fbpx
Miðvikudagur 14.ágúst 2024
Fókus

Gary Martin: „Hrokinn var vandamál“

Markaskorarinn Gary Martin elskar bæði fótbolta og ketti

Ritstjórn DV
Laugardaginn 14. maí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fótbolti er bara lífið, ég þekki ekkert annað,“ segir Gary Martin sem er búinn að vera atvinnumaður í fótbolta síðan hann var 16 ára gamall. Líklega líf sem mörg ung, fótboltasjúk íslensk ungmenni gætu hugsað sér. Gary er núna 25 ára og hefur spilað á Íslandi síðustu sex árin. Ragnheiður Eiríksdóttir, blaðakona DV, settist niður með Gary á kaffihúsi í miðborginni og varð mikils vísari um feril hans, fótboltann, já og ást hans á villiköttum.

Gary er fæddur og uppalinn í smábænum Darlington í Durham-sýslu, norðarlega á Englandi. Þar bjó hann ásamt foreldrum og systkinum þar til fótboltaferillinn hófst hjá Middlesbrough þegar hann varð 16 ára. „Markmið mitt var alltaf að lifa á fótbolta og komast eins hátt og hægt er. Þegar ég var að alast upp voru milljón aðrir strákar með nákvæmlega sama draum. En ég var heppinn og komst inn í ungliðaprógramm hjá Middlesbrough, sem þýddi líka að ég hélt ekki áfram í skóla.“

Velgengni og hroki

Gary segist hafa verið hrokafullur á þessum árum. „Mér gekk vel og kannski steig mér það dálítið til höfuðs. Lífið í Middlesbrough var rólegt og ekki mikið fjör, en heima í Darlington voru vinir mínir. Þeir hegðuðu sér ekki mjög gáfulega, djömmuðu að minnsta kosti mikið, nokkuð sem ég gat ekki leyft mér vegna boltans. Ég þurfti að passa að vera alltaf í toppformi. En þegar ég kom heim að hitta þá var freistandi að skreppa á klúbbana. Það fréttist og ég fékk viðvörun. Svo gerðist það aftur, þá voru mér settir afarkostir.“

Gary átti erfitt eftir meðslin í fyrra.
Mótlætið var lærdómsríkt Gary átti erfitt eftir meðslin í fyrra.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þessi hegðun var óásættanleg að mati stjórnenda fótboltaliðsins og Gary fékk val um að hætta í ungliðaprógramminu, eða flytja til Middlesbrough, þar sem hægt væri að hafa betra auga með honum. „Ég fór í vist til Wendy sem var ritari félagsins. Hún var ótrúlega góð við mig, ég var með herbergi hjá henni og hún eldaði ofan í mig og passaði upp á mig. Ef ég hefði ekki gert þetta hefði ég aldrei komið til Íslands, svo ég er henni ótrúlega þakklátur. Það er erfiðast í heimi að segja nei við vini sína. En ég gat ekki leyft mér það sama og þeir, gat ekki hangið á barnum með þeim. Wendy var besta manneskja sem ég hefði getað lent hjá.“

Wendy kom til bjargar

Gary bjó í tvö ár hjá Wendy, en hann fékk framlengdan samning við félagið og var ári lengur í ungliðaprógramminu. „Eftir það hafði ég ekkert val, ég varð að komast áfram í fótboltanum. Jafnaldrar mínir voru komnir langt fram úr mér í námi og ég átti eiginlega ekki afturkvæmt – ég varð að fá vinnu við fótbolta.“ Þegar þarna var komið við sögu var búið að skipta um yfirstjórn hjá félaginu og Gary átti erfitt uppdráttar. „Hrokinn var vandamál hjá mér. Ég hagaði mér illa í leik og foreldrar mínir hefðu ekki orðið ánægðir með hegðun mína. Þarna var ég lánaður til Ungverjalands og skömmu seinna var ég svo heppinn að fá tilboð frá ÍA á Íslandi.“ Þegar tilboðið barst var Gary 19 ára, atvinnulaus og peningalaus. Hann hafði farið til reynslu til Hartleypool, en loforð um samning gengu ekki eftir.

