki munu kjósa Davíð. „Skemmtilegast væri að fá Andra í embættið. Hann hefur sama krúttfaktor og Daenerys Targaryen. Hann er svo mikið á móti óréttlæti upp að því marki að það verður eiginlega óraunsætt. Hann skrifaði útópíska bók, Draumalandið, og er þess vegna útópisti eins og ég. Sem útópisti ætti ég að kjósa hann. Það er svo mikil uppgjöf í raunsæi. Ég hef samt eina reglu þegar ég kýs. Að kjósa þann sem ógnar íhaldinu mest og í þessu tilfelli er það Guðni.“

Nú er blaðakonan alveg heilluð af Game of Thrones-líkingum listamannsins. Hvar skyldi Guðni eiga heima í þeim heimi? „Er hann ekki bara geldingurinn, þessi sköllótti, Lord Varys, sem veit allt og er búinn að fylgjast með valdinu í langan tíma? Aðilinn á bak við tjöldin sem skilur pólitíkina betur en þeir sem hafa verið í henni með beinum hætti.“

En Elísabet Jökulsdóttir, hvar lendir hún í þessu öllu? „Hún er í besta falli wildlings-stelpan, Ygritte. Náttúrubarnið sem er alltaf uppi á jökli. Ég fíla hana og mundi vilja sjá hana í baráttunni. Hinar konurnar hef ég ekki kynnt mér.“

Karlar fá hvatningu

Hvað er samt málið með þessa kynjaskiptingu í kosningabaráttunni? Ég bið Hugleik um skýringu. „Það gæti haft eitthvað að gera með tímana sem við lifum á. Það er fullt af frambærilegum konum sem gætu boðið sig fram, en á sama tíma eru bæði Davíð og Ólafur í baráttunni. Þeir tala um að nú þurfi sterkan leiðtoga þessa síðustu og verstu tíma – sem er asnalegt og leiðinlegt orðalag – leiðtogi er svo hræðilegt og ljótt orð. Og síðustu og verstu tímar hafa verið í gangi síðustu 1.000 árin eða svo. Alveg eins og í Game of Thrones, veturinn er alltaf að koma. Þetta er hin fullkomna pólitíska allegoría. Allir í valdastöðu eru að reyna að stjórna öllum hinum, og reyna að öðlast fylgi með því að minna stöðugt á að veturinn sé að koma. Veturinn er þá efnahagurinn eða múslimar eða hvað sem hægt er að nota til að stjórna litla manninum og ógna – nýta sér fáfræði almennings. Þess vegna held ég að svona karlpungar haldi völdum. Þeir fá miklu meiri hvatningu í samfélaginu heldur en konur. Sama ástæða liggur að baki því að við sjáum ekki fleiri konur í gríni. Þær fá ekki eins mikla hvatningu til að gera grín. Eins og í svo mörgu fá karlar meiri hvatningu til að ota sínum tota og vera öðrum körlum fyrirmyndir.“

Viðmælandi minn er frægur og dáður karlmaður. Hvatti enginn hann til að bjóða sig fram til forseta? „Einu sinni gerði ég grín að þessu í pistli. En maður eins og ég vinnur ekki forsetakosningar. Það hljómar ekki sem skemmtileg vinna að taka í höndina á öðrum þjóðarleiðtogum og eiga endalaus leiðinleg samtöl við diplómata. Það hlýtur að vera versta starf í heimi, en ég tek ofan af fyrir þeim sem nenna því.

Annars finnst mér að forseti eigi að vera klappstýra þjóðarinnar, einhver sem allir fíla. Mér fannst leiðinlegt að Linda P. skyldi ekki bjóða sig fram, því hlutfallslega hlýtur flestum að þykja vænt um hana. Allir muna eftir einhverju þjóðarstolti þegar hún varð Ungfrú heimur. Það var auðvitað áður en fólk byrjaði að spá í að ráði hversu fáránlegur hlutur fegurðarsamkeppnir eru. Í hugum okkar tengist Linda sameiningu og stolti. Ég er alls ekki á því að forseti eigi að vera pólitíkus, og eiginlega finnst mér ekki einu sinni að pólitíkusar eigi að vera stjórnmálamenn. Að vera góður í stjórnmálum þýðir til að mynda að vera góður í að svara ekki spurningum, og í því að segja eitt og meina annað. Það er ekki gott. Við þurfum að fá einhvern í forsetastól sem getur farið til útlanda og tekið í höndina á fólki án þess að líta út eins og hálfviti á sama tíma, og helst þarf viðkomandi að kunna eitthvað smá í ensku.“

Líf einhleypingsins

Jæja, Hugleikur, segi ég, vendum nú okkar kvæði í kross og tölum um eitthvað persónulegra. Ég hef séð þig á Tinder, hvernig gengur þar? „Ég segi nei við næstum allar stelpur núna. Líklega vegna þess að ég er miklu minna graður en þegar ég byrjaði á Tinder fyrir ári síðan. Nú er þetta í besta falli til að stytta mér stundir á klósettinu. Um daginn svaraði ég ekki nógu hratt og einhver stelpa sagði að ég væri ekki góður í Tinder. En væri það eitthvað gott að vera góður í Tinder? Mér fyndist það bara krípí að vera svoleiðis player. Það er miklu svalara að vera lélegur á Tinder. Ég hef hitt stelpur sem ég sá fyrst á Tinder. Það var samt ekki beinlínis Tinder-deit því ég hitti þær fyrir slysni á djamminu eftir að ég sá þær þar. Þetta er kannski kosturinn við Tinder á Íslandi, þú sérð einhvern á appinu sem þú hittir svo á djamminu. Eiginlega er það mjög praktískt. Ég er á því að fólk eigi ekki að taka Tinder alvarlega, heldur reyna að takast sjálft á við þann ormapytt sem líf einhleypings á Íslandi er, án hjálpartækja.“

