Jón Þór flakkar um heiminn og flúrar fólk
„Ég lét gamlan draum rætast þegar ég ákvað að pakka öllu saman og taka sénsinn. Ég hugsaði bara „fokkitt“, ef þetta virkar ekki er alltaf möguleiki að koma heim og byrja upp á nýtt.“ Þetta segir Jón Þór Ísberg um ástæður þess að hann ákvað að losa sig við flestar af veraldlegum eigum sínum og leggja á flakk um heiminn með einn bakpoka, já og auðvitað tattúvélina sína.
Jón Þór var harðákveðinn í því frá unga aldri að verða húðflúrari. „Ég man eftir tónlistarhátíð í Kaplakrika árið 1989, þar sem ég gekk um á meðal rokkaranna og gjörsamlega missti kjálkann í gólfið þegar ég stóð skyndilega frammi fyrir tveggja metra flúruðum mótorhjólamanni. Ég tók í handlegginn á honum og byrjaði að skoða flúrin, alveg dolfallinn.“
Nokkrum árum seinna steig hann í fyrsta sinn inn á húðflúrstofu Helga heitins tattú. „Það var bara eitthvað sem heltók mig, ég varð ein augu og fannst ég strax eiga heima þarna. Ég vissi að þetta vildi ég læra og byrjaði strax að suða í Helga um að kenna mér.“ Jón Þór var þolinmóður og Helgi tók hann inn sem lærling þegar hann varð 21 árs gamall. „Þetta hafðist með þrjóskunni minni, held ég. Ég hékk mikið á stofunni og Helgi ætlaði alls ekkert að kenna mér til að byrja með. Á þessum árum var mikilvægt að sýna að manni væri alvara.“
Nám Jóns Þórs hófst sem sagt fyrir tíma internetsins. „Þetta var allt öðruvísi en í dag. Það var heilmikið fyrirtæki að verða sér úti um vél. Maður þurfti að hafa réttu samböndin og geta sannað að maður væri í þessu fyrir alvöru. Eftir bréfaskriftir og undirbúning fór ég svo sjálfur til Bandaríkjanna árið 1998 og keypti mér sett af græjum. Ég var ákveðinn í að sanna fyrir Helga að ég ætlaði að læra að flúra, með eða án hans hjálpar.“
Móðir Jóns Þórs studdi hann frá upphafi varðandi val hans á námi, en pabbi hann hefði kosið aðra leið fyrir hann. „Pabbi vildi að ég lærði á tölvur og eitthvað praktískt. Mér leiðast þannig tæki alveg svakalega svo það átti aldrei við mig.“
Jón Þór lærði listina af Helga í þrjú ár. Húðflúraranám er ekki staðlað eða í föstum skorðum og misjafnt hversu langan námstíma fólk þarf. „Við erum mismunandi lengi að tileinka okkur tæknina og þróa list okkar. Í dag sér maður flúrara sem hafa kannski verið að í tvö ár og eru mjög góðir. Helgi kenndi á gamla mátann. Ég byrjaði í þrifum og flúraði fáa aðra en sjálfan mig þessi þrjú fyrstu ár. Áherslan var lögð á gott handverk hjá þessum gömlu körlum í bransanum. Það var einfaldlega ætlast til þess að maður framkvæmdi það sem var lagt fyrir mann.“
Pabbi vildi að ég lærði á tölvur og eitthvað praktískt. Mér leiðast þannig tæki alveg svakalega svo það átti aldrei við mig.
Í framhaldinu flutti Jón Þór til Englands og fékk vinnu sem flúrari þar. „Ég var úti á árunum fyrir hrun, 2002–2007, pundið var hundraðkall og ég fékk ekki mikið fyrir launin mín á Íslandi. Þegar ég kom svo heim hækkaði það í 200 kall. Það var skrítið að koma heim – einhver ónotatilfinning sem fylgdi því.“
Eftir heimkomuna fór Jón Þór að flúra á stofunni Tattú og skart og í framhaldinu stofnaði hann sitt eigið stúdíó, Kingdom within, sem hann starfrækti á Skólavörðustígnum í sex ár, eða þar til hann fór á flakk um heiminn með bakpokann sinn.
