Hafa áður birt tvö myndbönd af fólki í símanum í umferðinni
Einn eigenda vefmiðilsins Nútímans, Hlynur Sigurðsson, sást í símanum keyra bíl merktan vefsíðunni í gær. Nútíminn greindi frá.
Samgöngustofa, VÍS, Sjóvá og TM í samstarfi við Nútímann hafa sett af stað þjóðarátak gegn símanotkun undir stýri, #égætlaaðhætta.
Nútíminn hefur nú þegar birt tvö myndbönd sem sýna Reykvíkinga nota síma við akstur. Myndböndin má sjá hér og hér.
Eins og lög kveða á um er bannað að vera í símanum undir stýri, enda hafa dæmin sýnt að það getur beinlínis verið stórhættulegt. Af þeirri ástæðu ákvað Nútíminn í samstarfi við fyrrnefnda aðila að blása til átaks. Myndbandið af einum af eiganda vefmiðilsins gæti því vart verið vandræðalegra, eins og Nútíminn greinir sjálfur frá.
Enn fremur segir á síðunni að Hlynur segi þetta einmitt sýna mikilvægi átaksins. „Meira að segja við sem förum af stað með átakið gleymum okkur,“ segir Hlynur í viðtali á vefsíðunni.