Eiturlyfin voru í eigu glæpagengisins Clan Usuga
Lögreglan í Kólumbíu lagði á dögunum hald á átta tonn af kókaíni. Um er að ræða mesta magn sem gert hefur verið upptækt í einni og sömu aðgerðinni.
Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að kókaínið hafi fundist á bananaplantekru skammt frá hafnarbænum Turbo í norðvesturhluta landsins.
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, hrósað lögreglu í hástert eftir að tilkynnt var um haldlagninguna og sagði á Twitter-síðu sinni að um hefði verið að ræða mesta magn sem fundist hefur.
Að sögn lögreglu var kókaínið í eigu smyglhrings sem ber nafnið Clan Usuga. Þrír voru handteknir í aðgerðum lögreglu en þrír eru sagðir á flótta. Að sögn lögreglu var búið að pakka um einu og hálfu tonni í umbúðir og var það tilbúið til útflutnings.
Að sögn kólumbísku lögreglunnar eru meðlimir Clan Usuga taldir vera um tvö þúsund talsins, en glæpahringurinn hefur einnig gert sig gildandi í ólöglegri námuvinnslu í landinu. Þá er hringurinn talinn bera ábyrgð á mannránum og morðum.