Hefur komið víða við síðustu fimm árin
„Það er virkilega gaman að líta yfir farinn veg því maður er fljótur að gleyma því sem maður hefur gert og áorkað og ég er þakklát fyrir reynsluna og allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst á þessum árum,“ segir útvarpskonan og söngkonan ástsæla Erna Hrönn Ólafsdóttir en hún er ein þeirra sem sagt var upp hjá 365 miðlum í síðustu viku. Margir kannast við rödd Ernu sem séð hefur um dagskrárgerð á FM957, Létt Bylgjunni og Bylgjunni undanfarin fimm ár.
Erna Hrönn tjáir sig um breytingarnar í opinni færslu á Facebook síðu sinni þar sem hún segist hafa komið víða við á undanförnum fimm árum en fjörið hafi byrjað þegar hún var fengin til að lesa „sjóðandi heit“ FM-stef sem hljómuðu svo í nokkur ár. Hún gerir síðan upp litríkan feril sinn á öldum ljósvakans:
„Síðdegisþátturinn Fjögur-sex á FM957 var fyrsta dagskrárgerðin sem mér bauðst að taka þátt í á útvarpssviðinu og var það með Brynjari Má en við færðum okkur svo yfir í Morgunþáttinn Magasín á sömu stöð og við bættist Þórhallur Þórhallsson og seinna nafna mín Erna Dís Schweitz Eriksdóttir. Ég fékk líka aðeins að sýna mig á Stöð 2 í Íslenska listanum en þar sá ég um fréttainnslög um stjörnur tónlistarbransans.“
Erna Hrönn fór í fæðingarorlof í byrjun árs 2012 en að því loknu tók við hjá henni skemmtilegt verkefni sem fólst í því að kynna fyrirtækið fyrir skólahópum.
„Síðan kom að því að ég fékk að spreyta mig „sóló“ á sunnudagskvöldum á FM957 þar sem ég fékk þekkta tónlistarmenn í einlægt spjall í þættinum Kósý. Ég man enn eftir stresskastinu fyrstu þættina sem ég var minn eigin tæknimaður, ég hélt hreinlega að ég myndi deyja úr vanlíðan!“ ritar Erna Hrönn.
„Þættirnir lifðu í nokkra mánuði og á sama tíma byrjaði ég á Létt-Bylgjunni. Sumarið 2013 fékk ég fyrsta tækifærið á Bylgjunni og það var í hrikalega skemmtilegum þætti sem hét Hreimsborgarar og tók við af Simma og Jóa á laugardagsmorgnum,“ segir Erna og bætir við að það hafi aldrei verið jafn skemmtilegt að vakna á laugardagsmorgnum. „Ég leysti líka Þórunni Ernu nokkrum sinnum af í næntís þættinum Algjört möst um sumarið og það var alveg hrikalega skemmtileg handritagerð. Í september 2013 var mér boðið að taka við af Ólafi Þór í Morgunþættinum Maríó á FM 957 og standa vaktina með ofurbarkanum Sverri Bergmann sem sælla minninga rústaði mér í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir „örfáum“ árum. Það var skemmtilegt tímabil þó það hafi verið krefjandi að rífa sig á fætur uppúr 6 á morgnana, vera í loftinu 7 til 10, taka á móti skólahópum tvisvar til þrisvar í viku strax eftir þátt og sýna þeim fyrirtækið í tvo tíma, sinna Létt Bylgjunni og undirbúa næsta Morgunþátt. Plús það að sinna söngverkefnum utan vinnutíma og familíunni,“ ritar hún jafnframt og lýsir þessu tímabili sem „algjörri klikkun.“
„Það varð úr að mín var ekki lengur óskað í Morgunþættinum eftir sumarfríið 2014 en ég hélt áfram með Létt-Bylgjuna og sá alfarið um skólaheimsóknirnar fyrir fyrirtækið sem undir það síðasta voru orðnar alla virka daga, jafnvel tvær á dag.“
„Í árslok 2014 fékk ég uppsagnarbréf í hendur en mér bauðst að vinna áfram sem verktaki sem ég gerði og fékk meðal annars að vinna Jólaþátt fyrir Bylgjuna þar sem ég fékk góða gesti í settið. Í byrjun árs 2015 tók ég við kvöldvaktinni á Bylgjunni á virkum kvöldum. Skólaheimsóknirnar hættu síðastliðið haust en dagskrárgerðin á Létt Bylgjunni og Bylgjunni héldu sínu striki og einnig fékk ég að leysa af drengina í Bítið milli jóla og nýjárs með stuðboltanum Ásgeiri Páli,“ ritar söngkonan einnig en nú er komið að tímamótum.
„Þá var verktakasamningnum mínum hjá 365 sagt upp síðastliðinn fimmtudag og síðasta vaktin mín hljómaði á Létt-Bylgjunni á föstudaginn. Ég tók enga dramatíska kveðjustund í loftinu en þetta hefur verið mikið og stórt ævintýri sem skrítið er að kveðja en hver veit nema röddin muni hljóma síðar á öðrum miðli en það verður tíminn bara að leiða í ljós. Það er virkilega gaman að líta yfir farinn veg því maður er fljótur að gleyma því sem maður hefur gert og áorkað og ég er þakklát fyrir reynsluna og allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst á þessum árum, bæði samstarfsfélögum og þeim sem hafa litið til mín í spjall eða skólaheimsókn,“ ritar Erna Hrönn og endar færsluna á þessum fleygu orðum: „Erna Hrönn þakkar fyrir samfylgdina…Takk fyrir að hlusta!“