fbpx
Miðvikudagur 04.september 2024
Fókus

Linda: „Vildi bara fá að vera ég en ekki konan með MS“

Tekst á við erfiðan sjúkdóm með æðruleysi – Erfitt að nota hjólastól í fyrsta sinn – „Ég lít ekki á mig sem veika“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 7. apríl 2016 20:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Auðvitað var áfall að fá greininguna. Ég var bara 21 árs, nýbyrjuð í háskóla og með eins árs gamalt barn. Hins vegar held ég að það sé ákveðinn kostur að greinast svona ungur. Þá veit maður ekki fyllilega hverju maður er að missa af,“ segir Linda Egilsdóttir sem greindist með MS sjúkdóminn fyrir 16 árum en sjúkdómurinn leggst mest á fætur hennar sem gerir það að verkum að hreyfifærni hennar er skert. Hún er æðrulaus gagnvart sjúkdómnum og segir leiðinlegt að fylgjast með fólki taka lífinu sem sjálfsögðum hlut og gera sér ekki grein fyrir því hvað það hefur.

Þetta kemur fram í Akureyri vikublað sem kom út í dag en Linda segir að í fyrstu hafi hún byrjað að finna fyrir köstum sem fóru síðan hægversnandi, með góðum tímabilum inn á milli. „Síðasta hálfa árið hefur mér versnað svolítið hratt. Ég er með skerta hreyfifærni í fótum og fer ekki langt gangandi. Líklega fékk ég fyrsta kastið árið 1999 en þá dofnaði ég í fótum eftir að strákurinn minn fæddist. Ég hélt að dofinn væri bara fylgifiskur keisaraskurðar. En svo ári seinna, eins og hendi væri veifað, leit ég til hliðar og sá allt tvöfalt. Þá var augljóst að eitthvað væri að,“ segir hún en árið 2006 kom að því að ekki var annar kostur í stöðunni fyrir Lindu en notast við hjólastól.

Hún sækist ekki eftir vorkunn. „Lífið er þannig að þú færð spil á hendi og svo er það þitt val hvernig þú spilar þessum spilum. Ætlarðu að vera með eða ekki? Ég er alls ekki bara með léleg spil. Það er mjög margt í mínu lífi sem ég er ánægð með og mig skortir ekki neitt.“

Ljósmynd/Akureyri Vikublað
Ljósmynd/Akureyri Vikublað

„Það borgar sig ekki að taka lífið of alvarlega en það er ekki það sama og að vera kærulaus. Mér finnst ótrúlega leiðinlegt að fylgjast með fólki taka lífinu sem sjálfsögðum hlut og gera sér ekki grein fyrir því hvað það hefur. Þá langar mig að segja; veistu ekki hvað þú hefur það gott?! Ekki vera að keyra og senda sms eða eitthvað jafn fáránlegt. Það eru allir dauðlegir. Pabbi sagði það oft við mig. Þess vegna á maður ekki að fresta því sem maður getur gert í dag þar til á morgun og þá er ég ekki að tala um að laga vaskinn heima. Ekki segjast koma í heimsókn seinna, einn daginn verður það of seint.“

Hún segist ávallt hafa talað opinskátt um sjúkdóminn og að hún líti ekki á sig sem veika. Hún furðar sig hins vegar á því þegar fólk hrósar henni fyrir að vera „dugleg“. „Dugleg við hvað? Að lifa lífinu? Börnin gera þetta best. Þau horfa og ganga svo til mín og spyrja hreint út; af hverju ertu í hjólastól? Og þá svara ég hreinskilnislega og málið er dautt. Auðvitað vildi ég hafa hlutina öðruvísi en mér líður ekki illa. Ég vorkenni mér aldrei enda hef ég það mjög fínt. Ég er ekki verkjuð.“

Ljósmynd/Akureyri Vikublað
Ljósmynd/Akureyri Vikublað

„Auðvitað dettur maður stundum í „af hverju ég“-pælingar en þá passa ég mig á að hugsa frekar af hverju ekki ég? Af hverju einhver annar? Ég nenni ekki að dvelja við spurningar sem ég fæ aldrei svör við. Ég kvarta ekki en ég læt ekki traðka á mér,“ segir Linda jafnframt en viðtalið í heild sinni má lesa á Pressunni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Margar spurningar leituðu á hugann þegar óléttuprófið reyndist jákvætt nokkrum dögum eftir að þau komu heim af sjúkrahúsinu

Margar spurningar leituðu á hugann þegar óléttuprófið reyndist jákvætt nokkrum dögum eftir að þau komu heim af sjúkrahúsinu
Fókus
Í gær

Fékk nóg af Hollywood eftir að Matthew Perry dó

Fékk nóg af Hollywood eftir að Matthew Perry dó