Smá misskilningur í upphafi

Gary var því fljótur að þekkjast boðið og flutti til Íslands sumarið 2010. „Mér fannst þetta svo frábær staður, enda kom ég hingað í fyrsta sinn að sumri og hafði ekki minnstu hugmynd um hvernig veturinn væri á þessari eyju lengst norður í hafi. Seinna komst ég að því hvað veturinn reynir á geðheilsuna, en núna lít ég bara á það sem hluta vinnunnar.“ Hann sér þó ekki eftir því að hafa ákveðið að ganga til liðs við ÍA, og hlær þegar hann útskýrir fyrir blaðakonu að hann hafi aðeins misskilið leiktímafyrirkomulagið í upphafi. „Ég hélt að tímabilið byrjaði í janúar, eins og úti, og lagði mig brjálæðislega fram í öllum leikjunum sem liðið spilaði hvort sem það voru æfingaleikir eða æfingamót. Hérna var ég algjörlega óþekktur og þurfti að sanna mig. Ég kom sem sagt inn með látum og skoraði 30 mörk í 24 fyrstu leikjunum mínum á Íslandi. Ég hélt að hver einasti leikur hefði þýðingu og tók allt mjög alvarlega.“

Þetta varð að vonum til þess að fólk fór að taka eftir þessum mikla markaskorara sem allt í einu var mættur upp á Skaga. „Það var fínt á Akranesi en mig langaði lengra, í sterk lið eins og KR eða FH. Ég var lánaður til Danmerkur en það gekk ekki vel. Ég var ungur og hrokafullur og hafði skorað mörk í hverjum einasta leik á Íslandi. Ég hélt að það yrði eins að spila úti, en það var það alls ekki. Það er gott og nauðsynlegt að hafa sjálfstraust í boltanum en hrokinn getur eyðilagt fyrir þér.“ Um mitt sumar 2012 var Gary seldur til KR. Þar spilaði hann fyrstu tvö árin undir stjórn Rúnars Kristinssonar þjálfara. „Það var langbesta tímabilið mitt til þessa. Mér fannst frábært að vinna með Rúnari, enda vann ég með honum tvo titla, og bæði silfur- og gullskó.“

Stóra KR-málið

Fótboltaáhugafólk hefur velt vöngum yfir því hvað gerðist eiginlega þegar Rúnar hætti sem þjálfari KR og Bjarni Guðjónsson tók við í október 2014. „Hann hraktist eiginlega frá KR. Af hverju var hann ekki notaður meira, hann sem var alltaf að skora?“ sagði fótboltafróður vinur blaðamanns þegar fréttist að viðtal við Gary væri á döfinni.

„Bjarni er einn besti leikmaður sem ég hef spilað á móti, en mér kom alls ekki saman við hann sem þjálfara. Hann gaf mér ekki ábyrgðina sem ég vildi og trúði ekki nægilega á mig. Við erum báðir sterkir persónuleikar og áttum bara ekki skap saman. Ég var búinn að sanna mig rækilega, en hann sá hlutina öðruvísi en ég.“ Gary meiddist alvarlega á hné snemma á leiktímabilinu 2015 í leik KR á móti Fylki, þann 21. maí, og varð það ekki til að bæta stöðu hans hjá liðinu. „Ég man að ég sparkaði í boltann, og fann eitthvað gefa sig í hnénu. Ég ætlaði að hlaupa þetta af mér, eins og maður gerir oftast í leik, en það var alls ekki rétt ákvörðun. Ég komst í færi til að skora en gat ekki skotið, þá lagðist ég niður því hnéð var að drepa mig. Ég hafði aldrei áður lent í meiðslum og þetta var mikið reiðarslag, ég trúði þessu ekki. Tímasetningin var líka ömurleg, leiktímabilið nýbyrjað og ég þurfti að sanna mig fyrir nýjum þjálfara. Það liðu næstum tveir mánuðir þar til ég var búinn að jafna mig og kominn í keppnisform.

Markaskorarinn er sannkallaður kattavinur.
Gary og kisi Markaskorarinn er sannkallaður kattavinur.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Á þessum tíma lærði ég þó meira um sjálfan mig og um fótbolta en nokkru sinni áður. Ég fór í mikla lægð, enda snýst allt mitt líf um fótbolta og allt í einu gat ég ekki spilað. Flestir leikmenn á Íslandi eru í vinnu líka, og fyrir mörgum er vinnan númer eitt. Þetta er það sem gerir fótboltann á Íslandi svo frábæran, menn hafa eitthvað annað líka og þú þarft eitthvað annað líka.“

Lífið er meira en fótbolti

Gary vissi hreinlega ekki hvað hann átti að gera. Núna talar hann samt um meiðslin af einhverju fallegu þakklæti. „Ég fékk ekki að spila og ég er vanur að vilja spila hvern einasta leik og verð ómögulegur ef ég fæ ekki að gera það. Þetta ástand kom út í þunglyndi og ég upplifði lægsta punkt lífs míns. Að vakna með tilfinningu um að ég myndi aldrei spila aftur var skelfilegt. Kærastan mín þurfti að þola mig gegnum þetta tímabil sem var alls ekki auðvelt. Eftir að hafa spilað 100 leiki í röð og setið kannski þrisvar á bekknum var ömurlegt að geta ekki verið með. Ég varð að einbeita mér að batanum en þegar upp er staðið náði ég meiri slökun og ró í hugann á þessum tíma en ég man eftir að hafa nokkru sinni upplifað. Það er svo miklu meira en fótbolti í lífinu.“

Nýir tímar – nýtt lið

Gary er nýgenginn til liðs við Víking. Sú ákvörðun var honum alls ekki erfið. „Ég var alveg rólegur í fyrra hjá KR, enda var ég samningsbundinn, þó svo að ég fengi ekki mikið að spila. Í lok ársins settist ég niður til að skoða málin og þegar ég heyrði af áhuga Víkings vissi ég strax að ég vildi fara. Þegar ég hitti Milos, þjálfara liðsins, vissi hann meira um mig en ég sjálfur og planið hans fyrir liðið var mjög áhugavert. Þegar ég skrifaði undir fékk ég mjög sterkt á tilfinninguna að þótt ég hefði talað við öll hin liðin hefði Víkingur alltaf orðið fyrir valinu. Ég hefði getað verið áfram hjá KR, en við Bjarni virkuðum bara ekki saman og þetta var rétti tíminn til að komast burtu.

Staðan er þó allt önnur núna fyrir Gary sem leikmann. Víkingur er ekki topplið eins og KR, þar sem gert er ráð fyrir sigri í hverjum leik. „Hjá KR ertu einn af mörgum, þar eru kannski 12–13 mjög góðir leikmenn hverju sinni, en ekki nema 5–6 hjá Víkingi. Margir leikmenn Víkings eru vanmetnir að mínu mati og fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir styrknum sem er mögulegur. Enginn býst við því að Víkingur vinni alla leiki og það er eiginlega betra. Leicester sýndi okkur nýlega að það er allt hægt og Víkingur gæti komið á óvart.“

Þessi gaur er að fara að gifta sig á næsta ári!
Trúlofaður Þessi gaur er að fara að gifta sig á næsta ári!

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Trú og væntingar

Gary tekur hlutverk sitt sem leiðtogi í liðinu alvarlega. „Ég er reyndur leikmaður og mér hefur gengið vel og félagar mínir líta upp til mín. Þeir keyptu mig og ábyrgð mín er mikil. Þess vegna set ég mikla pressu á sjálfan mig. Ef Víkingur kemst í topp 3 og mín spilamennska hjálpar er ég sáttur. Ég þarf ekki að vinna gullskóinn.“

Það er greinilegt að Gary lítur björtum augum á framtíðina, þó að síðasta ár hafi verið erfitt fyrir hann. „Ég trúi því að árangur snúist að miklu leyti um trú og væntingar. Ég meiddist í fyrrasumar og gerði þess vegna ráð fyrir að leiktímabilið yrði slæmt, það rættist auðvitað. Ég var ekki hamingjusamur í fyrra, en staðan er öll önnur núna.“

Alvöru naglar á Íslandi

En skyldi hugurinn ekkert leita út fyrir strendur Íslands, eins og algengt er hjá fótboltahetjum? Er Ísland nógu mikið útland fyrir Gary Martin?

„Mér líður mjög vel í atvinnumennsku hér. Liðsfélagar mínir eru jarðbundnir og auðmjúkir. Hér er algengast að menn vinni sína vinnu frá 9–5 og mæti svo á æfingu. Þetta eru alvöru naglar og ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Á Englandi er kannski æfing á morgnana, svo er farið heim og hangið og fæstir mennta sig. Þar snýst málið um peninga og atvinnumenn líta oft niður á aðra. Hér eru venjulegir og harðduglegir gæjar að spila og ég fíla það miklu betur. Það getur alveg verið að ég fari út, ef rétta tilboðið býðst á réttum tíma. En ég mun ekki fara bara til að fara. Ég er 25 ára í dag, í betra formi en nokkru sinni fyrr, og á kannski tíu ár eftir í fótbolta. Mig langar að vinna titla og fara svo út þegar tíminn er réttur. Svo vil ég læra eitthvað og ætla að byrja á íslenskunni næsta vetur.“

Kötturinn Baldur

Villikötturinn sem Gary og Guðrún björguðu
Gary og Baldur hinn blíði

Gary og Baldur hinn blíði

Það er fleira en fótboltinn sem bindur Gary við Ísland. Hann er trúlofaður Guðrúnu Dögg Rúnarsdóttur og þau ætla að ganga í hjónaband á næsta ári. Barneignir eru á dagskrá, en núna eru það heimiliskettirnir sem eiga hug unga parsins. Hann segir meira að segja að kettirnir séu ein ástæða þess að hann verði tregur til að yfirgefa Ísland í bráð.

„Við eigum tvo ketti sem komu úr Kattholti og svo björguðum við einum villiketti. Hann fékk að borða hjá okkur í hálft ár, en við máttum ekki snerta hann. Þetta var stór köttur, borðaði mikið, og leit alltaf út eins og hann hefði verið í slag, líklega réð hann yfir köttunum í hverfinu. Hann var alveg brjálaður, alltaf urrandi, greip matinn sem við skildum eftir handa honum og þaut svo burt.

Eina nóttina, þegar stormur var við það að skella á, kom hann inn um gluggann okkar og lagðist örmagna á gólfið. Það var greinilegt að hann var algjörlega búinn að vera. Þetta var í fyrsta sinn sem við snertum hann og við sáum að það blæddi úr einum fæti. Við fórum með hann á dýraspítala og útlitið var svart. Hann var svo svakalega villtur að dýralæknirinn sá ekki annan kost í stöðunni en að svæfa hann.

Við gátum ekki hugsað okkur það og greiddum um 200 þúsund krónur fyrir meðferðina sem hann þurfti.

Þegar við komum heim fékk hann sérherbergi fyrir sig, þar jafnaði hann sig og við læddumst inn með mat handa honum. Smám saman byrjaði hann að treysta okkur, fór að þola snertingu, lærði að leika sér og lærði að mala. Baldur er besti köttur í heimi og uppáhaldið mitt. Að bjarga honum er það besta sem ég hef gert í lífinu. Það kostaði sitt en ég sé svo sannarlega ekki eftir peningunum. Þetta er samt allt kærustunni minni að þakka, enginn nema hún hefði látið sér detta þetta í hug. Hún er frábær og hefur kennt mér mikið – ég hefði ekki gert þetta fyrir þremur árum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll
Fókus
Í gær

Emilio Santoro sigraði í Graceland

Emilio Santoro sigraði í Graceland
Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gríðarleg gróska í íslensku jazzsenunni

Gríðarleg gróska í íslensku jazzsenunni