17 árum eftir að Jón Þór byrjaði að flúra fékk hann í fyrsta sinn að flúra pabba sinn. „Þetta var rétt áður en ég fór á flakkið. Pabbi vissi ekki hvenær ég myndi koma heim aftur. Mér þótti mjög vænt um að fá að flúra pabba. Hann fékk sér mynd af merinni sinni og trippinu. Ljósmynd af þeim var fyrirmyndin, en hún var tekin í haga uppi í sveit fyrir norðan.“
Hver flúrari á sínar sterku hliðar. Jón Þór er bestur í hefðbundum, japönskum flúrum og munsturgerð. „Ég geri samt ýmislegt annað, eiginlega bara það sem lagt er fyrir mig, það sem kúnninn óskar eftir. Ákveðna hluti tek ég þó alls ekki að mér og hika ekki við að vísa á aðra flúrara. Ég fæ oft áskoranir sem reyna mikið á. Það sem stendur upp úr á ferlinum er líklega eitt verk. Það var ermi sem ég hannaði út frá verkum Erró. Ég notaði klippimyndir, aðallega úr pop-art stílnum hans. Það tók langan tíma að finna út úr þessu og plana ermina. En útkoman var frábær.“
„Ég hef oft og mörgum sinnum sagt nei við óskum kúnna. Stundum sendi ég þá hreinlega annað, ef ég er ekki viss um að geta uppfyllt óskir þeirra. Það skiptir máli hvað maður setur á fólk og auðvitað vil ég alltaf að kúnninn sé ánægður. Svo eru það þeir sem koma með miður góðar hugmyndir. Þá reyni ég eiginlega að útskýra hvers vegna hugmyndin virkar ekki – ef viðkomandi vill ekki hlusta verð ég hreinlega að vísa honum frá.
Suma hluti geri ég alls ekki, þá yfirleitt af siðferðisástæðum. Til dæmis ef fólk vill eitthvað sem tengist rasisma.
Suma hluti geri ég alls ekki, þá yfirleitt af siðferðisástæðum. Til dæmis ef fólk vill eitthvað sem tengist rasisma. Ég hef oft neitað fólki á þessum forsendum. Það versta á Íslandi eru samt ratleikirnir og dimmiteringar. Hræðilegt í einu orði. Þá koma inn hópar af fullu fólki, sem á alls ekki heima á húðflúrstofum. Ég ætla svo sem ekki að fordæma þá sem fá sér flúr með einn eða tvo bjóra í líkamanum, en hitt er allt annar hlutur.“
Það dylst varla neinum að húðflúrum hefur vaxið ásmegin á undanförnum árum og óhætt er að fullyrða að þau séu í tísku á okkar tímum.
„Það varð ákveðin sprengja fyrir um 20 árum í tattúheiminum. Internetið kom til sögunnar, raunveruleikasjónvarp og samfélagsmiðlar. Áður fyrr mátti ekki sjást í flúr í módelbransanum. Björk Guðmundsdóttir var fyrsta módelið sem sást á sýningarpöllum með flúr. Hún braut þannig ísinn í módelbransanum. Hún er bara pönkari út í eitt og hefur eflaust gefið þeim fingurinn.“
Ekki er ýkja langt síðan húðflúr þóttu dálítið skuggaleg. Þau tengdust gjarnan fólki í undirheimum, jaðarfólki, sjómönnum og mótorhjólamönnum. „Sjálfur birtist ég á mynd í Séð og heyrt snemma á tíunda áratugnum og undir myndinni stóð „hættu þessu kroti“. Í dag opnar maður ekki tímarit, vefsíðu eða sjónvarp án þess að sjá flúr.“
Það er búið að taka töfrana burt að sumu leyti, þegar annar hver maður er kominn með ermi eða álíka.
Að mati Jóns Þórs eru kostir og gallar við auknar vinsældir húðflúra. „Fólk hefur fengið innsýn í þennan heim, gegnum netið og samfélagsmiðla og það hefur undið upp á sig. Nú orðið er allt fyrir opnum tjöldum. Það er búið að taka töfrana burt að sumu leyti, þegar annar hver maður er kominn með ermi eða álíka. Áður fyrr var námið líka miklu meiri fyrirhöfn. Í dag lærir fólk ekki grunninn á sama hátt, enda liggja upplýsingar á lausu og auðvelt að finna þær á netinu. Ég kann betur við að hafa þetta dálítið neðanjarðar, það eru meiri töfrar í því.“
Margir húðflúrarar ferðast um heiminn með græjurnar sínar og flúra á ráðstefnum eða sem gestir á stofum. Sambönd og tengslanet eru lykilatriði fyrir þá sem hafa hug á að leggjast í ferðalög. „Þetta er fegurðin við starfið, það eina sem þarf eru græjurnar og lítil taska undir þær. Ég byrjaði að kynnast fólki í bransanum strax hjá Helga, sum tengslin hafa haldist síðan þá, önnur ekki. Ég nýtti mér samböndin til að skipuleggja byrjunina á ferðalagi mínu. Þegar ég rak sjálfur stofuna fékk ég gjarnan til mín gestakennara og núna hef ég getað endurgoldið sumar heimsóknirnar.“
Ef flúrari hefur áhuga á að vinna á ákveðinni stofu um tíma, sendir hann einfaldlega áhugayfirlýsingu með tölvupósti eða skilaboðum á Facebook. „Yfirleitt sendir maður myndir af verkum sínum og bíður eftir svari. Fólk er yfirleitt mjög jákvætt og hjálpsamt. Á þessum ferðalögum getur hótelkostnaðurinn verið þungur baggi, svo ég hef boðið mínum gestum gistingu á mínu heimili og fengið að njóta sömu gestrisni þegar ég hef heimsótt þá. Ég bjó til dæmis hjá Arlin og Cate, vinum mínum í Vancouver, í þrjár vikur í upphafi ferðalagsins míns í fyrra. Gisti á sófanum og fékk að taka þátt í þeirra daglega lífi. Ég þarf ekki meiri þægindi en það og þetta var frábær tími. Á svona ferðalögum kynnist maður fólki á annan hátt og það hefur gefið mér mikið. Ég hef aldrei lent í neinu veseni í þessum aðstæðum.“
Eftir dvölina í Kanada var ferðinni heitið til Havaí þar sem Jón Þór dvaldi í þrjá mánuði og flúraði á tveimur mismunandi stofum. „Lífið á Havaí var mjög rólegt. Ég flúraði rosalega lítið og þurfti að lokum að fara annað til að þéna pening. Ég ákvað að koma heim til Íslands, stoppaði hér í tvo mánuði og fór svo til Filippseyja.“
Jón Þór ljómar þegar hann lýsir mánuðunum þremur sem hann dvaldi á Filippseyjum. „Allir voru svo yndislegir þarna. Ég fór á ráðstefnur, dæmdi í keppnum, og flúraði heil ósköp. Hápunktur dvalarinnar var þó þegar ég fór í pílagrímsför upp í fjöllin á sömu eyju og höfuðborgin Manilla er, til að hitta konu sem er elsti flúrari í heimi. Ég slóst í för með hópi filippeyskra bankamanna sem voru á leið á svipaðar slóðir. Kannski ekki alveg fólkið sem ég hangi með á hverjum degi, en þau komu mér algjörlega á óvart og voru alveg frábær. Til að komast upp í fjallahéraðið þurfti að keyra einn af tíu hættulegustu þjóðvegum í heimi. Eftir bílferðina tók við ganga upp fjallið til að komast í þorpið.“
Apo Whang Od er elst núlifandi húðflúrmeistara. Hún er 97 ára gömul og var flestum ókunnug þar til fyrir 3–4 árum síðan. „Ég heyrði fyrst af henni fyrir þremur árum en í dag er hún fræg í bransanum. Mannfræðingar hafa þó verið að heimsækja hana árum saman. Hún hefur hlotið titilinn landslistamaður Filippseyja, sem er mikill virðingarsess. Hún hefur flúrað allt sitt líf. Blekið hennar er sót sem safnast undir eldstöðvunum þar sem maturinn er eldaður, blandað með vatni í litla tréskál, og nálin hennar er þyrnir úr sítrónutré. Til að búa til munstrin, sem eru hefðbundin fyrir hennar ættbálk, notar hún þurrkuð strá sem hún brýtur í þríhyrning. Aðferðirnar eru eins frumstæðar og mögulegt er. Eina nútímatólið sem hún notar er rakvél, en húðin er rökuð áður en hægt er að flúra.“
Jón Þór fékk flúr á hnéð hjá þessari merkilegu konu. „Það er hefðbundið verndartákn. Tíminn sem ég sat hjá henni var magnaður. Ferðalagið á undan var æðislegt og ég hafði varið einum og hálfum tíma með innfæddum leiðsögumanni sem sýndi mér þorpið og hrísakrana og kynnti mig fyrir börnum og fullorðnum þorpsbúum. Þarna eru aðstæður mjög frumstæðar, ekkert rafmagn til að mynda. Fólk býr í kofum en er nægjusamt og hamingjusamt.“
Ég er miklu hamingjausamari núna þegar ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að viðhalda veraldlegum eigum mínum.
Jón Þór dvelur nú á Íslandi í faðmi fjölskyldunnar fram á sumarið. Hann flúrar á Bleksmiðjunni á meðan hann dvelur hér. „Svo verður pokinn fylltur aftur af vinnutækjum og fötum og ferðinni er heitið til Svíþjóðar, Austurríkis og Þýskalands. Í haust ætla ég svo aftur til Asíu, halda áfram að flakka um eyjar og skoða lífið þar.“
Veraldlegar eigur Jóns Þórs bíða í nokkrum kössum í geymslu heima hjá systur hans. „Allt annað var selt, gefið eða sent í Góða hirðinn. Ég átti fullt af fínum hlutum, en flest mátti missa sín. Þetta er án efa það besta sem ég hef gert. Í dag er peningurinn í vasanum mínum það sem ég á. Ég er miklu hamingjusamari núna þegar ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að viðhalda veraldlegum eigum mínum. Í dag gisti ég á sófanum hjá mömmu og mér finnst það æði. Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur og núna!“