Hugleikur er barnlaus og hefur verið einhleypur í eitt og hálft ár. Fram að því segist hann hafa verið rað-kærasti. „Ég hef átt sjö kærustur, held ég, og núna er ég bara að máta lífið án þess að vera helmingur af kærustupari. Mig dreymir ekki sérstaklega um börn, en ef það gerðist væri það frábært. Ég er heldur ekki að leita mér að konu, en ef einhver bjánalega frábær kona dettur í fangið á mér væri það líka frábært eða hugsanlega hræðilegt. Líklega hræðilegt.“

En frægðin, er hún ekki frábær fyrir kvenhylli? „Ég kann ekki viðreynslu, svo mín aðferð er að standa úti í horni og vera frægur. Best finnst mér þegar konur taka fyrsta skrefið. Oftast er ég reyndar alveg grunlaus og ef ég er ekki viss geri ég frekar ráð fyrir því að það sé ekki verið að reyna við mig. Ég kann að meta skýr skilaboð.“

Þarna erum við Hugleikur heldur betur sammála. Ég ákveð að spyrja hann hvaða þrjú atriði honum þyki mikilvægust í fari væntanlegrar kærustu. Hann byrjar á að horfa upp í loft, strjúka hökuna og hugsa sig um. Svo segir hann „sko, hún á ekki …“ hin frakka blaðakona grípur fram í og biður hann í staðinn um að telja upp það sem hún á að vera. Alheimurinn skilur nefnilega ekki neikvæðar staðhæfingar.

„Já, þú meinar það. Í fyrsta lagi verður hún að hafa sjálfstæðan vilja. Ekki reyna að þóknast mér. Einu sinni bauð ég stelpu að koma með mér á Star Wars-frumsýningu. Eftir langa Facebook-þögn svaraði hún og sagðist ekki þola Star Wars. Það fannst mér mjög kynþokkafullt. Ekki að hún væri antí-nörd, heldur að hún reyndi ekki að þykjast til að þóknast mér. Það er kúl. Í öðru lagi þarf mér að finnast hún aðlaðandi, en það getur verið hvað sem er sem gerir fólk aðlaðandi. Í þriðja lagi þarf hún að vera fyndin eða skemmtileg. Það skemmtilegasta sem maður gerir er að hlæja. Það er betra en kynlíf. Þetta líkamlega grunnviðbragð er algjör galdur. Ef maður getur hlegið með manneskju, er það í raun atriði númer eitt. Einhvern tíma var ég spurður hvað ég vildi í konu og sagði að hún ætti að vera sæt og skemmtileg. „Bíddu, af hverju ekki gáfuð?“ var þá spurt á móti. En það er það sama, að vera skemmtileg og gáfuð. Í minni bók fer alls ekki saman að vera leiðinlegur og gáfaður. Það er bara ekki hægt.“

Höfnunin nauðsynleg

Hugleikur segist taka að sér of mörg verkefni og fara of sjaldan í frí. Hann tekur sér frí á 4–5 ára fresti og langar að bæta úr því. „Margir eru betri en ég í að skipuleggja lífið, eins og maður þarf að gera til að komast í sumarfrí. Ég er nýbúinn að ráða mér aðstoðarkonu sem er umboðskonan mín og sér um bókanir og annað slíkt. Hún er búin að auðvelda líf mitt um allavega 38 prósent. Ég er um þessar mundir talsvert í veislum og á árshátíðum með uppistand, svo er ég með grínsýninguna Icetralia á Rósenberg næstu fimmtudaga ásamt ástralska grínistanum Jonathan Duffy, og mánaðarlega á Húrra. Ég reyni líka að mæta á opnu uppistandskvöldin á Gauknum til að æfa mig. Það er nefnilega ekki hægt að æfa uppistand heima hjá sér, eina leiðin er að prófa sig áfram fyrir framan áhorfendur.

Sjálft uppistandið er æfingin, því brandarar þurfa að virka fyrir framan hóp af fólki. Húmor er þannig að samhengið stjórnar öllu um árangurinn. Málið er ekki hvað þú segir, heldur hvernig, hvenær, við hvern og í hvaða samhengi. Þarna liggur líka skýringin á því að sumir mega segja ákveðna hluti en aðrir ekki. Það sem er sjúklega fyndið hjá einum getur hljómað mjög asnalega hjá öðrum. Ég hef líka séð grínista sem mér finnast ekki fyndnir, en þeir ná salnum og það er það sem gildir. Svo þýðir ekki að kenna salnum um ef illa gengur – ábyrgðin er alltaf þín.“

Hugleikur segist hafa bombað rúmlega tvisvar á ævinni. Að bomba er það kallað þegar uppistand misheppnast algjörlega. „Versta skiptið var í Grundarfirði. Ég var þar að kynna hljómsveitir og ákvað að taka smá uppistand. Það var skelfilegt. Meðalaldurinn var hærri en ég er vanur, fólk nennti ekki að hlusta og það var mikið af Pólverjum á staðnum sem skildu lítið. En það er nauðsynlegt að upplifa þetta. Að fara upp á svið og reyna að vera fyndinn er eitt það mest ógnvekjandi sem maður getur gert, en það er nauðsynlegt að upplifa höfnunina til að hætta að hræðast hana. Það er hægt að halda áfram og standa sig betur næst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið